Maxmálið minnir svolítið á DC-10, A 320 og 330 slys fyrr á árum.

Vandræðin hjá Icelandair stafa að stórum hluta af Boeing 737 Max slysunum, sem eiga sér hliðstæður að hluta til frá fyrri tíð. 

Þegar farangurshurðir fóru að tætast í tvígang af hinum nýju Douglas-DC 10 þotum mátti rekja það að miklu leyti til vanrækslu og sleifarlags hjá bæði bandaríska loftferðaeftirlitinu FAA og Douglas, sem minnir á svipað hjá FAA og Boeing núna. 

Og í fyrsta farþegafluginu með farþega á hinni þá spánnýju Airbus A 320 tók jafn spánnýr Fly-by-wire búnaður, byltingarkenndur tölvustýrður búnaður, sem ætlað var að koma í veg fyrir ofris, ráðin af flugstjóranum í lágflugi yfir flugsýningu. 

Fyrsta mannskæða slysið á þotum af gerðinni Airbus 330 Air, þegar Air Frace 447 steyptist niður yfir Suður-Atlantshafi fyrir áratug og allir fórust, meðal annars einn Íslendingur, varð vegna mistaka flugmanna, sem rakin voru til lélegrar þjálfunar í því að fást við vandræði af völdum sampils milli sjálfvirknibúnaðar og mistaka flugmanna. 

Málaferli vegna þessa slyss á hendur Air France urðu langdregin og æfingakerfi flugmanna í samræmi við CRM, Crew Resource Management, var endurbætt. 

Lærdómar af fyrrnefndum slysum hafa reynst ómetanlegir við að auka flugöryggi, og vonandi mun fást lærdómar af Boeing 737 Max slysunum, sem skapa árangur af sama tagi.  


mbl.is Icelandair segir upp 87 flugmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski "jeppa"brandarinn verður æ skondnari.

Í tengdri frétt á mbl.is er greint frá þeirri staðreynd að í Evrópu hafi bílakaupendur í vaxandi mæli snúið sér frá kaupum á dísilbílum og keypt jeppa í staðinn. 

Þetta er sagt berum orðum í fréttinni, að fólk kaupi jeppa í staðinn, og það ekkert smáræði, því að um er að ræða milljónir bíla af þessu tagi á ári.  

Ekki hefur farið fram hjá neinum, að þessi þróun hvað snertir svokallaða "jeppa" hefur líka verið í gangi hér á landi. 

Áður hefur verið fylgst með "jeppa"æðinu íslenska hér á síðunni og fáránleikanum, sem sú íslenska orðanotkun felur í sér, því að í stað þess að þýða ensku skammstöfunina SUV, sem er notuð erlendis, og tala um fjölnotabíla eða sportnytjabíla, hefur gamla orðið jeppi verið dregið fram og snúið all hressilega út úr því til þess að fá kaupendur til að halda að þeir aki torfærubíllum þegar þeir aka í raun ósköp venjulegum fólksbílum. 

Til fróðleiks má geta þess að fyrstu bílarnir, sem hlutu skilgreininguna SUV, voru Dodge Caravan og Renault Espace í kringum 1983. 

Engum lifandi manni datt þá í hug að þetta væru jeppar, hvorki sportjeppar né jepplingar, enda báðir aðeins með drif á tveimur hjólum. 

En eftir að bílar ein og Rav 4 og Honda CRV slógu í gegn um miðjan siðasta áratuginn, kom fram þessi knýjandi íslenski draumur um jeppa, en þó í byrjun talað um jepplinga.

Þar með var komin af stað þróun á notkun orðmyndarinnar "jepp" sem vegna gríðarlegrar samkeppni í sölu slíkra bíla er fyrir löngu komin út í vaxandi ógöngur og orðinn að æ skondnari brandara. 

Ekki er ástæða til að taka neitt umboð sérstaklega út úr; allir neyðast til að taka þátt í þessu gríni. 

Nýjasta dæmið er rafbíll, sem auglýstur er sem fyrsti rafknúni sportjeppinn. 

Síðuhafi brá sér með mælitæki í umboðið til að athuga veghæð, drif og annað, sem hlyti að tilheyra svo göfugum jeppa, og komst að því að þegar bíllinn er mannlaus, er veghæðin aðeins 16 sentimetrar, sem þyðir 15 sentimetrar þegar einn maður sest upp í hann;  lagið á framendanum líkara snjóplóg en framenda raunverulegs jeppa, og aðeins hægt að fá þennan "sportjeppa" með drifi á framhjólunum einum. 

Veghæðin er aðeins einum sentimetra meiri en á rafbíl af svipaðri stærð, sem hefur komið hér á markað á svipuðum tíma, en engum dettur ennn í hug að kalla sportjeppa. 

Í lýsingu á bílnum er heitið "sportjeppi" meðal annars réttlætt með því hve há yfirbygging hans sé. 

Samt er hún lægri en á Nissan Leaf og Opel Ampera-e, sem engum dettur enn í hug að kalla sportjeppa. 

Í nokkur skipti þegar síðuhafi hefur hitt ánægða eigendur nýrra "sportjeppa" sem eru aðeins með drif að framan en eru í stækkandi hópi bíla, sem þannig háttar til um, hafa þeir ekki trúað því þegar þeim var bent á að það vantaði fjórhjóladrif i "jeppann." 

En þeir hafa samt litið með ljómandi bros upp og sagt sem svo; "Það gerir ekkert til því að hann er miklu ódýrari fyrir bragðið, með stærra skott en ella og gefur samt möguleikann á því að allir haldi að ég sé á jeppa."

 


mbl.is Hættir sölu dísilbíla í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýyrðasmiðurinn Emil Björnsson. "Þynnka"?

Einn þýðingarmesti þáttur9inn í því að viðhalda gæðum og lífsvon íslenskrar tungu felst í smíði nýyrða yfir bæði ný og gömul fyrirbæri. 

Fjölnismenn, einkum Jónas Hallgrímsson, unnu ómetanlegt brautryðjendastarf á því sviði þegar ofurveldi dönskunnar var sem mest á fyrri hluta 19. aldar. 

Einn margra góðra nýyrðasmiða fyrir hálfri öld var séra Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, og sjá má dæmi um nýja notkun gamals íslensks orðs í fyrirsögninni á mbl.is:  "Fyrsta stiklan...frumsýnd..."

Þegar leitað var að heiti á fyrstu þáttaröðinni, sem Sjónvarpið lét gera með nýjustu myndbandstækni þess tíma árið 1981, fann Emil gamla orðið stiklur sem heiti á hana. 

Upphafleg merking orðsins er sótt í það fyrirbæri í gönguferðum, sem felst í því að komast sem léttast yfir ár og læki með því að stikla á steinum og grynningum, og einnig birtist orðið í íslensku máli í orðtakinu "að stikla á stóru."

Úr smiðju Emils munu heitin hyrna og ferna komin yfir nýjustu ílátin fyrir mjólk á þessum tíma. 

Ekki man síðuhafi hver kom fram með hið frábæra nýyrði þyrla í stað erlenda heitisins helekopter, en heitin þyrla fyrir helekopter og sími fyrir telefón eru dæmi um það hve þjál og snjöll íslensk tunga getur verið. 

Emil var afar rökvís og fundvís í senn, og gerði kröfur til nýyrða sinna í því efni. 

Þegar heitið léttmjólk var valið yfir þá nýju tegund mjólkur, sem fólst í því að skerða fituna í henni án þess að fjarlægja hana alveg, fannst Emil það heiti bæði of hugmyndasnautt og of mikil eftiröpun á skandinavíska heitinu, auk þess sem það væri tæknilega rangt, því að léttmjólk væri í raun þyngri en venjuleg mjólk. 

Emil stakk upp á nýyrðinnu "þynnka" sem bæði lýsti eðli vörunnar betur og væri eins stutt og auðskilið og unnt væri.

Auk þess fólst ákveðin kímni í því heiti. 

En Emil varð ekki að ósk sinn í þetta sinn, því miður. 


mbl.is Fyrsta stiklan úr Venjulegt fólk 2 frumsýnd á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband