"Verið þið sæl þangað til annað kvöld." Af hverju ekki lengur en það?

Er hugsanlegt að sagt verði þegar heilsað er: "Komið þið sæl, þangað til annað kvöld. En alls ekki lengur."

Þetta kemur í hugann þegar æ fleiri geta ekki látið sér nægja að segja "Verið þið sæl", heldur bæta við með því að segja eftir að hafa sagt frá næsta tilefni til að hittast: "Þangað til, verið þið sæl." 

Sem sagt; ósk um að áheyrendur eða áhorfendur veri sælir og líði vel, en þó ekki lengur en í einn sólarhring. 

Raunar á þessi sérkennilega takmörkun á góðum óskum meira en hálfrar aldar fyrirrennara, frá því að einn útvarpsmaður tók upp á því að takmarka velfarnaðaróskir sínar með því að segja: "Verið þið sæl - að sinni."  Sem sagt; líði ykkur vel um sinn; en ekki lengur en það. 

Enn í dag má heyra þessa mjög svo takmörkuðu kveðju, en hinum fjölgar sem geta ómögulega látið hina fallegu kveðju "Verið þið sæl" fylgja áheyrendum eða áhorfendum, heldur bæta við undarlegri ósk um að velfarnaðurinn endist sem styst. 

 

 


Gamalt spakmæli: Vinnan göfgar manninn.

Fyrir um 70-80 árum bjó merihluti þjóðarinnar utan Reykjavíkur og meirihluti Reykvíkinga kom úr röðum sveitafólks, sem hafði flutt til borgarinnar. 

Á þessum tímum var gamalt spakmæli, "vinnan göfgar manninn" haft í heiðri; það átti við jafnt í borginni sem í sveitunum og vegna þess hve margt af sveitafólkinu var náskylt borgarbúum, var meirihluti reykvískra barna sendur í sveit á sumrin. 

Á þessum árum voru síðuhafi og fjögur systkini hans öll send í sumardvöl í sveit. 

Vélvæðing sveitanna var komin skammt á veg og því auðvelt að finna störf, svo sem í heyskap, þar sem notað var handafl sem flestra á bænum. 

Önnur störf tveggja til þriggja aðkomudrengja á bænum voru meðal annars fólgin í því að sækja og fara með dráttarhestana í beitarhólf, reka kýrnar talsverðan spöl til beitar upp í fjall og sækja þær aftur síðdegis, moka flórinn, ganga á eftir hestasláttuvél í hallandi túni og rétta slegna grasið með hrífu og fara með mjólkurbrúsa niður á brúsapallinn við veginn.

Í Reykjavík var hægt að bera út blöð og gerast blaðsöludrengir fyrir síðdegisblaðið Vísi niðri í miðbænum. 

Þessi störf öll voru afar lærdómsrík og gefandi og juku víðsýni og þekkingu á kjörum fólks til sjávar og sveita.     

 


mbl.is Að pota í risann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband