Hækkuðu þeir eða fitnuðu?

Í frétt á mbl.is sem þessi stutti pistill er tengdur við, segir að "aukning hafi verið á erlendum ferðamönnum á Vestfjörðum í sumar."

Ekki er sagt hvernig aukning hafi orðið á ferðamönnum, hvort þeir hafi fitnað eða hækkað eða eitthvað annnað. 

Orðið "aukning" er ein af þessum að því er virðist óviðráðanlegu tískuorðum hjá fjölmiðlum í nafnorðasýki þeirra og yfirleitt leiðir notkun orðsins til óþarfa málalenginga og rökleysu. 

Ferðamönnum fjölgaði einfaldlega á Vestfjörðum. 

"Ferðamönnum fjölgaði" er er meira en tvöfalt styttri setning en"aukning hefur verið á ferðamönnum". 

Bráðum verður hætt að segja: "Þau eignuðust fleiri börn" heldur frekar "Það varð aukning á barnafjöldanum hjá þeim." 

Vestfirðir hafa margsinnis áður orðið fyrir barðinu á nafnorðasýkinni.  Tvö dæmi: 

"Það hefrur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum." 

Les: Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum. 

"Það hefur orðið aukning á minnkun tekna fólks á Vestfjörðum."  

Les: Tekjur Vestfirðinga hafa minnkað.

 


mbl.is Fleiri sækja Vestfirði heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Séð með eigin augum".

Berlusconi segist hafa "séð með eigin augum" hve mikið Gaddafi hafi verið elskaður af þjóð sinni. Varla hefur hann verið á frjálsri ferð um Líbíu þegar hann sá þetta heldur í stjórnaðri heimsókn.

Svona hefur heyrst áður. 

Tugir Íslendinga, sem var boðið til Sovétríkjanna sálugu á tímum Stalíns,eða til annarra kommúnistaríkja, jafnvel í margar ferðir, komu stórhrifnir heim til Íslands og sögðust "hafa séð með eigin augum" hve heitt Stalín væri elskaður af öllum og hvílík dýrðarríki hann og leppar hans í öðrum kommúnistaríkjum hefðu stofnað. 

Halldór Laxness nefndi þetta "Gerska ævintýrið". 

Síðar leiðréttu hann og fleiri þetta og sögðust hafa verið blekktir . Aðrir viðurkenndu aldrei neitt.

Þegar Káranhnjúkavirkjun var í smíðum hitti ég fjölda fólks, sem sagðist hafa farið um virkjanasvæðið og "séð með eigin augum" að landið, sem átti að sökkva væri bara einskisverð urð og grjót. 

Samt hafði enginn séð Hjalladal með sínum 40 ferkílómetrum af gróskumiklu og þykka gróðurlendi, heldur aðeins bláenda dalsins við stífluna, þar sem lítill gróður var. 

Nú síðast fyrir rúmri viku sagðist viðmælandi í útvarpsþættinum "Vikulokunum" hafa farið að stíflunni til að sjá hvernig "grjótið" hefði farið undir vatn.  Sú staðreynd að afar góðu beitarlandi fyrir fé var sökkt, sem bændur fengu bætur fyrir, hefur alveg drukknað í síbyljunni um "urð og grjót" sem sökkt sé á hálendinu.

Heldur hefur engi skipt þótt fyrir liggi ótvíræðar heimildir um þetta gróðurlendi, "grjót og urð" skal það vera. 

Eftir að ég flaug með Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra yfir Hjalladal og Hálsinn, hina 15 kílómetra löngu, grænu og bogadregnu Fljótshlíð íslenska hálendisin, og fjölmiðlamaður spurði hann hvað hann hefði séð, sagði hann. "Þarna var einhver gróður en mest melar og sandar". 

Þetta var þveröfugt. Hálslón er 57 ferkílómetrar og landið sem sökkt var undir það skiptist svona: 40 ferkílómetrar gróður,  -  17 ferkílómetrar ógróið land. 


mbl.is Berlusconi: Gaddafi elskaður af þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðug utanríkisstefna.

Þegar ég var rúmlega tvítugur háskólanemi kom þáverandi utanríkisráðherra, Emil Jónsson, eitt sinn til okkar og hélt tölu um utanríkisstefnu Íslands.

Okkur ungu mönnum var heitt í hamsi út af mörgum atriðum í utanríkisstefnu Íslands og annarra þjóða og var baunað hart á Emil. 

Hann tók þessu af stóiskri ró og kvaðst vera kominn með ansi þykkan skráp eftir langan stjórnmálaferil. 

Sagði síðan sem svo að því miður væri það blekking þegar talað væri um að utanríkisstefna þjóða byggðist í raun á sanngirni og tærum hugsjónum og því að vera samkvæm sjálfri sér, þótt það væri látið í veðri vaka. 

Í raun væri niðurstaðan yfirleitt sú að utanríkisstefna hverrar þjóðar væri þröng hagsmunagæsla fyrir hana sjálfa eða ráðamenn hennar á hverjum tíma. 

Mér hefur oft síðan orðið hugsað til þessarar nöturlegu lýsingar Emils þegar hún hefur æ ofan í æ reynst rétt.  Og þegar stórveldi hafa átt í hlut hefur stefnan oft verið harðari og miskunnarlausari vegna þess að ráðamenn réttlæta hana með því að þeir þurfi að verja hagsmuni svo margra milljóna eða hundruða milljóna manna. 

Nefna má mýmörg dæmi en þessi koma í fljótu bragði upp í hugann: 

Bresk utanríkisstefna var öldum saman sú að koma í veg fyrir að nokkurt stórveldi yrði of sterkt á meginlandinu. Þess vegna voru þeir óvinir Frakka öldum saman meðan Frakkar voru öflugasta stórveldið á meginlandinu, og í bandlagi við hinar og þessar þjóðir, svo sem í orrustunni í Waterloo. 

Þegar Þjóðverjar sameinuðust í eitt ríki og urðu fjölmennasta og öflugasta ríkið á meginlandinu sneru Bretar við blaðinu og gerðu bandalag við fyrri erkifjendurna Frakka gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum í Fyrri heimsstyrjöldinni og síðan aftur í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Churchill úthúðaði Stalín og kommúnistum manna mest á fjórða áratugnum, en þegar Hitler réðist inn í Sovétríkin sneri Churchill blaðinu snarlega við, hét Stalin umsvifalaust stuðningi og tryggð af slíkri einurð að dráp hins kommúniska harðstjóra á milljónum manna heyrðust ekki framar nefnd. 

Þegar hann var spurður um það hvernig þetta mætti verða var svarið einfalt: "Ef Hitler réðist inn í helvíti myndi ég ekki hika við að styðja myrkrahöfðingjann og gæti áreiðanlega sagt einhver falleg orð um hann í Neðri málstofunni."

Flestar þjóðir leika tveimur skjöldum þegar utanríkisstefna er annars vegar og stórveldin eru stórtækust, enda mest í húfi fyrir þau, einkum ef þau þurfa að verja heimsveldishagsmuni. 

Það sem er verst við þetta er að valdamenn þeirra reyna að klæða utanríkisstefnuna í búning fagurra og göfugra hugsjóna. 

Hjá Stalín var viðkvæðið að rétta hlut öreiganna og þeirra sem minnst máttu og frelsa þá frá kúgun og ofríki auðvaldsins.  Í framkvæmd leiddi þetta til dauða tugmilljóna manna og hins versta einræðis og kúgunar, ekki aðeins í heimalandinu, heldur einnig í leppríkjum Sovétríkjanna og kommúnistaríkjum í öðrum heimsálfum.

Bandaríkjamenn mega eiga það að þeir björguðu Evrópu tvívegis frá því að lenda undir járnhæl þýskrar heimsveldisstefnu og í síðara skiptið var um að ræða að bjarga heiminum frá stórbrotnustu villimennsku allra tíma.

Þau viðmið sem Roosevelt forseti þeirra setti fram í ársbyrjun 1941 sem alþjóðlegt takmark í mannréttindamálum, voru dýrmæti fyrir alla mannréttindabaráttu síðan þá. 

En í bæði skiptin dröttuðust Kanarnir þó ekki til þess að skerast í leikinn í Evrópu fyrr en beinharðir peningalegir hagsmunir þeirra voru í veð.

Eftir stríð hafa þeir í orði talið sig vera brjóstvörn frelsis og mannréttinda í heiminum en samt hvað eftir annað stutt grimmar einræðisstjórnir leynt og ljóst, eins og valdaránið í Chile hér um árið var einna gleggsta dæmið um.  

Ferlll nýlenduveldanna víða um álfur var blóði drifinn og skipti ekki miklu máli hvort um var að ræða hernaðarsinnaða alræðisstjórn Japana eða nýlendukúgun vestrænna lýðræðisþjóða. 

Skilgreining Emils Jónssonar, eins hispurslaus og nöturleg og hún birtist ungum hugsjónamönnum í Háskólanum fyrir hálfri öld, var því miður að mestu leyti rétt. 


mbl.is Fyrri 11. september og síðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáráðar hafa verið víðar á ferð í sumar.

Á þeim hálendisslóðum, sem ég hef ekið á norðausturhálendinu í sumar hef ég séð allt of víða för utan slóðanna eftir bæði vélhjól og bílum. 

Förin gefa til kynna að þeir, sem þeim hafa valdið, hafa haft lítið vit á því hvað þeir voru að gera og akstursleiðirnar oft algerlega út í hött, tilgangslaus, óþarfur og óverjandi. 

Nú stendur hreindýraveiðitíminn yfir eystra og smalað verður eftir 2-3 vikur, og þótt þá þurfi að smala fé og fella hreindýr utan vegaslóða, hef ég séð það greinilega í "búskap" mínum á Brúaröræfum hvernig veiðimenn og smalamenn kunna vel til verka og sjá til þess að skemma ekki landið. 


mbl.is Óku víða utan vega og voru gripnir við iðjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jarðvegur" er margvíslegur.

Það er ekki nákvæmt orðalag að segja að "jarðvegur" fjúki nú burt frá landinu. Í umræðum um gróðurfar er orðin "jarðvegur" og "jarðvegseyðing" yfirleitt notuð sem samheiti yfir gróður og mold þegar rætt er um tjón af völdum eyðingar lands, sem verður gróðursnautt á eftir. 

Eyðing á frjóum jarðvegi er mun alvarlegra mál en eyðing gróðursins sjálfs, því að fari allur frjór jarðvegur ofan af sandi, möl eða urð, verður margfalt erfiðara að endurheimta gróður en þegar einhver jarðvegur verður eftir. 

Sem betur fer er askan, sem nú fýkur af öskufallssvæðunum frá gosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, ekki þess eðlis að söknuður sé af því að hún fjúki á haf út, heldur að miklu leyti landhreinsun af því að losna við öskuna þar sem hún þakti gróður. 

Síðan er ekki hægt að alhæfa um áhrif öskunnar, því að þar sem hún sekkur ofan í jarðveginn, virðist gróskan oft aukast á eftir. 

Öðru máli gegnir um uppblásturssvæði á Kili og sunnan Langjökuls. Mestur hluti sandmisturs sem kemur frá svæðinu sunnan Langjökuls kemur frá leirum við Hagavatn, en hins vegar er enn alvarleg eyðing á gróðri, mold og frjóum jarðvegi á sunnanverðum Kili og víðar á afréttum Sunnlendinga. 


mbl.is Landið fýkur burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar. Maður að meiri.

Einlæg afsökunarbeiðni Veigars Páls Gunnarssonar, knattspyrnumanns, er honum til sóma. Það reynist ekki auðvelt fyrir menn að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna mistök og ranga hegðun, en það hefur Veigar Páll nú gert svo vel að í minnum verður haft.

Athygli vekur hve yfirlýsingin er afdráttarlaus, hreinskilin og yfirveguð.

Hann er maður að meiri fyrir vikið. 

Öll erum við breysk og það er mannlegt að skjátlast og því eru þessi viðbrögð Veigars Páls til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir alla. 

Fram að þessari yfirlýsingu Veigars Páls sýndu framkoma hans og hegðun öll merki afneitunar og sjálfslygi. 

Það getur komið fyrir alla. 

En nú hefur hann heldur betur snúið blaðinu við og er ástæða til að óska honum til hamingju með það og vona að allt gangi honum í haginn. 


mbl.is Veigar Páll biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband