5.12.2020 | 19:31
Hvað um "hvítu kolin" hans Trumps ?
Einn hluti af nýrri umhverfisstefnu Joe Bidens beinist að því að beina bæði fjármagni og hugviti til þess að leita grænna lausna á fjölmörgum sviðum.
Í heild muni stefnan bæði búa til ný verðmæti í nýju hagkerfi, minnka tjón af mengun og gera starfsemi vistvænni.
Margt sem er í deiglunni er raunar mjög nýstárlegt svo sem það að breyta koldíoxíði í grjót með niðurdælingu.
Biden nefndi sem dæmi um ávinning af betri nýtingu orku bætta einangrun húsa, sem Trump greip á lofti í seinni kappræðu þeirra og lýsti afleiðingunum af slíku þannig að hús yrðu gluggalaus. Litlu munaði að í framhaldinu kæmi samlíking við það þegar Bakkabræður ætluðu sér að bera birtuna í húfum sínum inn í húsin, og mátti reyndar sjá á netinu, að sumir ákafir fylgismenn Trumps tóku þann pól í hæðina.
Á netinu má sjá skondna samantekt á sérvöldum "skrýtnustu" og "vitlausustu" setningunum, sem hann hefði sagt í sjónvarpsútsendingum á forsetaferlinum, og fylgdi með að um svo auðugan garð væri að gresja, að mjög erfitt hefði verið að velja.
Meðal þeirra fleygustu voru lýsingar hans í upphafi faraldurs í BNA í sjónvarpsútsendingu á þeirri töfralækninga að úða sterkum hreinislög inn í lungu covid-sjúklinga sem steindræpi veiruna.
Svipaðs eðlis voru lýsingar hans á því hvernig svokölluð "hvít kol", alger nýjung, myndu verða alveg mengunarlaus og laus við slæman útblástur. Þetta sýndi vel hve umhverfisvænn kolaiðnaðurinn gæti verið.
Einna lengst komst hann þó þegar hann fullyrti að góðir flugvellir og flugvélar hefðu verið mikilvægustu vopnin sem Georg Washington og Thomas Jefferson hefðu búið yfir í frelsisstríði Bandaríkjamanna!
Frelsisstríðið að tarna var reyndar háð á 18. öld, en ástæðulaust að vera með einhverja smámunasemi varðandi slíkt.
Einn best tókst honum þó upp þegar hann líkti því fjálglega hvernig F-35 orrustuþotur Bandaríkjamanna veittu flughernum yfirburði af því að þær væru svo ósýnilegar, að jafnvel þótt verið væri alveg upp við þær sæu menn þær ekki.
Þar að auki gæti flugherinn eytt fellibyljum með því að varpa kjarnorkusprengjum inn í miðju þeirra og sprengja þá í spað.
En kannski voru mestu tilþrifin þegar Trump lýsti bæði með látbragði og hljóðum hve krabbameinsvaldandi hávaðinn í vindmyllum væri.
Þegar viðstaddir hváðu og báðu um nánari útskýringar gerði Trump sér lítið fyrir og hermdi eftir hinum banvæna hávaða með miklum tilþrifum.
![]() |
Kynna byltingarkennda hreinlætisvöru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2020 | 11:50
Valtað yfir helgistað sem var í friði frá landnámi.
Myndin sem fylgir tengdri frétt sýnir hálfa söguna gagnvart vesturhlið Austurvallar.
Norðurhluti vesturmarka vallarins var opinn reitur allt frá landnámi, þar sem mjög er líklegt að hafi farið fram sérstök trúarathöfn þegar öndvegissúlurnar, nokkurs konar heimilisguðir hins trúaða landnámsmanns, sættust við landvættina með yfirbragði fórnar.
Síðar varð reiturinn að kirkjugarði í kristnum sið, en öndvegissúlurnar nutu slíkrar virðingar, að þær voru samkvæmt rituðum heimildum "enn í eldhúsi" í meira en tvö hundruð ár eftir að kristni var lögtekin og heiðni lögð af.
Sjálfur sagði Ingólfur að Hjörleifur fóstbróðir hans hefði goldið það með lífi sínu, að vera trúlaus og vanrækja að friðmælast við landvættina.
Í stað þess að Alþingishúsið fengi að halda sínu lágmarks andrými norðan Kirkjustrætis var hótelkastala troðið ofan í helgireitinn og látinn byrgja fyrir allt útsýni og eðlileg lágmarks tengsl Austurvallar við svæðið vestan hans.
Þegar litið er yfir húsabyggðina í Kvosinni svonefndu blasir við hreint yfirgengilegt minnismerki um hið hrikalega hótelæði, sem hefur umturnað þessu svæði allt frá Miðbakkanum og Hörpureitnum til Tjarnarbakkans við Vonastræti, þvert ofan í eindregin mótmæli og bón heiðursborgara Reykjavíkur.
Gnótt ofurhótela á þessu svæði er svo yfirþyrmandi að ekki var hin minnsta þörf á hervirkinu gegnt Alþingishúsinu, heldur þvert á móti full ástæða til að stöðva þetta æði þar.
![]() |
Nýtt Landssímahús kemur í ljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)