Velta sem mestu yfir á lífreyrisþega framtíðarinnar?

Lífeyrissjóðir heita sínu nafni, af því að þeim er ætlað að tryggja, að eftir starfslok vegna aldurs geti lífeyrisþegar haldið launum til að framfleyta sér. 

Tillögu um það, að annar aðilinn að kerfinu, atvinnurekendur, fái afslátt af framlagi sínu og minnki það stórlega, er hægt að vefja inn í alls konar umbúðir, en útkoman hlýtur alltaf að verða lægri lífeyrir á endanum, í framtíðinni. 

Lífeyrissjóðir hafa aðeins einn tilgang og eina skyldu: Að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi lífeyri. Á það vantar enn stórlega hjá stórum hluta lífeyrisþega, og það virðast allar klær úti, bæði hjá stjórnmálamönnum og öðrum, til að kroppa sem mest af lífeyrinum, árum saman og ólöglega í þokkabót. 

Það er ekki mikill mannsbragur á því. Og sú spurning vaknar, hverjir það séu í raun og veru, sem viti þá ekki hvað er rétt og hvað er rangt.


mbl.is „Vita ekki lengur hvað er rétt og rangt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ísland - ísinn og landið."

´"Ísland, landið, sem kennt er við ísinn og klakann

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt, 

að góðskáldin forðast að yrkja um garrann og rakann

og glætuna´í skammdegisdrunganum, slagveðrið svalt. 

 

Þá vill okkur gleymast að ísinn er auðlindin mesta; 

afkvæmi vatnsins, sem skapar allt líf hér á jörð; 

að vatnið og ísinn er verðmætið dýrasta´og besta, 

sem veitt er af gnægð okkur, smæstum í þjóðanna hjörð. 

 

í hjarnjöklum landsins býr orkulind eins og í sjóði

sem úthlutað verður úr síðar í fallvatna straum. 

Er skammdegissólin þá litar með loganna blóði 

þeir lokka þig inn í magnaðan algleymisdraum. 

 

Í samspili gufunnar, vatnsins, sólar og frera 

í síbreytileika, sem skapar og eyðir á ný, 

býr endalaus fjölbreytni; ekkert þú sérð þarna vera, 

sem aftur þú líta munt sköpunarverkinu í.  

 

Já, þetta´eru listaverk íssins, fegurðin falda

í feiknsölum trölla og álfa, sem eiga þar ból; 

hinn silfraði blátæri frostljómi´í freranum kalda

og fagurskapaðir skúlptúrar, glitrandi´í sól. 

 

Skuggar og snjóbirta, ljósbrot í láréttum geislum

í logandi kristöllum tvístrast um skara og hjarn, 

þar sem ótal ljósstafir augunum bjóða í veislu

svo þú undrast og hrífst og ljómar og gleðst eins og barn. 

 

Já, þó að við elskum mest sumarsins sætkenndu blíðu

og sitjum í vetrarins rökkri í bið eftir yl, 

býr ótrúleg hrífandi fegurð í frosti og þíðu, 

sem flétta oft saman sitt tröllaukna sjónarspil. 

 

Fjölbreytni´á smábletti í frostrósunum er meiri 

en fundið menn geta á sumri í heilum dal. 

Og listaverk íssins, þau eru stærri og fleiri 

og alltaf að breytast í vetrarins sýningarsal. 

 

Þú, Ísland, landið, sem kennt er við ís og við klaka

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt; 

þegar jöklarnir síga og byltast og braka

þú býrð yfir ómældum töfrum, sem fegra það allt. 

 

Líf okkar þjóðar ísnum og vatninu háð er, 

sem er eitt og sama, getið af sólgeisla fjöld. 

Í þessum ljósstöfum íssins og vatnsins skráð er

:,:  ævintýr sköpunarverksins, öld fram af öld :,: 

 

 


mbl.is Hvernig Ísland er að bráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður árið 2020 tímamótaár?

Ákveðin ár í mannkynssögunni marka tímamót, svo 1492, 1848, 1914 og 1989. 

Þau eiga það oft sameiginlegt að það var erfitt að sjá það fyrir, sem gerðist og skipti sköpum; tímamótaviðburðurinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. 

En þegar aðdragandinn var kannaður eftir á, mátti sjá, til dæmis með Heimsstyrjöldina 1914, að það hafði stefnt í stríð í mörg ár á undan. 

Öll fyrrnefnd ár breyttu sögunni hressilega. 

Í upphafi ársins, sem nú er langt komið, óraði engan, hvorki svonefndum völvum né öðrum "álitsgjöfum" fyrir því, sem á eftir að halda ártalinu 2020 á lofti. 

Og enda þótt erfitt sé að spá fyrir um það, hve lengi áhrif 2020 endast, er næsta víst, að þau verða varanleg. 

Rétt eins og að stríð valda miklu tjóni, leysa þau ýmsa krafta úr læðingi varðandi vísindi og tækni, sem eru til framfara. 

Þannig kölluðu afleiðingar sóttvarnaraðgerða á ný vinnubrögð og lausnir í atvinnu- og skólalífinu, sem geta gagnast. 

Gott dæmi er maðurinn á skiptiborðinu hjá stóru fyrirtæki í Reykjavík, sem lenti í sóttkví á heimili sínu í Þorlákshöfn, en vegna kunnáttu sinnar í starfi var fundin leið til þess að hann gæti sinnt starfinu jafnvel heiman að eins og á vinnustað. 

Niðurstaða: Í þessu tilfelli óþarfi að maðurinn æki daglega fram og til baka til vinnu sinnar með ærnum kostnaði og tímaeyðslu.   

Margar breytingar verða varanlegar, þótt ekki sé nema fyrir flugstarfsemina í heiminum, sem verða mun lengi að jafna sig, ef hún á annað borð verður nokkurn tíma söm.    

Í ofanálag hafa gerst atburðir, sem hafa kyrrsett sérstaklega hátt í 800 flugvélar af einni tegund. 

COVID-19 sýnir, að hinn gamli og grimmilegi veruleiki nýrra drepsótta, sem menn í ofurtrú sinni á vísindi og tækni héldu, að tilheyrði fortíðinni, er fyrirbæri, sem mun fylgja mannkyninu að meira eða minna leyti hér eftir sem hingað til. 

Aukins viðbúnaðar á grunni lærdóma af reynslunnar mun verða þörf. 


mbl.is Ástandið geti varað í nokkra mánuði enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"BaTO", "Litla NATO"?

Grundvallarákvæði NATO, Norht Atlantic Treaty Organization, var að árás á eitt aðildarríki gilti samstundis sem árás á þau öll.  

Hernaðarsamvinna Svía og Finna er mjög í þessum anda, nema að aðildarríki sáttmálans eru aðeins tvö.   

Því mætti kalla þetta litla hernaðarbandalag BaTO, Baltic Treaty Organization, þótt það séu aðeins tvö af sjö ríkjum við Eystrasalt, sem myndi hið nýja tveggja ríkja bandalag. 

Þar með eru öll ríki, sem eiga land að Eystrasalti, komin í þessi tvö hernaðarbandalög, nema eitt, Rússland. 


mbl.is Geta veitt Finnum fyrirvaralausan herstuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband