Enn eru lappirnar dregnar hér á landi varðandi þjóðgarða.

Íslendingar hafa í raun verið nokkra áratugi á eftir öðrum þjóðum varðandi þjóðgarða og náttúruvernd. 

Og enn lengra á eftir Bandaríkjamönnum, þar sem átök í þessum málum var á svipuðu stigi fyrir hálfri öld og hún varð hér á landi um síðustu aldamót.

Bandaríkjamenn bönnuðu allar vatnsaflsvirkjanir jarðvarmavirkjanir og boranir í Yellowstone fyrir löngu, löngu síðan. 

Og leyfa þar að auki engar virkjanaboranir umhverfis þjóðgarðinn á svæði, sem er álíka stórt og allt Ísland. 

"Í Yellowstone eru heilög vé" sagði einn helsti jarðvarmavirkjanafræðingur þeirra á 10 ára afmælisfundi ÍSOR fyrir nokkrum árum.  

 

Hjörleifur Guttormsson talaði fyrir daufum eyrum fyrir um þremur áratugum þegar hann vildi að Íslendingar gerðu það sama og Norðmenn varðandi það sem þá varð að rammaáætlun hjá þeim, en ekki hjá okkur fyrr en löngu seinna. 

Norðmenn lýstu því yfir 2002 að tími stórra vatnsaflsvirkjana á norska hálendinu væri liðinn, en gerðar höfðu verið áætlanir um þær um aldarfjórðungi fyrr. 

Núna byggist andspyrna gegn íslenskum hálendisþjóðgarði hins vegar meðal annars á því, að þjóðgarður verði látinn hindra að alls þrettán virkjanakostun verði hrint í framkvæmd innan þjóðgarðsins. Slíkt megi ekki gerast, það verði að keyra stóriðjukennda virjanastefnu áfram. 

Í Noregi tókst að finna lausn á öllum vandamálum, sem risu upp við stofnun Jóstedalsjökulsþjóðgarðsins, þótt þau væru af svipuðum toga og örlað hefur á hér á landi. 

Án þess að hafa kynnt sér hina norsku lausn er hins vegar blásið til mikillar andspyrnu hér og sótt fram gegn þjóðgarði af mjög svipuðu tagi. 

Með ólíkindum ef draga á mörk þjóðgarðsins þannig, að þau liggi eftir endilangri Kárahnjúkastíflu, þeirri stíflu í Evrópu, sem hafði í för með sér mestu mögulegu neikvæðu og óafturkræfu umhverfisáhrif sem nokkur framkvæmd hefur haft samkvæmt því mati sem kom fram í 1. áfanga rammaáætlunar. 


mbl.is Hvergi slakað á hvað varðar hálendisþjóðgarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíklegt að Ísland færi sig um set á hnettinum.

Veðurfræðingur segir í tengdri frétt á mblis að ólíklegt sé að veðrið hér á landi breytist á næstunni.  Hefði getað bætt því við, að ólíklegt sé að sólargangur breytist hér stórlega á næstu vikum.

Nýlega hefur sú staðreynd verið áréttuð hér á síðunni að í svartasta skammdeginu á Íslandi og fram í apríl se að meðaltali lang lægsti loftþrýstingur á jörðinni skammt suðvestur af Íslandi, en hins vegar önnur af tveimur hæstu loftþrýstingssvæðum jarðar, Grænlandshæðin, tiltölulega skammt frá þessari árlegu ofurlægð. 

Á milli ofurhæðarinnar og ofurlægðarinnar er síðán mesta samfellda vindasvæði jarðar á þessum tíma árs. 

Þetta eru að vísu meðaltalstölur, en einmitt þess vegna er hér um að ræða óumbreytanlega staðreynd, og þar með er spurningin um það hvort líklegt sé að veðrið breytist á næstunni svona svipuð og ef spurt væri hvort líklegt sé að veðurfar og sólarbirta breytist hér á landi á þessum árstíma. 

Telja verður mjög ólíklegt að Ísland færi sig um set á hnettinu og að fyrirbæri, sem íbúar Bretlandseyja og fleiri evrópskra þjóða þekkja undir heitinu "Íslandslægðin" muni taka upp á að færa sig eða hverfa úr sögunni til langframa. 


mbl.is Ólíklegt að veðrið breytist á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loka vegi eftir dekkjabúnaði og / eða í aðra áttina í einu?

Í tengdri frétt á mbl.is er velt upp þeirri hugmynd að loka vegum eða vegaköflum ef þar getur verið "manndrápshálka" en einnig reifað, að vegna lengdar vegakerfisins og takmörkuð fjárráð og mannskap geti slíkt verið illmögulegt. 

Ef loka á vegi, þarf helst að hafa vakt á viðkomandi vegarkafla svo að þeir, sem loka veginum, geti fylgst með ástandi hans, svo að hægt sé að létta banninu af eða slaka á því ef aðstæður breytast. 

Einnig má valta því fyrir sér, hvort lokunin geti falist í því að bílum á aðeins allra best mynstruðu og negldu dekkjunum verði leyfð för. 

Síðan er sá möguleiki, að aðeins verði leyfð umferð í aðra áttina í senn til þess að minnka hættuna á að bílar, sem koma úr gagnstæðum áttum, rekist saman. 

En það eru auðvitað takmörk fyrir því hve miklu fé og mannskap er hægt að beita við svona stjórnun, jafnvel þótt hún felist aðeins í því að stöðva þá, sem vilja fara um veginn, skoða dekkjabúnað þeirra og upplýsa þá um ástand vegarins, því að oft átta ökumenn sig illa á því þegar ástand vegarins framundan fer versnandi.  


mbl.is Hefði hugsanlega átt að loka veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband