Þegar ónákvæmt orðalag sýnist vera smámunir en er það ekki.

"Ekki munaði nema 15-30 mínútum að ekki tækist að bjarga Notre Dame dómkirkjunni." 

Þetta er setning í upphafi fréttar sýnir hve mikilvægt það er í meðferð málsins og frásögnum að taka skýrt til orða, ekki síst hjá blaðamönnum. 

Í ofangreindri setningu er tvöföld neitun fólgin í orðinu "ekki" sem gerir setninguna illskiljanlega og erfitt að lesa hana. 

Fyrirsögnin er lítið skárri: "Notre-Dame var hálftíma frá eyðileggingu." 

Hvað er átt við með því?  Að það hefði ekki þurft nema hálftíma til að gjöreyðilegga bygginguna? 

Það er ekki fyrr en fréttin er lesin að það kemur í ljós, að aðeins munaði hálftíma, miðað við ákveðinn tímapunkt, að alger og óumflýjanleg eyðilegging kirkjunar hæfist. 

Hin setningin, "Ekki munaði nema 15-30 mínútum að ekki tækist að bjarga Notre-Dame dómkirkjunni" felur í sér tvö neitandi orð, en tveir mínusar eru sama og plús, og ber að forðast slíkt í texta.

Setningin hefði litið allt öðruvísi út ef tvítekning orðsins "ekki" hefði verið felld út og setningin til dæmis orðuð svona:  

"Aðeins munaði 15-30 mínútum að það mistækist að bjarga Notre-Dame dómkirkjunni."

Eða: 

"Aðeins munaði 15-30 mínútum að það tækist að bjarga Notre-Dame dómkirkjunni."  


mbl.is Notre Dame var hálftíma frá eyðileggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt Alpine hjarta tekur kipp. Alpine A110 og Twingo valda því.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var Renault Alpine sportbíllinn eitt af þeim fyrirbærum sem skóp einna flesta drauma akstursglaðs ungs manns, sem hafði aðeins átta ára orðið skráður eigandi ásamt tveimur bræðrum sínum að Renault Juvaquatre "Hagamús" sem eigandi happdrættismiða sem bíllinn vannst á. Renault 4CV

Arftaki Juvaquatre, Renault 4CV, varð fyrsti franski bíllinn sem fleiri en milljón eintök seldust af. 

Hann var með vélina fyrir aftan afturhjól og krappari beygjuhring (8,4 m) en dæmi höfðu verið um áður. 

Á síðustu framleiðsluárum hans var farið að smíða aflmeiri bíla af þessari gerð fyrir akstursíþróttir undir heitinu Gordini. Renault Apine

Var þá bætt við hestöflum, gírum og fleiru í 4CV og Dauphine, sem kom fram 1956. Þessir bílar voru léttir, aðeins 600 til 700 kíló og því furðu sprækir þótt vélarnar væru minni en í tvöfalt þyngri bílum, sem þeir kepptu við í akstursíþróttum. 

En í byrjun sjöunda áratugarins kom aðal draumabíllinn fram, Alpine A110, byggður á undirvagni og driflínu 4CV og meira að segja með sama hjólhafi, 2,10 m, en með léttri og lágri sportlegri yfirbyggingu í léttum efnum, svo að bíllinn var aðeins rúm 600 kíló, og þar af leiðandi æðislegur keppnisbíll í ralli með. 

Vélin að vísu fyrir aftan hjól og því þurfti mikla færni til að ráða við bílinn í beygjum og sviptingum en gamanið þess meira, og spólgripið í sérflokki, rétt eins og á Porsche.

Á áttunda áratugnum fóru Alpine menn að taka að Renault 5 og gera hann aflmeiri og auka afl og akstursgetu. Hann var að vísu framdrifinn og engin útlitsbreyting frá venjulegri fimmu, en samt með Alpine í tegundarheitinu.Renault_5_GTL_Schaffen-Diest_2015

Bíllinn var aðeins 850 kíló og hægt að fá hann undir heitinu Renault 5 Alpine með 93ja hestafla 1397 cc vél og loksins rættist draumurinn um Renault 5 keppnisbíl í akstursíþróttum, sem veitti ómælda akstursnautn og árangur, þótt við bíla með tvöfalt meira afl væri að etja. 

Aflið rauk upp í rallinu á þessum tíma, en 130 hestöfl var hámark þess sem hægt var að bjóða í Renault 5 turbo. Renault Twingo

Því var brugðið á það ráð að breyta afturenda bílsins og breikka hann setja þar niður vélina að aftan fyrir framan afturhjólin með afturdrifi.  Sú vél var með 160 hestafla 1397 cc vél með forþjöppu sem staðalbúnað og hægt að tjúna hana upp í 200 hestöfl. 

Nú á dögunum mátti sjá slíkan bíl í kappastursatriði í James Bond mynd með Sean Connery á sjónvarpi Símans, sem tekin var á þessum árum, og gamalt Alpine hjarta tók kipp, því að draumurinn um að komast á Renault 5 af þessari mögnuðu gerð hafði ekki ræst. 

Á níunda áratugnum fóru Alpine verksmiðjurnar að smíða nýja útgáfu af Alpine sportbílnum, en hann náði aldrei flugi. 

Á síðustu árum hafa þeir hjá Renault og Alpine hins vegar heldur betur tekið við sér og framleiða nú tvo bíla með vél og drif aftur í, Alpine A110 og Renault Twingo. 

Og loks fær Porsche verulega samkeppni. 

Vegna þess að drifið er ekki að framan á Twingo nýttu hönnuðir hans og systurbílsins Smart Forfour sé það með því gera kleyft að leggja miklu meira á stýrið og fá út miklu krappari beygjuhring en gerist og gengur, enn krappari en á 4CV á sínum tíma. 

Og með vélina liggjandi undir aftursætinu losnar Twingo að mestu við rasssveiflur bíla með vélar fyrir aftan afturhjól, en viðhalda þó góðu drifgripi, einkum upp brekkkur. 

 


mbl.is Alpine tekur fram úr Porsche
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstætt afrek, en þó ekki alveg án hliðstæðu. Foreman.

Það afrek Tiger Woods að rífa sig upp úr öskustónni sem hann féll í fyrir 12 árum á flestum sviðum er hugsanlega það mesta af þessu tagi hjá íþróttmanni í fremstu röð í heiminum. 

En þó er það ekki alveg víst, þótt því hafi verið haldið fram. 

Ekki má ekki gleyma hinu ótrúlega afreki hnefaleikarans George Foreman, sem vann að nýju í einstæðri endurkomu heimsmeistaratitil í þungavigt í hnefaleikum 20 árum eftir að hann tapaði tigninni 1974 í hinum fræga bardaga "Rumble in the jungle" við Muhammad Ali. 

Við tók þrautaganga, og eftir auðmýkjandi ósigur fyrir Jimmy Young 1977 féll Foreman alveg saman og snerti ekki boxhanska í heil tíu ár á bestu aldri venjulegs hnefaleikara. 

Hann byrjaði síðan aftur 37 ára gamall, á svipuðum aldri og margir heimsmeistarar á undan honum höfðu misst tignina þegar aldurinn sótti á þá, enda hafði enginn heimsmeistari í þungavigt orðið eldri en 37 ára sem heimsmeistari.  

Stundum hefur verið sagt að þrítugsaldur sé hinn "vafasami aldur" hnefaleikara hvað snertir þá snerpu og hraða sem þeir verði að hafa og Foreman byrjaði að nýju sjö árum eldri en það. 

Hann var 46 ára þegar hann náði takmarki sínu, níu árum eldri en næstelstu heimsmeistarnir höfðu verið, en Woods er 43ja ára. 

Golfmeistarar geta vænst að endast lengur á toppnum en þungavigtarmeistarar í boxi, svo að Wood eygir nú möguleika á því að ná Gullbirninum Jack Nicklaus hvað snertir sigra á risamótum.  


mbl.is Veit ekki hvort hann er áhyggjufullur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband