Þjóð, mun fjölmennari en Norðurlandabúar, sem alltaf verður undir.

Kúrdar í Miðausturlöndum munu vera um 40 milljónir, eða næstum tvöfalt fleiri en íbúar Norðurlanda og fjórfalt fleiri en Gyðingar voru taldir vera þegar Seinni heimsstyrjöldin skall á og Hitler hóf útrýmingarherferð sína. 

En Kúrda er að finna í nokkrum löndum, sem nýlenduveldin á sínum tíma settu á blað þegar Ottomanveldið, kennt við Tyrkland, hrundi, og í því felst helsta vandamálið varðandi þennan fjölmenna hóp fólks, sem telur sig til Kúrda, en er um sumt ekki samstíga um allt.

Eins og svo oft áður í mannkynssögunni þegar um minnilhlutahópa er að ræða, hafa Kúrdar í meira en öld orðið æ ofan í æ að hlíta ofsóknum og árásum vegna baráttu þeirra fyrir sjálfstæðu ríki. 

Og enn og aftur kemur í ljós, að þeir eiga engan vin í raun, heldur jafnan búast við svik og rýtingi í bakið. 

Því nú hefur komið í ljós, að jafnvel þótt Kúrdar hafi fórnað sér í baráttunni gegn ógn ISIS, er það einskis metið af þeim mörgu, sem létu vinalega við þá og létu sér vel líka framlag þeirra. 

Lítil von er til þess að Tyrkir, sem enn vilja hvorki viðurkenna eitt versta þjóðarmorð síðustu aldar né biðjast afsökunar á því, taki Kúrda neinum vettlingatökum. 

Um það verður hugsanlega hægt að segja svipað eins og haft var eftir Íslendingi einum þegar fréttist af árás Þjóðverja inn í Belgíu og Frakkland í ágústbyrjun 1914: "Þetta er slæmt að heyra og á eftir að enda með því að þeir drepa einhvern. 

Rétt eins og Rússar leyfðu nasistum að vera óáreitta við að murka Gyðinga niður í Varsjá 1944 eftir að hafa hvatt þá til uppreisnar, virðist Trump nú ætla að gefa grænt ljós á innrás Tyrkja í Sýrland. 

Og Tyrkjum munar ekki um það, eftir afneitunina á fjöldamorðanna á Armenum, að þræta fyrir það að loftárásir og sending hers yfir landamærin séu innrás, heldur sé hér um afmarkaðar aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum að ræða.  

Síðbúinn kattarþvottur Trumps með tísthótunum um efnahagslegar refsiaðgerðir fari Tyrkir offari mun því miður hrökkva skammt þegar Tyrkir sjá sér nú leik á borði til að ganga á milli bols og höfuðs á Kúrdum í öðru landi. 


mbl.is Segja almenna borgara hafa fallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lengi vel var talið að PKK-Partiya Karkerên Kurdistanê hefði myrt Olaf Palme og morðingjar hans hafa enn ekki verið dregnir fyrir dóm

Grímur (IP-tala skráð) 9.10.2019 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband