Viðvörunarþjónusta er nauðsynlegur hluti af ferðaþjónustu.

Síðuhafi hefur langa reynslu af því hve það getur verið erfitt fyrir útlendinga að skilja íslenska veðráttu og aðstæður.

Það sem gerir þetta snúið er að þetta fer ekki endilega eftir menntun og reynslu þeirra og er stundum erfitt að skilja, hvernig útlendingar, sem hafa ferðast víða um álfur virðist stundum fyrirmunað að skilja jafnvel einföldustu staðreyndir. 

Þá getur verið vandasamt að finna einhverjar staðreyndir, sem þeir þó hljóti að skilja. 

Það nýjasta gæti til dæmis verið að vara við hvassviðri. Á íslensku berangri af margvíslegum gerðum eru skilyrði oft miklu verri en er í öðrum löndum sem eru vaxin skógi að stórum hluta. 

Ef útlendingi er til dæmis sagt frá því, að í snarpri lægð eins og asalægðinni, sem óð hér yfir í gærmorgun, hafi vindhraði komist orðið fjórum sinnum meiri þar sem hann varð mestur hér en mesti vindhraði sem þetta erlenda fólk þekkir, er kannski von um skilning. 

Sá vindhraði þýðir til dæmis að algengar sex tveggja hrayfla flugvélar komist ekkert áfram með slíkan vind í nefið. 

Nýlega var greint hér á síðunni frá einum þekktasta sjónvarpsmanni Belgíu, sem hingað kom til að gera ferðaþátt. Hann hafði gert ferðaþættir um slóðir víða um heim, þar sem verulega reyndi á færni og dugnað manna eins og hans. 

Skemmst er frá því að segja, að blessaður maðurinn gat ómögulega skilið hvaða áhrif það hefði á dagsbirtu fyrir ferð hans hér að velja sér ársbyrjun til ferðalagsins. 

Vikum saman fóru tölvupóstar á milli mín og hans um það að í svartasta skammdeginu væri ekki hægt að tala um daga, heldur sólarhringa þar sem sólarupprás nálægt hádegi breyttist einfaldlega yfir í sólarlag strax eftir hádegi án þess að sólin hefði fengið tækifæri til að komast upp fyrir sjóndeildarhringinn. 

Þótt honum væru send töluleg gögn um sólargang og þá meðaltalsstaðreynd, að í jánúar væri dýpsta þekkta loftþrýstingslægð veraldar, sem erlendis væri kennd við Ísland, skammt fyrir suðvestan land, en yfir Grænlandi hins vegar næst hæssta loftþrýstingshæð heims. 

Óhjákvæmileg afleiðing væri mesta rokrassgat heims að meðaltali. 

Við hverja aðvörun hopaði hann að vísu aðeins með leiðangurinn, en var undra fljótt kominn aftur í sama farið og fyrr. Hann hreinlega skildi þetta ekki. 

Hann kom í febrúar, tveimur mánuðum fyrr en honum hafði verið sagt að væri ráðlegt, og fyrir einskæra heppni verð það, að hann flaug beint frá Evrópu til Akureyrar og gat með hjálp þrautreyndra Íslendinga skrapað saman örfáum nothæfum tökudögum fyrir norðan og austan. 

Þessi þáttagerðarmaður naut þess í sinni Íslandsferð,  að með því að fá bestu mögulegu þjónustu hér á landi, komst hann hjá því að fara hingað í algera fýluför, miðað við þá ferðaáætlun, sem hann bar á borð í upphafi. 

Af þessum sökum er mikilvægt að huga að því, að góð ráð og aðstoð við er útlendinga við gerð ferðaáætlana þeirra er ómissandi liður í því síðari hluta orðsins ferðaþjónusta.  


mbl.is Flæmdu ferðamenn af Sólheimasandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvörumet, í byggð og alfararleið.

Gagnheiði, sem er suður af Fjarðarheiði á Austfjarðafjallgarðinum, liggur í rúmlega 900 metra hæð yfir sjó, fjarri byggð og alfaraleið. 

Mælingar á slíkum stað eru ekki sambærilegqr að gildi við mælingar á stöðum á láglendi eða í byggð, og hið nýja met 71 m/sk, sem samsvarar 145 hnútum, eða rúmlega 230 km/kst, undir Hafnarfjalli, er því alvöru met og gott dæmi um þann fádæma veðurofsa sem fylgdi "sprengilægðinni" í gærmorgun.   


mbl.is Trúverðug hviða mældist 71 m/s
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvasst á milli Reykjavíknanna og Borgarnesjanna? Á hvaða dýpi blæs vindur í Faxaflóanum?axaflóa?

Rugl í fjölmiðlum og í mæltu máli í meðferð örnefna er hvimleitt og viðgengst daglega. 

Bara síðasta sólarhringinn hefur það vaðið uppi í frásögnum og umfjöllun. 

Í sjónvarpi hneigjast veðurfræðingar mjög til að breyta grónum málvenjum. 

Þeir hafa sumir talað árum saman um Vestfirðina, Austfirðina og Suðurland, þvert ofan í þá aldagömlu málvenju að tala um Vestfirði, Austfirði og Suðurland. 

Flestum myndi hnykkja við ef talað væri um veðrið á Reykjavík í samræmi við síbyljuna um það, sem er að gerast á Bolungarvík. 

Næsta skref gæti þá verið að tala um ástandið á Reykjavíkunum og taka höndum saman við fréttamann í útvarpi, sem minntist í kvöld á raflínur Skaftártungna, en sveitin heitir reyndar Skaftártunga en ekki Skaftártungur. 

Rétt eins og að Reykjavík heitir Reykjavík en ekki Reykjavíkur og nafn Borgarness er í eintölu en ekki í fleirtölu. 

Í gærkvöldi brá svo við að veðurfræðingur talaði um veðrið í Faxaflóa, og það meira að segja tvisvar, ef ekki þrisvar. 

Væri fróðlegt að vita á niður á hve mikið dýpi óveður ná hér við flóann. 

Sú viðbára er oft höfð varðandi svona rugl, að það gildi nú ekki sama um borg eins og Reykjavík og fámenn byggðarlög úti á landi. 

Þetta er ekki aðeins ónýt röksemd, heldur lyktar hún af heimóttarlegum hroka. 

Þá mætti spyrja á móti hvaða línu eigi að draga hvað mannfjölda snertir á viðkomandi stöðum. 

Þúsund manns? Fimm þúsund manns? 

Og hvað um Faxaflóa? Við Faxaflóa búa næstum 70 prósent þjóðarinnar. Kannski styttist í áð sagt verði: Í Faxaflóa búa 70 prósent þjóðarinnar. 

Og þá er spurningin: Á hve miklu dýpi í flóanum? 


mbl.is Með verstu veðrum á Suðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband