Varúð og ótti eru orð sem lýsa mismunandi hugarfari og nálgun.

Á síðustu árum hefur sá árangur náðst í farþegaflugi í heiminum, að það koma ár þer sem engin banaslys verða. Þessi mikli árangur hefur náðst með því að leggja áherslu á að skapa öryggi með ráðstöfunum, sem byggja á því að rannsaka til hins ítrasta slys og óhöpp til þess að geta lært af reynslunni og með rannsóknum og aðgerðum til að fyrirbyggja slys. 

Svipað má segja um þann árangur slysavarna hér á landi, að það koma ár með engu banaslysi á sjó. 

Sumir telja að það sé neikvætt að stunda slíka varúð, því að hún byggist á ótta, og ótti eyðileggi hinn nauðsynlega eiginleika að njóta hvers augnabliks og hamingju í núinu. 

"Hvað, eru hræddur eftir áratugi á sjó?" var eitt sinn sagt við mág síðuhafa, þegar hann vakti í foráttuveðri máls á ófremdarástandi um borð í öryggismálum báts, sem hann var vélstjóri á. 

Í svarinu við ábendingu mágs míns fólst neikvæð afstaða til slysavarnarmála sem virkar letjandi á aðgæslu og öryggisráðstafanir. 

En árangur af slysavarnar- og öryggisaðgerðum byggjast á því að hugsa jákvætt til varúðarráðstafana, því að þær eru grundvöllur þess að hægt sé að njóta hvers dags í sem hættuminnstu umhverfi.

Þetta er spurning um hugarfar og nálgun. Jákvæð varúð stuðlar að því að auka öryggi og bægja með því burt ótta.  


mbl.is „Það eru ekki teknir neinir sénsar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanleg hamhleypa og vinur í háskaferðum.

Síðuhafi getur borið um það vitni hvílíkur áhlaupamaður og eldhugi Ragnar Axelsson hefur verið í gegnum áratugina. Eldgos, flóð og hvers kyns hamfarir, sem hann hefur farið til viðfangs í ljósmyndaöflun sinni, skipta tugum, já jafnvel hundruðum. 

Það segir sitt um stöðu hans, þegar staða myndatökunnar var einna best, að eftir þau mistök á Súðavík að leyfa engar myndatökur þar á þeim forsendum, að slíkt væri alltof viðkvæmt, náðist samkomulag á Flateyri haustið eftir, að tveir myndatökumenn fengju að fara inn á svæðið, annar til að taka ljósmyndir fyrir blöðin, en hinn til að taka kvikmyndir fyrir sjónvarpsstöðvarnar, og skyldu þessi fjölmiðlar hafa jafnan aðgang að myndunum. 

Valið segir sitt:  Ragnar Axelsson tók myndir fyrir blöðin og Friðþjófur Helgason fyrir sjónvarpsstöðvarnar sem þeir menn, sem helst væri hægt að treysta fyrir þessu viðkvæma en mikilvæga verkefni. 

Þegar skoðaðar eru alþjóðlegar bækur með bestu blaðaljósmyndum síðustu aldar sést vel hve óhemju mikilvægt hlutverk þeirra er. 

Ein ljósmynd segir stundum meira en þúsund orð eða þúsund kvikmyndarammar. 

Dæmi sem flestir þekkja er myndin af Ali stendur yfir föllnum heimsmeistara og manar hinn fallna til að standa upp aftur. 

Hér á landi má nefna mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourquis pas?, þar sem þau liggja hlið við hlið í fjörunni í Straumfirði með leiðangursstjórann heimsfræga fremstan, en þessa mynd má telja mögnuðustu íslensku blaðamyndina á síðustu öld. 

Það væri hægt að skrifa óralangan pistil um RAX og undraverða myndatökuhæfileika hans, kryddaða sögum af ótal fréttaferðum, þar sem notið var þeirra forréttinda að fljúga í samfloti við hann á vettvang stórviðburða og náttúruhamfara. 

Ragnar hefur verið brautryðjandi í fremstu röð á alþjóðavettvangi í myndatökum á norðurslóðum og þegar vettvangurinn er orðinn svona margfalt stærri en sá íslenski, er skiljanlegt að hann verði að forgangsraða á þann hátt sem hann hefur tekið ákvörðun um.

Síðuhafi geymir minningar um ótal svaðilfarir með honum í hálfa öld með söknuði og þökk og óskar honum góðs gengis í hólmgöngum við nýjar áskoranir. 

 

 


mbl.is Þarf að drepa mig til að ég tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband