Nú lækkar gengi krónunnar og það gefur kannski smá tækifæri.

Í fréttum má sjá að gengi krónunnar sé að lækka, og það ætti að geta gefið einhver tækifæri til að lækka það verð, sem Íslandsferð útlendinga kostar. 

Að minnsta kosti var hækkun gengis íslensku krónunnar aðallega kennt um það hve hátt verðlagið hér væri fyrir erlendu ferðamennina. 

 


mbl.is Íslenskt verðlag helsta umkvörtunarefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofsvert framtak í anda Tómasar Knútssonar.

Ruslið á fjörum Íslands hefur verið vandamál í marga áratugi, en seint hefur gengið að bregðast við því. 

Þótt fréttamyndir af ruslinu í sjónvarpi vektu athygli fyrir 30 árum, gerðist ekki mikið. 

Það er fyrst nú á síðustu árum sem vakning hefur orðið í hreinsunarmálunum og átti eldhuginn og dugnaðarforkurinn Tómas Knútsson ásamt vösku samstarfsfólki lofsverðan og þakkarverðan þátt í því að fá fólk til að ganga með sér af alefli í málið.  

Framtakið á Hornströndum ber baráttuhug hreinsunarfólks fagurt vitni og ýtir vonandi undir það að bætt verði úr því ófullnægjandi ástandi, að það verði að grafa sorpið í jörðu í stað þess að farga því og endurvinna á sem fullkomnastan hátt eins og gert er erlendis. 


mbl.is Fluttu 6,3 tonn af rusli úr Barðsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíminn: Stórstyrjöld í "sýklahernaði."

Nýr veruleiki, sem sérfræðingar spáðu fyrir aldarfjórðungi að myndi renna upp á 21. öldinni, virðist vera að gera það. Grunnurinn er sá, að í mannslíkamanum og utan á honum eru fleiri bakteríur en frumurnar eru í líkamanum. 

Nær allar bakteríurnar eru bæði meinlausar og sumar hverjar bráðnauðsynlegar, eins og til dæmis gerlarnir í meltingarveginum. 

En síðan eru líka bakteríur og veirur sem valda sjúkdómum af ýmsu tagi, og læknavísindin hafa barist við í meira en öld. 

Alveg eins og að ónæmiskerfi manna og dýra þróar með sér getu til að berjast við sýkingar og sjúkdóma, þróa bakteríur og veirur með sér vaxandi getu til að standast árásir sýklalyfja og sótthreinsunaraðferða. 

Orðið sýklahernaður hefur hingað til verið notað um það þegar menn nota sýkla sem vopn í hernaði. 

Nú má segja að önnur merking þessa orðs geti falið í sér eitt höfuðverkefni læknavísindanna á 21. öld, að þróa lyf í baráttunni við sýklana, sem sífellt verða öflugri. 

Það er stórstyrjöld vorra daga. 


mbl.is Ofurbaktería ónæm fyrir sótthreinsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðiskostnaðurinn þung byrði fyrir marga.

Húsnæðiskostnaðurinn, bæði þegar um eign eða leiguhúsnæði er að ræða, felur í sér einhver þungbærustu gjöldin í heimilishaldi tugþúsunda fólks hér á landi. 

Einkum er það láglaunafólk og ungt fólk, sem þetta bitnar á. 

En það er eins og þetta ástand sé eitthvert náttúrulögmál sem enginn mannlegur máttur ráði við og þess vegna er bara yppt öxlum og ástandið heldur áfram að vera jafn erfitt og erfiðara, oft hjá þeim sem síst skyldi. 

Þegar 80 milljarðar voru greiddir hér um árið til þeirra, sem svonefndur forsendubrestur hefði bitnað á, fengu þeir sem verst voru settir vegna forsendubrests varðandi leiguhúsnæði og hækkun húsaleigu af þeim sökum, engar bætur, þótt þar væri um minnsta kosti á annan tug þúsunda leigjenda að ræða.  


mbl.is Dæmi um tvöföldun fasteignagjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband