Stór hópur að kasta tölu á sjálfan sig?

Hundruð milljóna manna gæti notað GRID. Svona gæti fyrirsögnin á frétt á viðskiptasiðu á mbl.is um fyrirtækið GRID litið út á rökréttu mannamáli. En í staðinn er fyrirsögnin svona:  "Mögulegur notendahópur telur hundruð milljóna." 

Bíðum nú við, hér er sagt frá mögulegum notendahóp sem getur talið hundruð milljóna, og miðað við rökrétta og eðlilega uppbyggingu íslensks máls og það að frá þessu er sagt á fjármála- og viðskiptasíðu, virðist þessi mögulegi notendahópur þegar farinn að telja peninga. 

En þegar lengra er lesið sést að peningarnir verða taldir í þúsunda milljóna króna.

Ef hópurinn er ekki að telja peninga, hvað er hann þá að telja. 

Það fylgir ekki sögunni, heldur endar setningin án þess að nefna það. 

Þegar notuð eru sagnorð, sem lýsa verknaði, eru venjulega notuð þrenns konar orð:

1. Nafnorð um geranda eða gerendur. 

2. Orð, sem lýsir athöfninni, verknaðinum. 

3. Orð, sem lýsir því sem sýslað er við. 

Orð númer 3 vantar í ofangreinda fyrirsögn, því að verið er að segja frá því að notendahópur sé að telja eitthvað en ekkert nefnt um það, hvað það er. 

Nú kunna einhverjir að segja: Hvaða látalæti eru þetta? Hér er verið að lýsa því hve stór notendahópurinn kunni að verða. 

Já, en eftir stendur, að alveg er látið hjá líða í fyrirsögninni að nota orð um andlagið. 

Og augljóst er samkvæmt orðanna hljóðan að varla er allt þetta fólk að kasta tölu á sjálft sig. 

Enda verður þessi furðu algenga orðanotkun enn meiri rökleysa þegar hún er notuð um dýr og fugla, svo sem að segja að arnarstofninn í Noregi telji 4000 fugla. 

Dýr og fuglar kunna ekki telja. 

 


mbl.is Mögulegur notendahópur telur hundruð milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð, mun fjölmennari en Norðurlandabúar, sem alltaf verður undir.

Kúrdar í Miðausturlöndum munu vera um 40 milljónir, eða næstum tvöfalt fleiri en íbúar Norðurlanda og fjórfalt fleiri en Gyðingar voru taldir vera þegar Seinni heimsstyrjöldin skall á og Hitler hóf útrýmingarherferð sína. 

En Kúrda er að finna í nokkrum löndum, sem nýlenduveldin á sínum tíma settu á blað þegar Ottomanveldið, kennt við Tyrkland, hrundi, og í því felst helsta vandamálið varðandi þennan fjölmenna hóp fólks, sem telur sig til Kúrda, en er um sumt ekki samstíga um allt.

Eins og svo oft áður í mannkynssögunni þegar um minnilhlutahópa er að ræða, hafa Kúrdar í meira en öld orðið æ ofan í æ að hlíta ofsóknum og árásum vegna baráttu þeirra fyrir sjálfstæðu ríki. 

Og enn og aftur kemur í ljós, að þeir eiga engan vin í raun, heldur jafnan búast við svik og rýtingi í bakið. 

Því nú hefur komið í ljós, að jafnvel þótt Kúrdar hafi fórnað sér í baráttunni gegn ógn ISIS, er það einskis metið af þeim mörgu, sem létu vinalega við þá og létu sér vel líka framlag þeirra. 

Lítil von er til þess að Tyrkir, sem enn vilja hvorki viðurkenna eitt versta þjóðarmorð síðustu aldar né biðjast afsökunar á því, taki Kúrda neinum vettlingatökum. 

Um það verður hugsanlega hægt að segja svipað eins og haft var eftir Íslendingi einum þegar fréttist af árás Þjóðverja inn í Belgíu og Frakkland í ágústbyrjun 1914: "Þetta er slæmt að heyra og á eftir að enda með því að þeir drepa einhvern. 

Rétt eins og Rússar leyfðu nasistum að vera óáreitta við að murka Gyðinga niður í Varsjá 1944 eftir að hafa hvatt þá til uppreisnar, virðist Trump nú ætla að gefa grænt ljós á innrás Tyrkja í Sýrland. 

Og Tyrkjum munar ekki um það, eftir afneitunina á fjöldamorðanna á Armenum, að þræta fyrir það að loftárásir og sending hers yfir landamærin séu innrás, heldur sé hér um afmarkaðar aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum að ræða.  

Síðbúinn kattarþvottur Trumps með tísthótunum um efnahagslegar refsiaðgerðir fari Tyrkir offari mun því miður hrökkva skammt þegar Tyrkir sjá sér nú leik á borði til að ganga á milli bols og höfuðs á Kúrdum í öðru landi. 


mbl.is Segja almenna borgara hafa fallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrt dæmi um hlýnun með ýmsum afleiðingum.

Það, að Hálslón sé orðið fullt af dökkbrúnu aurvatn sínu í ágústbyrjun er afar skýrt dæmi um mun hlýrra veðurfar en í meðalári, því að í áætlununum um vatnsbúskapinn þarna var gert ráð fyrir að lónið fylltist ekki fyrr en í september.

Hálslón fullt.

En þetta gildir um fleira en vatnsmagnið, því að það blasir við þeim, sem hafa verið þarna árlega á ferli í meira en tvo áratugi, að aurburður jökulánna í lónið er miklu meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. 

Það þýðir að lónstæðið mun fyllast af auri miklu fyrr en ráð var fyrir gert, og þetta kom meira að segja glögglega í ljós strax á fyrstu tveimur árum lónsins 2008 og 2009. Hálslón, leirfok, Kárahnjúkur

Í mati á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að gljúfur Kringilsár fylltist upp fyrir Töfrafoss á einni öld, en strax vorið 2009 var þetta meira en hundrað metra djúpa gljúfur orðið sléttfullt af flötum, þurrum jökulleir. 

Einnig varð ljóst að framburður Kringilsár var jafnvel meiri en hinn frægi aurburður Jöklu, vegna þess að framburður Kringilsár er gráleitur en framburður Jöklu meira brúnleitur. 

En framburður ánna hvorrar fyrir sig var aldrei mældur í aðdraganda virkjunarinnar. 

Af stórauknum framburði má ráða, að lónstæðið verði fyllast af auri miklu fyrr en spáð var og lónið þar með missa miðlunargetu sína mun fyrr en spáð var. Hálslón. Landsvirkjun

Gert var ráð fyrir tíu milljón tonna nýrri viðbót aurs á hverju einasta ári, en talan er augljóslega miklu hærri, jafnframt því sem Brúarjökull minnkar jafnt og þétt. 

Á teiknuðum myndum Landsvirkjunar fyrir virkjun var Hálslón sýnt kristaltært, svo að sást til botns, en hið sanna er að þetta er frekar stærsti drullupollur Evrópu heldur tært stöðuvatn og skyggnið í lóninu neðan vatnsborðs aðeins um tíu sentimetrar í efstu lögum þess, þar sem skyggnið er þó skást. 

Hinn dökkbrúni litur lónsins segir sína sögu. 

 

 

 


mbl.is Öll miðlunarlón á hálendinu full
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband