Bjargaði brúðkaupsferð Kyoto frá kjarnorkuárás 1945?

Misjafnt er hvaða hugarfar og menningarlegan þroska og þekkingu hershöfðingjar hafa.

Þegar sett var á blað hvaða japanskar borgir yrðu á "dauðalista" yfir þær borgir, sem fyrstu kjarnorkusprengjunum yrði varpað á, var Kyoto efst á listanum hjá herforingjaráðinu. 

Það þýddi, að ef aðstæður, til dæmis veðurfarslegar, yrðu þær, að Kyoto lægi vel við, yrði hún hiklaust valin. 

Stimson, varnarmálaráðherra, sem var republikani, hafði komið til Kyoto í brúðkaupsferð sinni, og var kannski sá eini í yfirstjórn styrjaldarrekstursins sem vissi náið um hið einstaka menningarlega og trúarlega gildi Kyoto, mælti gegn þessu áformi og hafði sitt fram, tók beinlínis ráðin af herforingjaráðinu. 

Með þessu var Kyoto bjargað fyrir fullt og allt. 

Hann gerði það ekki aðeins vegna þess að hann vildi forða einstæðum menningarverðmætum frá gereyðingu, heldur ekki síður vegna þess, að þessi árás myndi hafa jafnvel enn meiri eflandi áhrif á baráttuvilja japönsku þjóðarinnar og stappa meira í hana stálinu en verstu árásir nasista höfðu á Breta á sínum tíma. 

Stimson var repúblikani í stjórn Trumans, sem var demokrati. Að Truman hefði hefði hótað opinberlega að gereyða helstu menningarverðmætum Japana hefði verið óhugsandi, jafnvel þótt fyrir lægi það sjónarmið haukanna, sem vildu hafa Kyoto sem skotmark, að einmitt trúarlegt og menningarlegt gildi Kyoto væri slíkt, að allur vindur yrði úr Japönum, ef borginni yrði eytt. 

Það mat varð undir, þegjandi og hljóðalaust, og björgun Kyoto var eitt síðasta verk Stimsons áður en hann hætti störfum. 

Hvort sú tilviljun, að hermálaráðherrann þekkti til í Kyoto, hefði ráðið úrslitum um þessa ákvörðun hans, er erfitt að fullyrða til fullnustu um, en hitt er vitað, að í fleiri skipti beitti hann valdi sínu, með samþykki Trumans, gegn vanhugsuðum eða vafasömum ákvörðunum valdamanna í hernum. 

Það hefði kannski ekki þurft áhrif af brúðkaupsferð, heldur frekar skynsemi, yfirvegun og framsýni til að þyrma Kyoto. 

Eftir þessa björgun Kyoto er það almenn skoðun sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, að kjarnorkuárás á Kyoto hefði ekki aðeins verið glapræði, heldur stríðsglæpur. 

En nú eru aðrir tímar í Washington og forsetinn sjálfur hótar opinberlega að ráðast á skotmörk sem hafa jafnvel það eina gildi að vera mikils virði menningarlega og þar með jafnvel trúarlega. 

Og heldur því fram að þessi stefna sé eins hrein friðarstefna og hugsast geti. 


mbl.is Reiðubúnir að ráðast á 52 skotmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáir engin "völva" eldgosi?

Á Íslandi verður eldgos á um það bil fjögurra ára fresti að meðaltali. Ef einhver af svonefndum "völvum" spáir gosi á nýju ári, eru því meira en 20 prósetn líkur á því að spáin rætist. 

EnDA var slík spá á kreiki í nokkur ár samfellt ef rétt er munað. 

Eftir því sem árin líða ættu líkurnar á eldgosi að vaxa. En af því að ekkert kemur eldgosið er eins og að það dragi úr viljanum hjá völvunum til að spá eldgosi. 

Og þar með minnka væntanlega líkurnar á því að spá um eldgos rætist, þótt líkindareikningur jarðvísindamanna bendi til þess að það sé kominn tími á gos hjá nokkrum af virkustu eldstöðvunum, Heklu, Bárðarbungu, Grímsvötnum og Kötlu, og jafnvel haið svipað óvissutímabil varðandi Öræfajökul og var hjá Eyjafjallajökli á milli 1999 og 2010.  


mbl.is Stór skjálfti við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi aukning í notkun á orðinu aukning.

Þegar hlustað er á fréttatíma á einhverjum ljósvakafjölmiðlanna myndi frétt um úttekt á notkun orðsins "aukning" geta orðið einhvern veginn svona: 

Vaxandi aukning er á notkun orðsins aukning í fjölmiðlum og er þetta frábæra orð á góðri leið með að útrýma orðum eins og fjölgun og vöxtur,  og sögnunum að fjölga, fækka, stækka og minnka. 

Aukningin er mikil ´þegar um aukningu í fjölda er að ræða og sömuleiðis er aukningin mikil í vexti á aukningunni í fækkun af ýmsu tagi. 

Í fréttum í kvöld var greint frá mikilli aukningu í tilfellum af kulnun hjá starfsfólki á Bráðamóttöku Landsspítalans, en aukningin í minnkun á notkun orðsins starfsleiða hefur verið afar mikil síðustu ár. 

Fréttir eiga að vera í sem einföldustu máli, og því fær vaxandi aukning á aukningunni á notkun orðsins aukning til útrýmingar sagnorða verðskuldaðan byr í hinni miklu aukningu á minnkun notkunar þeirra.    


mbl.is Hitamet í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband