Aldrei aðvörunarmerkingar þessa dagana, svo munað sé eftir.

Þegar komið er af slitnu og grófgerðu slitlagi á vegi yfir á glæruhált nýtt malbik er voðinn vís. Maður, nákominn síðuhafa, lenti í þessu fyrir allmörgum árum og mölbrotnaði svo á ökkla að það þurfti margar aðgerðir í nokkur ár til að gera hann gangfæran á ný. 

Engin aðvörun, engin merking.

Núna má sjá svona hættukafla út um allt og hvergi eru neinar aðvörunarmerkingar þótt augljóst sé hver hættan er.  "Það er bannað að detta" er eitt helsta boðorð vélhjólamanna en þegar ekið er inni í röð af bílum sem byrgja fyrir útsýnið framundan og allt í einu komið út á glæru nýs malbiks, þarf oft ekki að spyrja að leikslokum, hvort sem það er hellirigning eða sólskin. 

Í Þýskalandi og víðar erlendis eru aðvörunarmerkingar settar það langt frá hættusvæði eða lokaðri akrein eða vegi, að ökumenn geti gert sínar ráðstafanir í tíma.

Hér í landi virðist hins vegar algengur sá hugsunarháttur að gefa engar aðvaranir í umferðinni eða þá allt of seint. Erlendis gefa menn stefnuljós í tíma en hafa það ekki eins og hér, að gefa annað hvort ekkert stefnuljós eða gefa það svo seint að komið er inn í beygjuna. 

Í eina skiptið sem síðuhafi hefur verið nærri því að detta enn sem komið er á sínum ferli á vélhjóli, var þegar taka þurfti að stað í brekku við umferðarljós fyrir aftan tvo bíla fyrir framan. Þá kom í ljós eins konar svunta af nýlögðu malbiki yfir gatnamótin, og mátti hafa sig allan við að komast af stað, án þess að og detta við það að spóla og renna til. 

Ekkert merki til aðvörunur.  

Hér á síðunni var sagt frá því fyrir allmörgum árum að verktaki lokaði nyrsta hluta Háaleitisbrautar klukkan sjö að morgni og lokaði með því leið inn í og út úr 700 manna byggð fram eftir degi. 

Ekkert merki, engin aðvörun kvöldið áður. 

Stjórnandinn á staðnum reif kjaft og sagði að samkeppnin milli verktaka væri svo mikil að þeir hefðu ekki efni á því að merkja neitt. 

Þegar snúið var sér til borgarinnar kom í ljós, að merkingaskylda var inni í útboðsskilmálum, en því miður væri ekki mannskapur eða peningar hjá borginni til þess að gera neitt. 

Hringurinn lokaðist. 

Árið áður höfðu þeir sem óku um hluta af Suðurlandsbrautinni komist í öngstræti þegar þeir voru komnir út á skurðbakkann! 

Fyrir þremur árum lokaði verktaki frárein af Reykjanesbraut úr norðri niður í Garðabæ, þannig að þeir, sem annars hefðu farið þarna, þurftu að aka fimm kílómetra hring um Hafnarfjörð og Garðabæ til þess að komast leiðar sinnar í stað þess að ef merking hefði verið einum gatnamótum norðar hefðu engin vandræði orðið. 

Í hve marga áratugi í viðbót á svona ástand að líðast?  


mbl.is Tveir létust í árekstri á Kjalarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerði fólkið i Venhorst?

"Kaupmaðurinn á horninu", sem var svo ómissandi þáttur í þjóðlífinu fyrir hálfri öld, má muna sinn fífil fegri. Brotthvarfi hans úr þjóðlífinu hefur verið tekið eins og náttúrulögmáli, og fá ráð hafa sýnst vera til varnar. 

Tíndar hafa verið til alls konar ástæður, svo sem nýir verslunarhættir í stórmörkuðum, með sjálfsafgreiðslu og tilheyrandi kostum stærðarinnar, en einnig almenn einkabílaeign. 

Kaupstaðurinn Venhorst í Hollandi er um tvö þúsund manna bæjarfélag í um tíu kilómetra fjarlægð frá miklu stærri bæ.DSC00023

Myndin er tekin á fjölmennri Evrópuráðstefnu þar 2017.

Fyrir nokkrum árum var svo komið í Venhorst, að öll smásöluverslun var að deyja út. 

Svipað vandamál og í mörgum íslenskun þorpum, svo sem Kópaskeri og Vopnafirði. 

En íbúar Venhorst dóu ekki ráðalausir, heldur settust á rökstóla og krufðu vandamálið til mergjar. 

Þeir rákust strax á þá staðreynd, að stór hluti íbúanna var kominn á eftirlaunaaldur og hafði enga atvinnu og litla afþreyingu.  Samskipti bæjarbúa voru komin í lágmark.  

Þarna leyndist visst tækifæri, og farið var í vinnu við að greina vandann á þann hátt að skoða, hve margir íbúar voru tilbúnir til að fórna hluta af tíma sínum í sjálfboðavinnu eða fyrir afar litla þóknun við að inna nauðsynlega þjónusu af hendi. 

Niðurstaðan varð sú að opna að nýju smásöluverslunina og dreifa störfum við hana á íbúana sjálfa. Hagkvæmnisathugun leiddi í ljós, að þegar heildarkostnaður var reiknaður saman, var dýrasta lausnin fólgin í því að halda áfram að láta íbúana aka langar leiðir á einkabílum til verslunarerinda. 

Þess lausn leysti heilmikið líf og fjör úr læðingi, og árið 2017 var 43ja þjóða mörg hundruð manna þriggja daga ráðstefna Dreifbýlisþings Evrópu ( European Urban Parliament) haldið í Venhorst með glæsibrag, þar sem ýmsar lausnir fólksins, sem bjó þar, vöktu aðdáun og umræður. 

Það hafði komið í ljós að fjöldi þeirra, sem vildi taka að sér vaktir og störf í versluninni var hæfilega mikill, og alveg nýtt líf færðist í samskiptin í bænum. 

Vitanlega eru aðstæður misjafnar eftir stöðum og verður því að vanda vel til undirbúnings lausnar, sem virkar. 


mbl.is Kaupfélaginu bjargað frá lokun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband