24.9.2018 | 21:35
Yndislegt á hjólum og miklar framfarir síðan um aldamót.
Skömmu fyrir aldamótin síðustu fékk ég mér reiðhjól og prófaði að nota það um skeið.
Ég gafst upp á því af tveimur ástæðum: Aðstæður til að hjóla utan akbrauta voru ömurlegar, en hitt réði úrslitum, að vegna klemmdra afltauga út frá neðstu hryggjarliðum, þoldi bak mitt ekki nema takmarkaða langvarandi áreynslu í hjólreiðum.
Fyrir fjórum árum skolaði til mín spánnýju rafreiðhjóli í bílaviðskiptum, þar sem ég skipti á hjólinu og illseljanlegan bíl, og ætlaði að selja hjólið strax.
En í ljós komu vankantar, sem ollu því að ég "sat uppi með hjólið" sem annars hefði verið selt.
"Sat uppi" er hér sett í gæsalappir, því að í ljós kom að þessi tegund rafreiðhjóls, sem ég nefni Náttfara, og aðeins voru til örfá eintök af hér á landi, var eins og sérsniðið fyrir mig og sérþarfir mínar, uppfyllti skilyrði um hámarks hraða, en var með handinngjöf sem gerði kleyft að stilla álagi á fæturnar eftir ástandi lélegra hnjáa og baks.
Annað kom líka í ljós og hefur haldið áfram að koma í ljós síðan: Aðstæður til ferðalaga á hjólum hafa tekið gríðarlegum framförum með stórbættu og auknu hjólstígakerfi og gera það enn.
Í sem skemmstu máli: Allir áunnu gömlu fordómarnir gegn notkun hjóla þokuðu fyrir nýjum, heilsusamlegum, ódýrum og umhverfisvænum lífsstíl.
Með því að geta stillt notkun nnjánna í hóf, eru hin uppslitnu hné nú í besta ástandi í 14 ár og bakinu er haldið í skefjum.
Til að fullkomna hjóla-lífsstílinn er ég, eins og ég hef oft lýst áður hér á síðunni, líka með vespuvélhjólið Létti (Honda PCX 125cc) af þeirri stærð, sem getur farið um þjóðvegina um allt land á fullum leyfilegum hraða, en eyðir samt aðeins þriðjungi af eyðslu sparneytustu bíla.
Lítið dæmi um fjölþætt notagildi þessara hjóla: Á morgun þarf ég að flytja lítinn fornbíl frá austasta hluta Grafarvogshverfis niður í Vogahverfi og þarf til þess bíl frá Vöku.
Til þess að komast heim til baka ætla ég að sjálfsögðu að nota annað þessara hjóla í ferðina, en aðeins vespuvélhjólið er nógu hraðskreitt til þess að ég geti verið jafn fljótur og Vökubíllinn þegar ég fylgi honum niðureftir.
Þetta er samt ekki svo mikill hraðamunur. Á Náttfara yrði ég aðeins sjö mínútum lengur en á Létti.
Og ef það yrði spáð meira en 20 m/sek hviðum á morgun, fullkomnar minnsti og ódýrasti rafbíll landsins (RAF; tveggja sæta Tazzari Zero) atlöguna gegn kolefnisfótsporinu.
![]() |
Yndislegt að hjóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2018 | 12:17
Íþróttahús MR er stórmerkilegt hús.
Fjögur hús Menntaskólans í Reykjavík eru svo merkilegt að þau ber að varðveita í sem óbreyttastri mynd um alla framtíð.
Á tímabili leit ekki vel út með íþróttahúsið, sem mikill vilji var til að breyta stórlega að innan í bókasafn.
Hér á síðunni var því andmælt kröftuglega fyrir um áratug, því að þetta er fyrsta og elsta íþróttahús landsins.
Fyrir gesti er nefnilega mögnuð upplifun fólgin í því að sjá þá nægjusemi, sem lýsir sér í þessum litla sal, þar sem var vagga handboltans á Íslandi, en rýnið svo lítið, að teigarnir við sitt hvorn enda salarins, lágu út í hliðarveggina og næstum því saman í miðju salarins.
Á sínum tíma var eitt sinn framkvæmd viðgerð á hluta af þiljum skólahússins og þá hafði Einar Magnússon þáverandi rektor gaman af því að sýna fólki, hve einstætt þetta hús er meðal timburhúsa landsins, því að veggirnir eru í raun staflar af þykkum bjálkum og húsið því langmerktasta bjálkahús landsins og smíðað að norskri fyrirmynd.
Gegnt skólanum er Fjósið svonefnda, sem var einmitt notað sem fjós í upphafi starfsemi skólans.
Ekki verður hér krafist þess að þessu húsi, sem kennt hefur verið í lengst af, verði breytt í upphaflegt horf, en gaman væri samt að prófa það.
Síðan er Íþaka fjórða húsið og ekki síður merkilegt en hin þrjú og athyglisvert er að ekki bólar á myglu þar á sama tíma og mygla veður uppi í í húsum, sem eru aðeins aðeins tveggja áratuga gömul.
En samkvæmt heimildum bloggsíðunnar er það vegna þess að lög og reglugerðir hafa verið brotin við smíði þeirra.
![]() |
Íþaka gerð upp með gömlum tólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)