Af hverju ekki tveir jafn réttháir samningsaðilar?

Það verður ekki af forsætisráðherra Ísraels skafið að flutningurinn á ræðu hans á allsherjarþingi Sþ var afar glæsilegur og margt af því sem hann sagði athyglisvert, til dæmis um lagalegan rétt minnihlutahópa í landinu, svo sem milljón Araba. 

Ísrael er vestrænt lýðræðis- og menningarríki þar sem margt er vel gert.

Hann var harður á því að ekki væri hægt að viðurkenna sjálfstæði Palestínu nema á undan færu fram samingaviðræður á milli deiluaðila um það mál. Á þessum grunni lýsti hann yfir af mikilli sannfæringu að því er virtist hvað varðaði, að friðar- og samningavilji hans væri mikill og aðeins stæði á Abbas að taka í útrétta sáttahönd.

Þetta er svolítið einkennilegur málflutningur, því að hann stangast á við það, sem var uppi í byrjun Palestínudeilunnar, þar sem Sþ bauð Gyðingum og Palestínumönnum upp á að sjálfstæði tveggja aðskildra sjálfstæðra ríkja í landnu yrði viðurkennt.

Gyðingar þáðu  boðið að sjálfsögðu en skiljanlegt var að á þessum tíma gætu Palestínumenn það ekki.

Að vísu er það rétt að það voru ekki Gyðingar einir sem höfðu flutt til landsins á þessum tíma, en innflutningur Gyðinganna var mun stórtækari og öðruvísi að því leyti að þeir töldu sig vera að endurheimta land, sem forfeður þeirra hefðu verið reknir frá fyrir 1800 árum.

Þetta er svona álíka og að þeir 14 milljón Þjóðverjar, sem voru fluttir nauðugir frá landsvæðum í Evrópu í stríðslok 1945, þar sem forfeður þeirra höfðu búið öldum saman allt fram að því, flyttu nú í stórum stíl inn í Pólland, Súdetahéruð Tékklands og Kaliningrad og krefðust þess nú að stofna þar sérstök þýsk ríki.

Engan þyrft að undra þótt Pólverjar, Tékkar og Rússar ættu erfitt með að samþykkja uppskiptingu þessara landa nú.

Samt er stóri munurinn sá að aðeins 66 ár eru síðan Þjóðverjar voru reknir af þessum landsvæðum, en 1800 ár síðan Gyðingar lentu í herleiðingunni frá landinu, sem þeir hafa alla tíð talið sig eiga sem guðsútvalin þjóð.

Í ræðu Netanyahu kom Zíonisminn afar glöggt fram og var settur fram eins og ekkert hefði verið sjálfsagðara en að Gyðingar yfirtækju helming Palestínu 1948.

Athyglisvert er að þeim tókst að ná þessu fram með hermdarverkum sem náðu hámarki með drápi Folke Bernadotte fulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

Á þessum tíma voru Evrópuþjóðir með móral vegna Helfararinnar og hefðu þá átt að friðþægja Gyðingum með því að leyfa þeim að setjast að í löndum Evrópu, en í staðinn var þægilegra að láta það eftir þeim að leggja undir sig land í annarri heimsálfu.

Stalín hafði andúð á Gyðingum og var feginn að leyfa rússneskum Gyðingum að fara til Palestínu.

Þetta voru afleiðingar striðsins og leiðtogar þjóðanna, sem samþykktu þetta, báru ábyrgðina, rétt eins og á hinum miklu nauðungarflutningum á Þjóðverjum í Evrópu.

Þjóðverjar voru með móral eftir stríðið og hvorki þá né síðar hafa þeir heyrst möglað yfir nauðungarflutningunum miklu, enda vitað mál að það hefði enga þýðingu.

Íbúar Palestínu, sem boðið var að stofna sjálfstætt ríki við hlið Ísraelsríkis, voru hins vegar í annarri aðstöðu en Þjóðverjar og nágrannar þeirra, því að þeir höfðu enga þörf fyrir að hafa móral yfir því að búa í landinu. Þess vegna höfnuðu þeir boðinu en áttuðu sig ekki á því, að við ofurefli var að etja.

Ef þeir hefðu tekið boðinu og tvískipting landsins heppnast með tveimur jafn réttháum og álíka stórum friðsamlegum ríkjum, væri ástandið annað nú.

Nú, um síðir, óska Palestínumenn eftir því að stofna sjálfstætt ríki og taka í raun því boði, sem rétt var að þeim 1948.

En nú bregður svo við að allt ætlar vitlaust að verða.

Netanyahu nefndi í ræðu sinni að víða um lönd væru herstöðvar, sem útlendingar hefðu til að gæta friðar.

Bretar hefðu enn herstöð á Kýpur, Frakkar í Afríku og ekki þyrfti að fjölyrða um bandarískar herstöðvar víða um heim. Þessi ríki væru þó öll talin sjálfstæð ríki.

Þetta var greinilega sett fram til að réttlæta varðstöðvar og hernám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum.

En samkvæmt þessari lýsingu ísraelska forsætisráðherrans yrði það eðlilegt að Ísraelsmenn hefðu herstöðvar í sjálfstæðu ríki Paelstínumanna.  Að minnsta kosti skil ég það sem svo.

Ef ráðherrann telur það ekki á skjön við sjálfstæði Palestínuríkis að Ísraelsmenn hafi þar herstöðvar, af hverju er hann þá á móti því að Palestína verði sjálfstætt ríki?

Og er ekki eðliegra að tvær jafn réttháir aðilar semji um frið heldur en að annar aðilinn sé rétthærri en hinn?

Er það ekki í anda þess Salómonsdóms SÞ sem kveðinn var upp 1948?

Þótt rétt sé að nágrannaþjóðir Ísraelsmanna hafi hafið stríðin 1948, 1967 og 1973, blasir hitt við að í öll skiptin hafa Ísraelsmenn lagt undir sig meira og meira land, þannig að mikil misskipting er orðin.

Þeir nýta öll færi til að ná undir sig eigum Palestínumanna í Jerúsalem og víðar, og "landnemabyggðirnar" eru dæmi um það hvernig sífellt er vegið í sama knérunn.

Jerúsalem er bæði helg borg Gyðinga og Múslima en samt ljá Ísraelsmenn ekki máls á því að henni verði skipt í samræmi við það.

Það var áhrifamikið á horfa á "útrétta sáttahönd" Netanyahus  í ræðu hans, en spurningin er: Sáttahönd um hvað?

 

 

  


mbl.is Lýsti yfir stuðningi við Palestínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því ekki það ?

Ég hef nú fylgst með Skaftárkötlunum í 45 ár  og tekið af þeim myndir á meðan á hlaupum hefur staðið og strax eftir þau.

Aldrei hef ég þó séð "ísfall" líkt því sem sjá mátti í einum sigkatlannna í Kötlu í sumar. Þess vegna finnst mér tilgáta Ekinars Kjartanssonar ekki fráleit né heldur tilgátur um örgos við Hamarinn fyrir 15 árum eða gos heldur norðar nú í sumar.

En það er erfitt að sanna nokkuð og þess ber að geta að í undanfara Gjálpargossins 1996 sást ekkert "ísfall" (samanber jarðfall) á borð við það sem sást í Kötlu í sumar.


mbl.is Lítið eldgos í Kötlu í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru hólar nú orðnir fjöll ?

Borgarhólar heita lágir hólar efst á bungu Mosfellsheiðar. Hólarnir rísa í mesta lagi um tuttugu metra yfir sléttuna í kring eða álíka hátt og Landakotshæðin eða Valhúsahæð.

Engum hefur dottið í hug að kalla þessar hæðir fjöll eða að kalla Rauðhólana fjöll.

En nú er þetta breytt ef marka má tengda frétt á mbl.is, því að þar segir að á Mosfellsheiði sé "fjallið" Borgarhólar.

Ef þeir eru orðnir að fjöllum er næsta stig að segja að Reykjavíkurflugvöllur sé fyrir vestan "háfjallið" Öskjuhlíð !


mbl.is Maðurinn ekki alvarlega veikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir fátæku hjálpi þeim ríku !

Ekki þarf annað en að líta á hagtölur til að sjá að Kinverjar eiga enn langt í land með að koma á svipuðum almennum lífskjörum tíðkast á Vesturlöndum.

Þótt æ fleiri Kínverjar hafi það gott og séu ríkir og með svipuð lífskjör og ríkja á Vesturlöndum, er það aðeins tiltölulega lítill hluti kínversku þjóðarinnar sem nýtur slíks.

Kínverjar eru, þegar á heildina er litið, fátæk þjóð á vestrænan mælikvarða, þróunarland eins og það er kallað.

Þess vegna er það dálítið skondið þegar vesturlandabúar heimta að Kínverjar hjálpi þeim út úr skuldavanda og kreppu, sem er algerlega heimatilbúin í kjölfar græðgi og ábyrgðarleysis.


mbl.is Rætt um Kína sem bjargvætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama og um sjávarútvegsfyrirtæki ?

Í íslenskum lögum er útlendingum ekki heimilt að eiga meira en 49% hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvers vegna? Væntanlega vegna þess að við viljum ekki að sjávarauðlindin komist í hendur útlendinga.  Ég er þeirrar skoðunar og tel raunar að 49% sé skuggalega há prósenttala.

Ég hef hvergi séð gefið upp hve stóran hlut útlendingar eiga í sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Ef farið er að reglunum um eignarhald virðist það vera stefnan að það sé af hinu góða í mörgum tilfellum að fá erlenda fjárfestingu inn í greinina til að örva hana og íslenskt efnahagslíf.

Svo er að skilja að sama reglan um eignarhald í sjávarútvegsfyrirtækjum nái yfir fjárfesta innan EES og utan þess.

Svo er að heyra að Huang Nubo hafi í gegnum kynni sín af Íslendingum kynnst þeim möguleikum, sem einstök náttúra Íslands gefur fyrir ferðaþjónustu á öllum árstímum. Íslendingar sjálfir virðast annað hvort ekki hafa trú á þessu eða geta sinnt því.

Íslendingar hafa frekar vilja selja útlendingum orkuauðlindir á þann hátt að álver og stóriðja í eigu útlendinga eignist í raun heilu landsvæðin í gegnum orkusölusamninga sem fórna miklum náttúrverðmætum í þeirra þágu.

Meðan Alcoa á álverið á Reyðarfirði hefur virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar í raun verið afsalað til þessa erlenda stórfyrirtækis með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hægt var að valda á Íslandi.

Rétt eins og við ömumst ekki við því að útlendingar eigi hæfilega stóran eða öllu heldur lítinn hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum virðist liggja nokkuð beint við að svipað eigi við um hugmyndir Nubos um að leggja fé í ferðaþjónustu á Íslandi.

Hann ætti að geta gert það með því að leigja það land, sem til þarf, en skiljanlegt er ef hann vill frekar vera eigandi þess.

Liggur þá ekki beint við að hann fái að eignast hlut í landi Grímsstaða sem nemi ekki meira en 49% eignarhlut?

Ég fæ ekki séð að hann þurfi svo stóran hlut en segjum að hann keypti 49%, þá gæti íslenska ríkið, sem á þegar 25%  keypt 26% eða meira eftir atvikum þannig að jörðin væri áfram að meirihluta til í eigu Íslendinga.  

Eins og er geta erlendir aðilar innan EES-svæðisins keypt land á Íslandi að vild.  Þetta var mjög umdeilt þegar við gengum inn í EES og margir óttuðust stórfelld uppkaup útlendinga á íslensku landi.

Sem betur fer varð sú ekki raunin, en á sama hátt og Danir, sem eru innan ESB, hafa í lögum sínum stórfelldar takmarkanir gegn uppkaupum útlendinga á sumarhúsum ættum við að huga að því að taka upp varnir gegn þeirri hættu að við missum land og auðlindir í hendur útlendinga.

Aðstæður gætu breyst sem yrðu til þess að þarna þyrfti að hafa varann á.

Sá misskilningur er útbreiddur að Grímsstaðir séu hluti af ósnortnum víðernum Íslands. Það eru þeir ekki.

Þetta er bújörð inni í bæjaröð, sem endar suður í Möðrudal. og jörðin er mun lengri á vestur-austur veginn en norður-suður. Hún nær að Jökulsá á fjöllum en ekki lengra í vestur, og suður að Grímsstaðanúpum og Núpaskoti, sem eru um tíu kílómetrum fyrir sunnan bæinn.

Á þessari landareign hefur verið mikill uppblástur, sem hefur að mestu leyti stafað af ofbeit sauðfjár af mannavöldum.

Þegar horft er yfir Grímsstaði í átt til Herðubreiðar og Kverkfjalla, víðernanna norðan Vatnajökuls, er 65 kílómetra bein loftlína til Herðubreiðarlinda, og bærinn Möðrudalur er 40 kílómetrum sunnar en Grímsstaðir.

Það svæði, sem þarf að vera innan Vatnajökulsþjóðgarðs, ætti að mínum dómi að skilgreina sem ævarandi þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja.  Þetta svæði þyrfti að ná ákveðinn kílómetrafjölda inn á austurbakka Jökulsár á fjöllum, sem yrði friðuð um aldur og ævi.

Ósnortin íslensk víðerni með öllum sínum miklu náttúruverðmætum ætti að skilgreina á sama hátt og Þingvellir eru skilgreindir í Þingvallalögunum frá 1928, sem ævarandi eign þjóðarinnar, sem aldrei megi selja né veðsetja. Þannig er reyndar ætlunin að það verði  samkvæmt frumvarpi Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.

Af þeim sökum þarf að skilgreina jörðina Grímsstaði minni en hún er nú, sem nemur því svæði sem verði skilgreint svona.

Ef Huang Nubo eignast hlut í jörðinni sem er örugglega minna en helmingshlutur er vandséð af hverju það ætti ekki að nægja bæði honum og sömuleiðis ætti það að nægja okkur Íslendingum að eiga örugglega góðan meirihluta í þessari sameign.

Eða hvað? Á að gilda annað um þetta en sjávarútvegfyrirtækin? Á að gilda annað um fjárfesta utan EES-svæðisins en innan þess?


mbl.is Fær svar innan fárra vikna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband