Helsti kostur tengiltvinnbíla getur líka verið veikleiki.

Drægniskvíði er nýyrði, sem notað er um óþægilega tilfinningu ökumanna rafbíla, sem skapast af áhyggjum af því að glíma við rafmagnasskort á ferðum sínum. 

Kvíðinn er nátengdur ástandinu í innviðakerfi rafbíla, sem byggist mjög á því að geta treyst á aðgang að hraðhleðslustöðvum. 

Sé umferðin um þær svo mikil að biðraðir myndist, getur það orðið óþægilegt fyrir ökumann og farþega. 

Tvær leiðir eru til að setja undir þennan leka:  Annars vegar að hafa möguleika til þess að knýja rafbílinn áfram með eldsneyti ef rafmagn fæst ekki. BMW i3 rafbíllinn var í upphafi fáanlegur með lítilli 650 cc bensínvél (range extender), en hefur gefist upp á þeirri lausn, og nú fæst i3 aðeins sem hreinn rafbíll. 

Hvað snertir síðuhafa hefur hann velt vöngum yfir því að fá sér 50cc lausbeislaðan bensínhreyfil, sem hægt er að kaupa hjá Arctic trucks, er aðeins aðeins um 20 kíló, afar meðfærilegur og fyrirferðarlítill og framleiðir ca 1 kílóvatt af rafmagni. 

Hann yrði tiltækur sem varaafl ef fara þyrfti langt frá byggð eða ef rafafl þryti af öðrum orsökum. Þessi lausn hefur ekki verið reynd. 

Þar með virðist hin lausnin, sem svonefndir tengiltvinnbílar bjóða upp á, vera sú eina, sem hingað til hefur getað leyst þennan vanda fullkomlega, eins og velgengni Mitsubishi Outlander PHEV ber vitni um. Volvo XC40 recharge.

Nýr Volvo XC40 tengiltvinnbíll er af svipuðum toga. 

Í tengdri frétt á mbl.is er hann kallaður XC Recharge, en í erlendu bílablaði er það heiti á hreinum rafbíl Volvo, en tengiltvinnbíllinn með heitið WC Twin engine. 

Uppgefin drægni tengiltvinnbíla er yfirleitt að hámarki 50 kílómetar á rafaflinu einu, sem felst í rafhlöðum með kringum 13 kWst en mun nær 30 km innanbæjar hér á landi. 

Volvo tengiltvinnbíllinn er með 10,7 kWst og uppgefna 45 km drægni, sem gæti dalað niður fyrir 30 kWst við íslenskar aðstæður. En meðalakstur einkabíla innanbæjar er ekki nema rúmlega 30 km á dag þannig að oftast hrekkur rafaflið langt til að fullnægja innanbæjar akstursþörfinni. 

Ástæðan til þess að drægnin er ekki meiri en einföld. Til þss þyrfti of mikinn þunga og fyrirferð rafhlaðna, enda eru tengiltvinnbílarnir hátt í tvö tonn að þyngd. 

Í alþjóðlegum útreikningum er bensíneyðsla tengiltvinnbílanna áætluð 2 lítrar á hundrað kílómetra, og er þá gert fyrir ákveðnu meðaltali af akstri innanbæjar og úti á vegum. 

Innifalið í því er að gera ráð fyrir bílarnir séu hlaðnir með rafmagni eftir föngum. 

En þá komum við að veikleika þeirra, eða öllu aðstæðum eigendanna, því að síðuhafi kannast vel við það að hyllast til að nenna ekki að hlaða bílinn heima við, þótt það kosti aðeins samtals um 15 mínútur að setja bílinn í samband og taka hann úr sambandi. 

Vel stæður eigandi tengiltvinnbíls gæti því lent í því að sleppa því að hlaða úr því að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af orkuskorti, úr því að bensín/dísilvél er í bílnum. 

Sé mikið um þetta verður eldnsneytiseyðsla tengiltvinnbílsins meiri en ef hann væri með engan rafhreyfil og hefur síðuhafi heyrt nokkur dæmi um slíkt. 

Af þessum sökum er komin í gang viss tilhneiging yfirvalda til þess að stuðla aðeins með ívilnunum að því að hraða rafbílavæðingunni með hreinum rafbílum eingöngu. s

Þess má geta að hinn hreini rafbíll Volvo er með stórri 78 kst rafhlöðu, sem á að geta dugað til yfir 400 kílómetra aksturs. 


mbl.is Frumsýna nýjan Volvo XC40 Recharge
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldvörp, snilldarorð yfir einstætt fyrirbæri á þurrlendi jarðar.

Gígaraðir á gossprungum á flekaskilum meginlanda eins og Eldvörp fyrir suðvestan Svartsengi er hvergi að sjá á þurrlendi jarðar nema á Íslandi. Eldvörp syðrihl.horf til na

Hér á landi eru slíkar gígaraðir mun algengari en marga grunar, því að gígaraðir, sem gaus úr á ísaldartíma, bera þess merki að hafa myndast við það að bræða jökulinn ofan á sér, og eftir að jökullinn fór fyrir rúmum 11 þúsund árum, standa þessir gígar eftir sem móbergshryggir.

Einna mögnuðustu móbergshryggir landsins eru við vatnið Langasjó á Síðuafrétti, suðvestur af Tungnaárjökli, en af mörgum er að taka á öllu eldvirka svæðinu á Íslandi.

Lakagígar eru langstærsta gígaröð Íslands, þannig að ef menn ætla sér að sjá stærri gígaröð en Eldvörp, þarf að fara alla leiðina austur á svæðið milli Vatnajökuls og Suðurjökla. Eldvörp. Reykjanes fjærst.

Það er óskiljanlegt, að um er að ræða gígaröð eins og Eldvörp, einstætt fyrirbæri á heimsmælikvarða, í nokkurra kílómetra fjarlægð frá aðal alþjóðaflugvelli landsins, skuli vera fyrir hendi framkvæmdaleyfi fyrir sérstakri Eldvarpavirkjun með tilheyrandi óafturkræfum og neikvæðum umhverfisáhrifum. 

Enn verri er þessi fyrirætlan vegna þess að undir Eldvörpum og Svartsengi er sameiginlegt orkuhólf fyrir allt Svartsengis-Eldvarpasvæðið, og því aðeins verið í örvæntingu og skammsýni að hamla á móti óhjákvæmilegu orkufalli svæðisins vegna svonefndrar ágengrar orkunýtni; fyrirbæri, sem hefur verið kallað rányrkja á íslensku. 

Og því hraðari  og meiri sem rányrkjan er, því stærra og brattara verður orkuhrunið á endanum.  

Á efri myndinni er horft yfir hluta Elvarpa til norðausturs, í átt að Svartsengi í fjarlægð, en á neðri myndinni  er horft í hina áttina, til suðvesturs í átt að Reykjanesvirkjun við sjónarrönd. 


mbl.is Lífshættulegt gas í helli við Eldvörp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband