19.7.2020 | 16:21
Grimmilegt stríð við blákaldar tölur.
Nú er háð grimmilegt stríð í farþegaflugi heimsins vegna samdráttaráhrifa COVID-19. Spurningin er ekki hvort, heldur hve mörg flugfélög muni troðast undir í þeirri samkeppni, sem áður var hörð en verður nú mun harðari og óvægnari.
Minni framleiðsla á Airbus A380 en reiknað hafði verið með sýndi, að að óbreyttu var stækkun þotna komin á endastöð. Þar stóð meðal annars ein tala, 80 metra hámarksvænghaf í vegi fyrir frekari stækkun, jafnvel þótt önnur tæknileg atriði hefðu batnað.
80 metra vænghafshámark var óhjákvæmilegt, því að annars hefði þurft að hanna öll flughlöð, flughafnir og flugvelli heims upp á nýtt.
Með hönnun A380 var meira að segja farið aðeins lengra en ítrasta hagkvæmni leyfði, því að ef farið er lengra í hlutföllum á milli vænghafs og breiddar vængja en ca 8,5 á móti einum, líða klifur og flughraði fyrir það.
Þess vegna er hlutfallið lægra á A380 til þess að hægt sé að fara á ystu nöf með það að hafa vængflötinn sem stærstan.
Boeing 747 líður ekki fyrir þetta vandamál, en á móti kemur, að í breiðþotum verður rúmmál skrokksins hlutfallslega meira en á mjóþotum, vegna þess hve mikið rými gangvegirnir taka og vegna þess að vegna hringlagsins á þversniði skrokksins vex rúmmálið í öðru veldi við það að gólfið verður breiðara.
Á þessu byggist hagkvæmni minni þotnanna, sem auk þess byggist á því, að farþegar í þeim láta sig hafa það, að þrengslin séu almennt meiri í þeim en í breiðþotunum.
Minni þoturnar njóta þess einnig síðustu árin, að framleiddir hafa verið hreyflar sem skila mun meiri flugdrægni en áður var og gera þessar þotur því fjölhæfari og hagkvæmari fyrir bragðið.
Niðurstaðan verður sú að breiðþoturnar mun verða meira fyrir barðinu á samdrætti þessa faraldusárs en mjóþoturnar.
Vegna fjölbreytni flugleiða og mismunandi fjölda flugfarþega eftir svæðum og leiðum munu breiðþoturnar þó varla hverfa, þótt hlutur þeirra muni minnka.
![]() |
Hætta að notast við breiðþoturnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2020 | 11:14
Mikilvægt raunsæi á ögurstundu.
Líta má á uppsagnir og verkfallsboðun auk þess að viðra óvissuför í mönnun flugvéla sem hliðstæðu þess þegar aðilar deilu eða átaka brýna helstu vopn sín og hnykla vöðvana.
Þegar slíkt ástand verður, er afar oft hætt við að fólk missi stjórn á atburðarásinni og geri mistök í hita leiksins.
Sem betur fer virðast deiluaðilar í flugfreyjudeilunni hafa skynjað mikilvægi þess að telja upp að hundrað og anda með nefinu þegar allt leit hvað ófriðlegast út í gær, hvað sem síððar verður.
![]() |
Mjög mikilvægt fyrir félagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2020 | 01:07
Afsannar eitt óveður í júlí á Íslandi kenninguna um hlýnun jarðar?
Sjá má á samfélagsmiðlum því kastað fram að kuldakastið núna hér á landi kunni að afsanna kenninguna um hlýnandi veðurfar á jörðinni.
Þetta er svolítið í stíl við það þegar þingmaður einn á Bandaríkjaþingi kom með snjóbolta inn í ræðustól að vetrarlagi, kastaði honum fram í þingsalinn og sagði að þetta sýndi að veðurfarið færi kólnandi.
Í langflestum tölvulíkönum, sem gerð hafa verið síðustu 30 ár um þróun veðurfars á jörðinni er gert ráð fyrir því að það hlýni áfram út þessa öld um alla jörðina, en ekki jafn mikið alveg alls staðar, því að tvö eða þrjú tiltölulega lítil aðeins svalari svæði verði, annað þeirra rétt fyrir suðvestan Ísland.
Kuldakastið núna og mikið og svalt vatnsveður á sér margar hliðstæður frá því fyrr á árum og það meira að segja snjóhret ofan í byggð í júnílok fyrir um 30 árum.
Í úrhellinu mikla um hásumar 1954 féllu miklar skriður í Norðurárdal í Skagafirði og víðar vegna eindæma vatnavaxta á norðanverðu landinu.
Síðuhafi horfði þá á eina slíka stórskemma túnið á bænum Hvammi í Langadal.
Í Síberíu hefur verið fimm stigum heitara að meðaltali í ár, en áður var. Síbería er 130 sinnum stærri en Ísland; - og hér hefur hitinn í ár og síðustu misseri verið heldur meiri en var á árunum 1965 til 1990.
Samt er reynt að ýja að því að eitt stutt kuldakast í júlí á okkar litla landi afsanni hlýnun jarðar.
![]() |
Mikilfenglegasta veður sem ég hef séð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)