Enn einn bullarinn ?

Það hefur farið eins og mig grunaði í upphafi að gosið í Eyjafjallajökli myndi laða til landsins fjölda erlendra ferðamanna, sem annars hefðu ekki komið hingað. Einkum væri það mikilvægt að hingað myndu koma þeir útlendingar sem helsta hafa áhrif á grundvelli þekkingar og reynslu víða um lönd.

Sjálfur hef ég unnið með fjölmörgum af þessu mönnum, sjónvarps- og útvarpsmönnum frá öllum heimsálfum, rithöfundum, blaðamönnum, ljósmyndurum og stjórnmálamönnum.

Álit þeirra er einróma og í samræmi við það sem ég hef haldið fram hin síðari ár, að náttúra Íslands, einkum á hinum eldvirka hluta landsins, sé eitt af helstu undrum heims og standi framar ýmsum þeim svæðium, sem hingað til hafa verið talin merkilegust, svo sem frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone.

Sú skoðun mín hefur verið staðfest í útttektum virtra vísindamanna og ferðafrömuða.

En hér heima er oft eins og maður sé að klappa í stein varðandi þetta mál, menn láta sér fátt um finnast og tala með lítilsvirðingu um "eyðisanda, grjót og urðir."

Ástæðan er einföld: Menn eru enn fastir í þeirri sýn að náttúran sé einskis nýt nema á mælikvarða megavatta og tonna af málmum, sem hægt sé að kreista út úr henni.

Það truflar nefnilega hríslandi fögnuðinn yfir stjótfenginni þenslu og gróða við undirskrift verktakasamninga og orkusölusamninga ef bent er á gildi íslenskrar náttúru ósnortinnar, hvað þá ef því er haldið fram að til lengri tíma litið gefi það meira af sér fjárhagslega að nýta sér gildi hennar öðruvísi en með því að gera sem mest af henni að virkjana- og iðnaðarsvæðum.

Hamrað er á því stanslaust að virkjanir og lón séu aðeins á eyðisöndum og urðum, þótt vitað sé, til dæmis, að í flestum tilfellum er sökkt landi undir miðlunarlón, sem er grænt og gróið í lægðum og vinjum hálendisins.

40 ferkílómetrar af grónu landi fóru undir Hálslón og næstum því svo mikið undir Blöndulón. Gróðurlendisvin mun fara undir lón vegna virkjunar Skjálfandafljóts og gróðurlendi verður sökkt undir lón Búlandsvirkjunar, svo að dæmi séu tekin.

Í augum margra Íslendinga eru þeir útlendingar bullarar og vitleysingar, sem sjá möguleikana og gildið, sem ósnortin íslensk náttúra felur í sér, - vita ekkert hvað þeir eru að segja, því að auðvitað vitum við þetta allt best sjálf.

Jean De Lafontaine, sem komið hefur til 62ja landa og segir íslenska náttúru taka öllu fram sem hann hafi áður séð,  er þar af leiðandi enn einn bullarinn sem kemur hingað til lands, með jafn vitlausar hugmyndir um land okkar og kínverjinn Huang Nubo.


mbl.is „Náttúran er hreint út sagt ótrúleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Hestaflið í almættinu er verðlaust hjá Orkustofnun." H.K.Laxness

En græðgi íslenskra "athafnamanna" eru engin takmörk sett.

Hversu mörg - og hvaða lönd eru með hærra neyslustig en við Íslendingar?

Árni Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 12:42

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hugmyndir Huang Nubo um golfvöll á á Hólsfjöllum eru álíka gáfulegar og ef þér dytti í hug Ómar að útbúa golfvöll við Landmannalaugar.Og þú mátt ekki stilla því þannig upp að allir sem vilja nýta orku landsins viti ekki af náttúru landsins og þeirrar fegurðar sem getur falist í berum fjöllum ,skóglausu og gróðursnauðu landi,jöklum, og eldspúandi fjöllum og litadýrð þeirra.ég hef engan erlendan ferðamann hitt en sem segist hafa komið hingað vegna þess gróðurs sem er fyrir að finna hérna og hversu merkilegur hann er.En það er gott að þér  finnst það og mér, þótt mér finnist reyndar að gróður sem fer undir virkjunarlón sé ekki merkilegri en hver annar  þótt um einhvern hæðarrmun sé um að ræða.

Sigurgeir Jónsson, 25.9.2011 kl. 14:29

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er náttúraulega BARA bull í Ómari. Hann stillir málum þannig upp, eins og andstæðingum virkjanaframkvæmda er alltaf háttur, að skynsöm nýting náttúruauðlindanna, komi í veg fyrir að hægt sé að njóta náttúrunnar á Íslandi. Þetta er regin firra, eins og hans eigin dæmi reyndar sanna.

Sömu sögu er að segja um hvalveiðar. Andstæðingar þeirra fullyrða að ekki sé hægt að gera út á hvalveiðar og jafnframt nýta þá í hvalaskoðun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 17:00

4 Smámynd: Gunnar Waage

Þetta var þessi fínasti pistill, ég var orðin upphafin hérna í stólnum bara, þá komstu með Huang Nubo inn í þetta í síðustu setningunni.

Svona eins og útgáfan af biblíunni sem bætt var við kafla í endann, sem hófst svona; árið ,,,,,,,, fæddist svo Hr. Moon,,,,,,,,,,,,,.

Gunnar Waage, 25.9.2011 kl. 17:40

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

'Þetta er skemmtileg umræða. Hingað til hefur síbyljan verið sú að það sé allt í lagi að sökkva "eyðisöndum og grjóti undir miðlunarlón."

Þegar bent er á að oftar en ekki sé um að ræða gróskumikil gróðulendi er sagt, að þessi gróður sé ekkert merkilegri en hver annar gróður.

Sem sagt, það skiptir engu hverju er sökkt, það er allt saman lítils sem einskis virði, hvort sem það er grjót eða gróður.

Þá vitum við það. Herðubreiðarlindir og gróðurvinin við Gæsavötn eru ekkert merkilegri en hver annar gróður, til dæmis í Reykjavík eða sveitum landisns.

Jón Helgason bætist þar með við í hóp bullaranna þegar hann segir í ljóðinu Áföngum að melgrasskúfurinn harði við Köldukvísl sé merkilegri en plöntur í hlýjum skrúðgörðum.

Og útlendingarnir sem skríða með jörðinni til þess að taka myndir af eyrarrósinni þar sem hún grær í breiðum á auðnum við læki á hálendinu, með eyðimörk og jökla í bakgrunni, eru náttúrulega mestu bullararnir.

Mesta bullið var náttúrulega að þjóðin skyldi velja holtasóley sem þjóðarblóm Íslands. Í skrúðgörðum og gróðurhúsum Reykjavíkur og Hveragerðis eru miklu flottari og merkilegri plöntur.

Og vegna þess að Huang Nubo þarf ekki og á ekki að fá að eignast 300 ferkílómetra til að reisa hótel og að hugmynd hans um golfvöll er augljóslega vanhugsuð er allt annað sem hann segir afgreitt sem svipað bull.

Sagt er að Nubo sé að kaupa hin ónsnortnu víðerni. Hið rétta er að Grímsstaðir eru í miðri bæjarröð byggðar sem endar í Möðrudal.

Sagt er að það sé bull hjá honum að hægt sé að finna nýja ferðamannamöguleika á þessum slóðum af því að það sé svo kalt, það sé svo mikill snjór, það sé svo dimmt og þetta sé svo langt frá öðrum löndum.

Samt er búið að leggja heilsársveg að Dettifossi og alþjóðlegir flugvellir á báðar hendur, -  það er líka lengra frá löndum Vestur-Evrópu til Lapplands, þar sem er kaldara, dimmara og meiri snjór, en fleiri ferðamenn koma þangað á veturna en allt árið til Íslands.

Í Lapplandi er söluvaran kuldi, myrkur, þögn og ósnortin náttúra en hér á landi er þetta sama talið það sem mest fæli burtu erlenda ferðamenn.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2011 kl. 19:02

6 Smámynd: Gunnar Waage

Ég held reyndar að ferðamennska/hótelrekstur um hálendið sé hugmynd sem er vel verð skoðunar. Hitt er annað mál að það á ekki að selja erlendum ríksborgara svona stórt landssvæði, punktur.

Eigum við ekki að bjóða honum íbúð í Hóla eða Fellahverfinu í Reykjavík, þaðan er gott og fallegt útsýni.

Gunnar Waage, 25.9.2011 kl. 21:23

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Guðmunduri Andra Thórssyni, rithöfundi, finnst hugmynd Kínverjans illa ígrunduð og mælti með því í einhverjum pistli sínum að hann prófaði fyrst að reka hótel á Egilsstöðum, áður en að hann réðist í þetta óðs manns æði (að mati rithöfundarinns).

Menn virðast ekki átta sig á því að Kínverjinn kemur frá fjölmennu landi. Hann er markaðsmaður og hefur sambönd í heimalandi sínu. Hann þarf ekki að vekja áhuga stórs hluta þjóðar sinnar, á hótelgistingu á þessum óvenjulega stað, til þess að hugmynd hans gangi upp.

En hvað veit kínverjinn svo sem um það hvernig best er fyrir hann að fjárfesta. Hann á auðvitað að fara að ráðum rithöfundarins og reka bara gistiheimili á Egilsstöðum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 21:38

8 identicon

Enn einu sinni er Ómar Ragnarsson að segja frá sinni sýn af landinu og erlendum gestum, sem hann hefur unnið með !

Þá birtast enn eftur fulltrúar öfga hægriarms sjálfstæðisflokksins og reyna að niðurlægja hugsanir og sýn Ómars !

JR (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 21:38

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skal ítreka það enn og aftur að rétt eins og við höfum í lögum okkar að útlendinga megi ekki ekki eiga meira en 49% í sjávarútvegsfyrirtækjum ætti það sama að gilda um landareignir og þá líka varðandi þá sem búa á EES-svæðinu.

Því að Danir, sem eru þó inni í ESB, hafa í gildi undanþágu til að koma í veg fyrir útlendingar eignist þar sumarhús og lendur.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2011 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband