Frelsisvor, tvöfaldur frídagur.

1. desember, fullveldisdagurinn, ber upp á frídag, sunnudag og þess vegna er þetta párað niður í tilfefni dagsins og vísað til lagsins með þessu heiti á facebook. 

 

FRELSISVOR. 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

Það var árið með eldgos og drepsótt og ís, 

en samt árið, sem birtist oss frelsisins dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld, þar sem lausnin var vís. 

 

Heitur vorblær nú flutti hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var draumur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá, 

svo að ljómaði gleði á brá. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

Síðan flogin er glæsileg framfaraöld, 

þegar færð voru í landið hin ítrustu völd; 

þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld, 

svo að fært var á sögunnar spjöld. 

 

Landið og fólkið, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál; 

tónar og myndir, formæðra fold, 

fósturjörð hjartkær, andi og hold. 

 

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátinn, þá æðrumst við ei, 

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð, 

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Frelsisvor!  Framtíðarspor! 

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

 

 

 


mbl.is Óslóartréð ljósum prýtt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímanna tákn: Nýnasistar.

Það eru ekki mörg ár síðan að ekki þurfti að hafa áhyggjur af endurreisn nasista- og fasistaflokka. 

Ástæðan var einföld: Meirihluti fólks var enn í minni hvers kyns þessir flokkar höfðu verið á árunum 1922 til 1945, þegar þeir komust til valda á ítalíu og í Þýskalandi, auk þess sem fasísk viðhorf voru sterk í fleiri löndum Evrópu, svo sem á Spáni og í Portúgal og nokkrum Austur-Evrópu ríkjum. 

Afleiðingin varð tæknivæddasta þjóðarmorð allra tíma og Heimsstyrjöld, sem kostaði 55 milljónir manna lífið. 

Fyrstu 15 árin eftir Helförina og stríðið mikla var mikið gert til að taka þessi ósköp til umfjöllunar og gefa þjóðunum, sem höfðu fóstrað ófreskjurnar, færi á iðrun og yfirbót. 

Þegar þeim fór að fækka, sem lifðu á stríðstímunum, og ýmis vandamál í stjórnmálum heimsins að skapa grunn fyrir vaxandi óánægju og óróa, fór harðlínu þjóðernissinnar og nýnastar að vaxa fiskur um hrygg. 

Allra síðustu árin er síðan þeim farið að fækka, sem mundu fyrstu árin eftir stríðið, þegar fram fór uppgjör við nasismann og fasismann. 

Spánn og Portúgal héldu að vísu sínum þjóðernissinnuðu einvöldum, Franco og Salazar sem launum fyrir að hafa haldið þjóðum sínum hlutlausum og varast að festa sig um of við Hitler á stríðstímanum.  

Þótt fyrir liggi enn sama þekking á voðaverkum nasista og fasista á valdatímum þeirra í Evrópu, munar um það að kynslóðirnar, sem þekktu stríðið og afleiðingar þess, eru að hverfa og aðrar að taka yfir, sem eiga auðveldara með að gleypa kenningar Hitlers og Mussolini hráar. 


mbl.is Hugðust stofna nýjan nasistaflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband