Uppsetning snjóflóðavarna gengur of hægt.

Fram til 1994 til 1995, þegar þrjú mannskæð snjóflóð féllu á Vestfjörðum, virtust fæstir Íslendingar, hvorki Alþingismenn né sveitarstjórnarmenn gera sér grein fyrir snjóflóðahættunni, sem vofði yfir á mörgum stöðum á landinu. 

Í ferð síðuhöfundar til að skoða snjóflóðavarnarstöðina í Davos í Sviss og snjóflóðavarnir þar í landi 1997 kom margt fróðlegt í ljós, enda Svisslendingar með langa reynslu af því að fást við snjóflóðavá. 

1. Víða ofan byggða og bæja mátti sjá snjóflóðavarnarmannvirki, sem var ætlað að koma í veg fyrir það á upphafssvæði snjóflóða að þau gætu farið af stað. Fyrir neðan svona varnarmannvirki var talið öruggt að byggja hús og hafa byggð. 

2. Sums staðar voru leyfð hús, sem ekki brotnuðu þótt snjóflóð féllu á þau, heldur væru bæði það sterkbyggð og klyfu flóðin eða væru grafin þannig inn í brekkur, að snjóflóð fleyttust fram af þökum þeirra, líkt og skíðastökkvarar. Þegar gefin var út snjóflóðaaðvörun, var íbúum leyfilegt að vera áfram inni í svona húsum á meðan á hættunni stæði, að uppfylltum ströngum skilyrðum um samband við umheiminn og með nægt rafmagn, vatn, vistir og loft. 

Eitt hús, sem sneri eins og skip með stefni upp í snjóflóðastefnu, reis á Norðureyri við Súgandafjörð. Framsýnn, sá húsbyggjandi og húsið virkaði.  

Hér á landi hefur fyrst og fremst verið farin leið 1. í snjóflóðavörnum og því haldið áfram síðan 1997 eða í meira en 20 ár. 

Greint hefur verið frá því í fréttum, að samt sé helmingur heildarverkefnisins eftir. 

Þótt mikil bót sé að þeim mannvirkjum, sem komin eru, gengur þetta of hægt. 

Þótt nú sé hlýrra loftslag en áður, gilda orð norska sérfræðingsins, sem var kvaddur til eftir snjóflóðið á Seljalandsdal 1994: "Þar sem getur fallið snjór og landi hallar, þar getur fallið snjóflóð."


"Dróna- og vélmennastríð", ný tegund af "fjarstýringarstríði."

Um daginn skutu íranskir hermenn niður fyrsta drónann, bandarískan, og nú hefur hans verið hefnt með því að Bandaríkjamenn skutu niður íranskan dróna. 

Það hefur stundum verið sagt að munurinn á Fyrri heimsstyrjöldinni og Seinni heimsstyrjöldinni hafi fyrst og fremst verið sá, að í þeirri fyrri bárust kornungir hermenn á banaspjótum milljónum saman og mannfallið var fyrst og fremst ungir menn í blóma lífsins, en að í síðara stríðinu hafi mannfallið jafnvel verið meira meðal almennra borgara, sem sáu aldrei framan í banamenn sína. 

Í Kalda stríðinu varð ljóst, að hætta var á enn nýrri tegund stríðs, "fjarstýringarstríð", þar sem herstjórnendur í byrgjum eða í kafbátum, fjarstýrðu kjarnorkueldflaugum til að gereyða hundruðum milljóna fólks. 

Fjarstýring í hernaði, og þar með firringin, kemst nú á ýmis ný stig, svo sem að vélmenni og drónar sjái um að drepa óvinina. 

Og að vélmennaherir berjist í stórorrustum. 

Það er sem sé komin upp enn ný útgafa af fjarstýringarstríði, drónastríð í lofti og róbótastríð eða vélmennastríð á jörðu. 

Í drónastríði Bandaríkjamanna og Írana standa leikar 1:1 eins og er. 

Enginn hermaður hefur enn fallið, en hættan á því fer vaxandi þegar stríðsþjóðirnar eru að þreifa sig áfram með ný afbrigði af hernaði, sem vegna eðli máls, eru án viðbragða sem byggð eru á reynslu og yfirvegun. 


mbl.is Bandaríkjaher skaut niður íranskan dróna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtur fegurðarinnar og Hringvegarins. Fljótið allt friðað síðar?

Nú hefur Goðafoss verið friðaður og er það vel. 

Margir fossar á Íslandi eru þó vatnsmeiri en Goðafoss. Rennsli í Urriðafossi í Þjórsá er að meðaltali 352 rúmmetrar á sekúndu og 184 í Dettifossi, en 84 í Goðafossi. 

Goðafoss er heldur ekki hæstur. Dettifoss er 44 m og Gullfoss 32, en Goðafoss er 11 metra hár. 

Engu að síður er Goðafoss líklega þriðji frægasti fossinn hér á landi, því að stærðartölur segja ekki allt. 

Fossinn er afar fallegur og sýnist vera stærri, hærri og vatnsmeiri en hann er. 

Hann á sér merka sögu varðandi kristnitökuna þegar Þorgeir Ljósvetningagoði henti hinum heiðnu goðum sínum i fossinn og fór öðruvísi að en gert var í Reykjavík, þar sem öndvegissúlurnar, heimilisguðir Ingólfs Arnarsonar og niðja hans, voru enn í eldhúsi 130 árum eftir kristnitökuna. 

Síðast en ekki síst er lega Goðafoss ákjósanleg, því að hann er alveg við Hringveginn og sést vel frá honum. 

Friðun þessa yndislega foss er því fagnaðarefni á alla lund. 

Ofar í ánni eru Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss, sem mætti vel athuga að setja lika á friðunardagskrána ásamt Skjálfandafljóti og vatnasviði þess í heild. 


mbl.is Áforma að friðlýsa Goðafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágir sólargeislar geta verið nytsamlegir.

Það getur stundum verið kostur við skoðun lands og myndatökur hve sól er yfirleitt lengi lág á lofti síðsumars hér á landi, og ef slík myndataka er tímafrek, getur tilkoma dróna verið mjög gagnleg. 

Júlí er ekki endilega best fallinn vegna þess að það er aðeins í stuttan tíma á morgnana og kvöldin sem sólin er það lág á lofti að það myndist skuggar, sem draga fram drætti í landslaginu, sem annars sjást ekki. 

Dæmin eru mörg eins og til dæmis uppgötvun "þjóðveldisgarðanna" svonefndu í Þingeyjarsýslum, en leifar af þeim og það, hvernig þeir höfðu verið lagðir um endilangar heiðar nyrðra, sáust best þegar sól var lágt á lofti. 

Hér um árið þegar Einar Pálsson og fleiri voru að reifa kenningar um þinghald á Þingvöllum og það, hvar Lögberg hefði staðið, veltu margir fyrir sér hvort hægt væri að finna staðinn og svæðið, sem áheyrendur voru á, með loftmyndatöku undir mismunandi halla sólargeisla. 


mbl.is Drónar fundu áður óþekktar minjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 sinnum minni þjóð varð líka að spara.

Það er rétt sem þeir segja hjá NRK, að stóru tveggja tommu myndbandsspólurnar, sem voru notaðar í byrjun myndbandabyltingarinnar í sjónvarpi, kostuðu morð fjár. 

Þess vegna var óhjákvæmilegt að nota sömu spólurnar sem oftast með því að taka yfir það, sem búið var að taka áður á þær. Líka fyrstu tunglferðina. 

Norðmenn eru fimmtán sinnum stærri þjóð en Íslendingar, og íslenska sjónvarpið mun meiri nýgræðingur og fátækara en það norska á áttunda áratugnum. 

Þess vegna þurfti óhjákvæmilega að sýna enn meiri ákveðni hér á landi við það að þurrka út merkilegt efni og gernýta hinar ofboðslegu dýru spólur. Á alþjóðlegu kvikmyndargerðarmáli heitir þetta "kill your darlings."

Dæmi er sjónvarpsþátturinn með Halldóri Laxness þar sem hann mælti hin fleygu orð:  "Er ekki hægt að lyfta þessu upp á örlítið hærra plan." 

Kannski verður til tækni í framtíðinni þar sem er hægt að búa til nýja mynd með nýju hljóði með því að nota sem grunn endursögn 30 árum síðar í Kastljósi á hinum frægu orðum, hver veit?

 

 


mbl.is NRK tók yfir tungllendinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband