Einn af óskabílunum: Trabant árgerð 1991.

Fyrirsögnin hér að ofan kann að þykja ólíkindaleg, en á sér forsögu í sögu Trabants.Trabant 91

 

Á myndinni má sjá Trabant árgerð 1990, og munurinn á honum og fyrri árgerðum sést á grillinu, sem lítur út eins og aðeins helmingurinn af gamla grillinu.

En ef húddinu er svipt upp blasir allt annað við: Vél og drifbúnaður úr Volkswagen Polo og þessi fína Mc Person gormafjöðrun af sama uppruna! 

Skoðum forsögnuna betur: 

Frá árinu 1956 fluttu Íslendingar inn talsvert af austur-þýskum bílum, sem voru yfirleitt þeir ódýrustu á markaðnum hér, einkum vegna þess að þeir voru afrakstur vöruskipta við austantjaldslöndin fram undir 1990.  V

Danir höfðu byrjað aðeins fyrr á kaupum á austurþýskum bílum og fluttu inn litla og afspyrnu gamaldags bíla með merkinu IFA, með aflvana tvígengusvél. 

1956 kom P-70 til landsins, sem var eins konar millistig á undan P-50 Trabant. 

Sovétmenn höfðu haldið fast við þá stefnu, sem Vesturveldin höfðu lagt af, og fólst í því að halda Þjóðverjum kyrfilega niðri í iðnaðarmálum, svo að þeir ættu enga möguleika á að rísa úr öskustó í því efni og eiga þar með möguleika á hernaðarlegum styrk. 

Austur-Þjóðverjar fengu ekki að eignast járn eða stál nema í litlum mæli, en fundu leið framhjá því með því að nota bómull og fleiri efni til að búa til svonefnt Duroplast. 

P-70 var með stálgrind sem undirvagn en Duroplast sem samansoðna yfirbyggingu, og gólfið á farangursgeyslunni var úr krossviði! 

Vélin var arfur frá DKW, 500 cc tvígengisvél, aðeins 15 hestöfl, bíllinn afar máttvana vegna þess að hann var furðu þungur, meira en 800 kíló. 

P-70 entist illa og enn verr entust sendibílar af gerðinni Garant, sem voru líklega einhverjir lélegustu bílar, sem fluttir hafa verið til Íslands. 

Til landsins voru fluttir aðeins stærri, aflmeiri og dýrari fólksbílar af gerðinnu Wartburg, sem var allur úr stáli, og reyndust þeir heldur skár. 

Þeir voru álíka stórir og Skoda Octavia og hinn rússneski Moskwich, sem voru báðir með fjórgengisvélar, en tvígengisvélin í Wartburg olli því að þeir seldust aldrei nærri eins vel og hinir tékknesku og rússnesku keppinautar, sem einnig voru ódýrir, meðal annars í krafti vöruskiptasamninga. 

Nokkrum árum síðar kom stækkaður Trabant, Trabant 601, sem var mun eigulegri bíll en P-50, hestöflin fóru fljótlega upp í 23 og hámarkshraðinn í 100 km/klst. 

Bæði Trabant og Wartburg voru með hastar þverfjaðrir og var það bæði hálfgert fornaldarfyrirbrigði og dragbítur á sölu. 

Þegar komið var fram á níunda áratuginn voru Austur-Þjóðverjar orðnir svekktir á því svelti, sem Rússar héldu þeim í, en komust þó ekki lengra en það, að fá að semja við Volkswagen verksmiðjurnar um að skipta út vélum, drifbúnaði og fjöðrunarbúnaði í Trabant og Wartburg. 

Þessar endurbætur komust í gagnið 1990, árið eftir að múrinn féll, en fólkið, sem vann við framleiðslu þessara bíla, eygði von um að framleiðsla þeirra gæti haldið áfram, því að að breytingarnar voru í raun afar róttækar, þótt útlit bílanna væri hið sama. 

Volkswagenvélarnar og drifbúnaðurinn voru úr Polo, mengunin horfin, aflið tvöfalt án aukningar bensíneyðslu og sjálfstæð gormafjöðrun af bestu gerð. 

Svo vel heppnuð var breytingin á Trabant, að ef síðuhafi sæi draum um naumhyggjubílasafn Íslands, myndi Trabant árgerð 1991 verða ofarlega á listanum, að ekki sé nú talað um þann möguleika að breyta honum í rafbíl. 

Margir Austur-Þjóðverjar þóttust illa sviknir af löndum sínum vestan tjalds, þegar framleiðslu Trabant og Wartburg var hætt og verksmiðjurnar lagðar niður. 

En það var óhjákvæmilegt vegna þess að verksmiðjurnar og framleiðsluaðferðirngar í þeim voru gersamlega úreltar og engan veginn samkeppnisfærar. 

Þetta sáu Tékkar við fall múrsins og stofnuðu til fádæma endurreisnarævintýris í samvinnu við Wolksvagenverksmiðjurnar sem hefur skilað sér í gullöld Skoda.  


mbl.is 265 trabbar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var fyrsta rauða viðvörunin bara djók?

Það mætti halda að margir telji að ekkert hafi verið á bak við fyrstu rauðu viðvörunina í sögu nútíma viðbúnaðarkerfis vegna náttúruvár.

Nú fara margir mikinn í stórum dómum um umsjónarmenn innviða fjarskipta- og rafmagnskerfis, bændur og RÚV, og virðast þessir dómarar eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hinu mikla óveðri, sem fékk í upphafi heitið Sprengihvellur og var það réttnefni þótt sprengingarveðrið yrði býsna langvinnt.

Síðuhafi var félagi í björgunarsveit í áratugi og átti bæði flugvél og sérbúna bíla, til þess að vera sem best í stakk búinn til að fara í útköll. 

Enn í dag er hægt að stökkva upp í slíka jeppa fyrirvaralaust og fara af stað í leiðangra. 

Og þótt viðkomandi jeppar séu að vísu orðnir gamlir og því ekki mikils virði í peningum, hafa þeir farið ótal ferðir farsællega um hálendi og jökla landsins, oft í erfiðum skilyrðum, sem fylgja tíðum slíkum atburðum. 

En stundum verða skilyrði þannig, að hvergi er hægt að róta sér. Sem eitt dæmi af mörgum um þetta má nefna, að reynt var að hafa forsjálni við 15. janúar 1995, þegar slæmu veðri var spáð á Norðvesturlandi, sama svæði og nú var aðallega haft í huga með rauðri viðvörun, og farið á jöklajeppa síðdegis til þess að vera til taks sem næst viðburðum þegar liði á nóttina og daginn eftir. 

En engin leið var þá að sjá það fyrir, að mannskæðasta snjóflóð síðan um aldamótin 1900 myndi falla á Súðavík. 

Og veðurhamurinn var slíkur við vesturmörk Laxárdalsheiðar, að aðalatriðið reyndist í tæpan sólarhring að koma í veg fyrir jeppinn fyki út glórulausan veðurhaminn. 

Enn meiri og víðfeðmari veðurhamur var nú, og þetta er rifjað hér upp sem dæmi um það, að það er sama hve góður búnaðurinn og forsjálnin eru, að andspænis tryllingsveðri eins og hér geysaði núa, verða flest mannanna tæki oft vita gagnslaus. 

Nú síðast í morgun, meira en viku eftir hvellinn, slær ein öflugasta og nýjasta risaraflína landsins út, vegna þess að raflínan sjálf þoldi ekki hið margfalda álag íss, vinds og seltu, sem fylgdi hinum dæmalausa veðraham.  

Aftaka norðanstormar eru með hlýnun loftslags og harðari átökum hlýs og kalds lofts orðnir hlýrri en áður var, svo að núna er snjórinn miklu oftar en áður blautur og þungur. 

Seltan er síðan annað dæmi um mikla vá, eins og virðist hafa verið raunin varðandi Fljótsdalslínu 4, þar sem sambandið rofnaði ekki þótt línan gæfi eftir, heldur sló út við það að blautur snjór féll á línuna. 

Margir þeirra, sem hæst hafa núna, virðast hafa setið uppi í sófa þegar óveðrið skall á, og hlustað á rauðu viðvörunina sem einskonar djók, þótt veðurhæðin á Kjalarnesi, á stað, sem er innan borgarmarka Reykjavíkur, færi langt yfir fárviðrismörk, og gerði veginn kolófæran. 

Svipað ástand var á þúsundum staða um allt land og því ætti að fara varlega í að gagnrýna þá sem stóðu frammi fyrir aðstæðum þar sem um líf og heilsa þeirra sjálfra var í bráðri hættu og ekki viðlit að hafa fjarskiptasamband til né frá.  


mbl.is Óvægin umræða um hrossaeigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallaratriði að fréttir geti borist tæknilega.

Fréttaflutningur byggist á nokkrum atriðum. Nefna má þrjú einföld atriði. 

1. Fréttnæmt atvik eða ástand á sér stað. 

2. Fréttamaður eða blaðamaður reynir að afla frétta. 

3. Tækni er fyrir hendi, sem gerir fréttamanni kleyft að fá vitneskju um fréttina til að miðla henni. 

Þegar það er skoðað af hverju fréttir bárust ekki, eða bárust seint og illa í óveðrinu mikla á dögunum, blasir það við, að það sem brást, var nær alltaf liður númer 3:  Vegna tæknilegrar bilunar var ómögulegt fyrir fréttamenn að komast í samband við þá, sem gátu greint frá fréttinni. Eða að þeir, sem gátu greint frá fréttinni voru ekki í aðstöðu til þess að koma henni á framfæri, oftast af tæknilegum aðstæðum, en stundum af öðrum knýjandi aðstæðum.

Dæmi um hið síðarnefnda var hrossadauðinn mikli.

Fréttafólk á fjölmiðli gat ómögulega vitað um það fyrirfram á hvaða bæjum hross myndu drepast. Víða vissi heimafólk það ekki sjálft á meðan veðrið var svo vont, að ekki var hundi út sigandi.  Fréttasambandsleysið í báðar áttir var oftast vegna þess að fjarskiptasamband var ekki í lagi svo að fréttir bárust ekki, en líka vegna aðstæðna á borð við það, að fjöldi hrossa var týndur á kafi í snjó, og það þurfti að hafa forgang að finna þau og hafa tíma og aðstöðu til þess að miðla um það fréttum.

Jafnvel þótt símasamband væri við þá bæi, þar sem ekki var vitað um afdrif hrossanna, var ekki hægt að segja frá dauða þeirra eða afdrifum, fyrr en þau fundust, ýmist dauð eða illa farin, eða tæk til björgunar. 

Örmagna bændur, sem þurftu að leggja dag við nótt í að bjarga hinum illa stöddu dýrum, hlutu að gefa björgunarbaráttunni forgang.   


mbl.is RÚV bregst við umræðu vegna fréttaflutnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband