Eru deilurnar um einkabílinn og hjól og gangandi fólk "faglegar" eða "fúsk"?

Not einkabílsins koma við sögu í umræðunum um breytingar á aðalskipulagi borgarinnar og það leiðir hugann að því plani, sem deilurnar um tilvist hans og tilvist gangandi og hjólandi fólks eru á. 

Það dýpka sífellt þær skotgrafir, sem andstæðar fylkingar eru búnar og halda áfram að grafa og orð eins og "ófaglegt fúsk" kemur reyndar oft í hugann, þegar stóru orðin eru ekki spöruð. 

Annars vegar eru þeir, sem taka undir það sjónarmið að mikilvægasta verkefnið i umferðinni sé að útrýma einkabílnum. 

Hins vegar eru þeir, sem fullyrða að gangandi fólk og hjólandi eigi ekki að fá neina hlutdeild í umferðinni vegna þess til dæmis,  að hér sé ómögulegt að nota þann samgöngumáta vegna slæms veðurs og mikilla vegalengda. 

Síðan eru nefnd atriði eins og aldur hjólreiða- og bifhjólafólks, sem komi í veg fyrir að það geti notað sér þennan samgöngumáta. 

Sumar niðurstöðurnar hefur verið reynt að kynna hér á síðunni sem og athuganir á svipuðum vandamálum erlendis. 

Á þessu fimm ára tímabili hafa verið notuð samgöngutæki, sem spanna allt sviðið frá

1. rafreiðhjóli í gegnum 2. rafknúið léttbifhjól, 3. 125 cc vespulaga léttbifhjól, - 4. minnsta rafbíl landsins og  5. lítinn, ódýran og einfaldan sparneytinn eldsneytisknúinn fólksbíl. 

Sem sagt: Blönduð útfærsla hjóla og bíla til að leita að sem ódýrastri lausn við að komast leiðar sinnar. 

Margar niðurstöðurnar hafa hrakið sleggjudóma um þessi farartæki. Nefnum fyrst oftast nefndu andmælin gegn reiðhjólum og vélknúnum hjólum. 

1. Veðrið er of vont.   Svar: Nei, það er hægt að negla dekkin á hjólunum fyrir vetrarfærðina og sum árin voru reiðskjótar notaðir í öllum vikum ársins. Takmark þess var samt sett af varfærni, ekki farið á hjóli í vindi, sem var meiri en 20m/sek í hviðum. Auðvelt er að nálgast upplýsingar um slíkt á vedur.is, og mest allt árið, allt frá miðjum apríl fram í nóvember, er slíkur afar vindur afar sjaldgæfur.  

2. Vegalengdirnar eru of langar.  Svar: Miðstöð farartækjanna, heimilið, í tilrauninni undanfarin fimm ár, hefur verið 11 kílómetra frá Umferðarmiðstöðinni og helmingur leiðangranna hefur verið 15-25 kílómetrar. Á rafreiðhjólinu tekur aksturinn í slíkum leiðangri 30-50 mínútur fram og til baka, að viðbættri 5 mínútna töf í upphafi og enda ferðar við að taka reiðskjótann út og klæða sig aukalega og seta hjólið aftur inn. 

Þetta er samtals um 20-30 mínútna töf, en þá er ekki dreginn frá sá tími sem sparast við það að þurfa nær aldrei að leita að bílastæði eða að borga fyrir það.  Og peningalegur ávinningur er mikill; orkueyðslan 0,30 krónur á ekinn kílómetra eða 4 til 8 krónur fyrir hverja ferð í staðinn fyrir 250 til 450 krónur.

Á rafknúna léttbifhjólinu og bensínknúna léttbifhjólinu verður aksturtíminn yfirleitt styttri en á bíl, einkum á 125 cc vespunni og aksturstíminn því styttri sem umferðin er erfiðari og meiri. Bensínknúna vespan hefur reynst jafnoki bíls hvað hraða og langdrægni snertir um allt land, allt vestur á Ísafjörð, norður á Siglufjörð og austur á Egilsstaði og Hornafjörð í meira en 8000 kílómetra akstri með samtals aðeins þriðjung af orkukostnaði sparneytins bíls. Rafknúna léttbifhjólið hefur allt að 132ja km drægni án hleðslu og eyðir tólf sinnum minni orku en sparneytnasti bíll. 

3. Reiðhjól, létt vélhjól og aðstæður henta ekki fyrir fólk á efri árum.  Svar: Þetta er nú misjafnt og var ekki til neins trafala í framkvæmd á tilraunakstri manns, sem er að nálgast áttrætt.

4. Vélhjól eru viðbót við farartækin í umferðinni og til trafala.  Svar: Það er þveröfugt. Hver maður sem er á reiðhjóli eða vélknúnu hjóli sparar eitt pláss fyrir einkabílinn, sem hann hefði annars notað, og erlendis má sjá hvernig mikil notkun lítilla vepsuhjóla hjálpa til við að leysa plássvandamálin og umferðarhnútana.  

Þá eru það sú skoðun að útrýma beri einkabílum. 

Minimo.

1. Gatnakerfið er að springa undan því rými, sem sífjölgandi einkabílar taka.  Svar: Þetta sjónarmið miðast við það að ekkert sé gert til þess að gera gatnakerfið skilvirkara og endurskipuleggja einkabílaflotann og gera hann miklu minni að flatarmáli með tilkomu styttri bíla og sérhannaðra 2-3ja sæta bíla sem geta til dæmis verið þrír þversum í einu bílastæði. Slíkir rafknúnir bílar með útskiptanlegum rafhlöðum eru nú að koma fram hjá erlendum framleiðendum eins og Volkswagen og Fiat. 

2. 2-3ja sæta bílar eru alltof litlir.  Svar: Meðaltal um borð í hverjum bíl á ferð í gatna- og þjóðvegakerfinu er rúmlega einn maður, 1,1 - 1,2.  Með endurskoðun bifreiðagjalda má liðka fyrir skynsamlegri lausn með fullstóran en lítið ekinn bíl sem tiltækan farkost ásamt minni farartækjum, ef fara þarf í fjölmennari og lengri ferðir.  

 


mbl.is Segir tillögurnar „ófaglegt fúsk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á gamla tíma í öðrum lýðræðisríkjum.

Sú var tíðin hér á landi, að alls konar undanþágur voru frá því að kosningarétturinn, undirstaða þeirrar meginreglu lýðræðisins að allt vald kæmi frá þjóðinni, væri almennur. 

Fátækt fólk og vinnuhjú höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi, og á okkar tímum finnst flestum, að þetta hafi verið stór galli á skipan þessara mála. 

Gott dæmi í Reykjavík voru Pólarnir svonefndu, lélegar byggingar við Nauthólsveg, þar sem margt fátækasta fólkið í Reykjavík bjó. 

Það var ekki fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að þessu misrétti var aflétt, og þá voru ekki mörg ár síðan konur fengu kosningarétt. 

Afleiðingar misréttis af þessu tagi eru þær, að kosningaþátttaka þeirra, sem komir eru á kosningaaldur, er lág. 

Merkilegt er, að í Bandaríkjunum, höfuðvígi vestræns lýðræðis, er kosningaþátttakan takmörkuð á marga lund, sem kemur Evrópubúum á óvart og virkar eins og að draugar gamals misréttis fái að leika lausum hala. 

Það kemur fram í því að aðeins um helmingur þeirra, sem eru á kosningaaldri, kjósa forseta og þingmenn. 

Það er ansi langt gengið að fyrrverandi fangar, sem afplánað hafa sektardóm að lögum, skuli ekki njóta þeirra sjálfsögðu og nauðsynlegu réttinda að fá að kjósa.   


mbl.is Þurfa að greiða Flórídaríki til að mega kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband