Túrbínutrixið frá 1970 endurtekið enn og aftur.

"Landeigendur hafa ekki veitt leyfi" - "ekkert samráð var haft við landeigendur" - eru kunnuglegar setningar, sem hljómuðu í fréttum af fyrirhugaðri stækkun Laxárvirkjunar 1970. 

Þeir, sem ætluðu að keyra hinar miklu virkjanaframkvæmdir í gegn, komu því til leiðar að keyptar yrðu túrbínur fyrir hina komandi virkjun, þannig að landeigendum og öðrum, sem málið snerti, yrði stillt upp við vegg frammi fyrir gerðum hlut, og úthrópaðir sem skemmdarverkafólk sem hefði eyðilagt stórfellda fjármuni, sem búið væri að eyða til einskis, ef hætt yrði við framkvæmdir. 

Þá, eins og nú, var um langtum stærri virkjun að ræða en upphaflega hafði verið ráðgerð. 

Sigurður Gizurarson, verjandi andófsfólksins, sneri vörn í sókn með því að benda á, að þeir sem vaðið hefðu fram af offorsi í því að keyra málið áfram, ættu að bera ábyrgð á siðlitlum aðgerðum sínum. 

Þeir, sem stóðu að túrbínutrixinu 1970 höfðu málsbætur varðandi það hve mjög rafmagnsskortur háði Akureyringum á tímum vaxandi iðnaðar þar. 

Engar slíkar málsbætur eru nú, heldur blasir við, að eigendur HS orku keyra áfram nýjar virkjanaframkvæmdir um allt land til þess að reyna í örvæntingu að bjarga sér með nýjum virkjunum frá því hruni á orkunni í gufuaflsvirkjununum þeirra á Suðurnesjum, sem rányrkja orkunnar hefur valdið og gerir þeim æ erfiðara að uppfylla sölusamninga á orku til stóriðjunnar syðra. 

Vestfirðingar munu því augljóslega ekki fá neitt rafmagn frá Hvalárvirkjun, heldur verða blekktir með gylliboðum, sem fráleitt verða efnd,, eins og kemur glögglega fram í góðri grein í Morgunblaðinu. 

 


mbl.is Landeigendur hafa ekki veitt leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið 1978 er komið aftur, enn á ný.

Nýsköpunarstjórnin 1944-1947 sprakk vegna ósættis um svonefndan Keflavíkursaming um viðveru Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Þó var ekki um bandaríska hermenn að ræða. 

1958 sprakk vinstri stjórn, sem hafði á stefnuskrá sinni að víkja varnarliðinu úr landi, en hafði heykst á því á stjórnartíma sínum. 

1974 gerðist svipað þegar ekkert varð af því að víkja hernum úr landi, þótt það væri á dagskrá vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. 

1978 fór í gang "hringekja" við stjórnarmyndanir, og í fyrsta sinn var formanni Alþýðubandalagsins gefið umboð. 

Það rann út í sandinn, en þegar Ólafur Jóhannesson myndaði vinstri stjórn þetta ár, var í fyrsta skipti við myndun slíkrar stjórnar siglt fram hjá því að víkja hernum úr landi, og sat hann sem fastast í gegnum stjórnarsetu vinstri stjórnar 1988-1991. 

Í bæði skiptin var ástæðan sú, að Alþýðubandalagsmenn sáu, að þeir yrðu utan ríkisstjórna um alla framtíð ef þeir gerðu það að skilyrði að Ísland færi úr NATO eða víki hernum úr landi. 

2009 til 2013 sat vinstri stjórn án þess að hróflað væri við veru Íslands í NATO, en herinn var raunar farinn 2006. 

Ólíklegt er í ljósi sögunnar að Vinstri grænir láti ríkisstjórnarþátttöku sína og forsætisráðuneytið af hendi þótt umsvif Bandaríkjamanna aukist hér á landi. 

Og nefna má að í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013 samþykktu Íslendingar með atbeina Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra árásir NATO í Líbíu, sem hafa síðar orðið umdeildar. 

Nú er utanríkisráðuneytið í höndum Sjálfstæðismanns, svo að hans atbeini að einhverju svipuðu á norðurslóðum sýnist ekki fjarlægur möguleiki.   


mbl.is „Hér verður ekki herseta á nýjan leik“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið í húfi fyrir auðræðið.

Ekki veit ég hver fyrstur notaði orðið "auðræði" um það vald sem áður var oft kallað auðvald eða veldi kapítalsins, en ég heyrði fyrst Jón Baldvin Hannibalsson nota þetta orð þegar hann var að skilgreina grunninn og undirrót að því ástandi heimsmála nútímans, sem skóp ekki aðeins efnahagshrunið 2008 heldur ræður öllu um gang heimsmálanna í hvívetna. 

Inni í því er falið hve vanmegna stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn þjóðanna eru í mikilvægustu málum okkar tíma; rányrkju auðlinda jarðar, sem sífellt færri og ríkari auðjöfrar ráða, og yfirþyrmandi vald auðræðisins skapar getuleysið andspænis loftslagsvandanum. 

Eftir því sem auðræðið vex og vex teygir það anga sína æ víðar. 

Ein birtingarmyndin kemur fram í hagsmunum þeirra, sem eiga veldi sitt undir því að sem minnstar breytingar verði á rekstri og efnahagslífi þjóðfélagsins og kemur líka fram í því, að helst verði snúið til baka til þess tíma þegar bruðlþjóðfélagið blómstraði hvað best. 

Hagsmunir handhafa auðræðisins birtast alls stðar, til dæmis í því að koma í veg fyrir umbætur, líkt og þingmenn republikana gera nú í Oregon í Bandaríkjunum.   

 

 


mbl.is Þingmenn fela sig fyrir lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband