Leitun að hentugra landi en Íslandi til orkuskipta.

Rafvæðing samgönguflotans í flestum löndum byggist að mestu á því, að rafhreyfillinn nýtur meira en 80 prósent af orku rafmagnsins, sem notað er, en eldsneytishreyfill hins vegar ekki nema um 30 prósent. 

Í mörgum löndum er meirihluti orkunnar framleiddur með brennslu jarðefnaeldsneytis, en þrátt fyrir það er heildarávinningurinn af því að knýja samgöngutækin með rafhreyflum geysimikill. 

Ísland hefur algera sérstöðu hvað það snertir, að hægt er að komast af án jarðefnaeldsneytis í öllum samgöngum á landi og líklega að stórum hluta líka á sjó. 

Rétt eins og að við höfum verið i fararbroddi í að losna við jarðefnaeldsneyti úr upphitun húsa, ættum við að geta gert það sama varðandi bílaflotann. 

Þess vegna er það alveg stórmerkilegt hvað margir hamast gegn orkuskiptunum í samgöngunum, sem á sínum tíma sáu hagræðið í sams konar orkuskiptum í húsahitun. 

Fróðlegt var að sjá í frétt á einum fjölmiðlinum í fyrradag útreikning á því, hvað ein heitavatnsborhola við Bolholt í Reýkjavík er búin að spara marga tugi milljarða króna af gjaldeyri og orkukostnaði í þá rúmu hálfa öld, sem hún hefur verið notuð.  


mbl.is Orkuskipti í samgöngum forsendan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbrú hér; Loftbrú þar.

Hingað til hefur verið talið sjálfsagt að íbúar í þéttbýli fái beinan eða óbeinan fjárhagsstuðning í gegnum almenningsfarartæki til þess að komast leiðar sinnar. 

Vel mætti hugsa sér að kalla þessi farartæki í heild Landbrú, því að nær eingöngu er um landfarartæki að ræða.  

Hjá íbúum fjarri þéttbýlinu er líka veittur slíkur stuðningur, bæði með landfarartækjum og skipum, en munurinn er sá, að vegna langra vegalengda hjá stórum hluta landsmanna, eru farartækin flugvélar. 

Þess vegna ætti það ekki að vera óeðlilegt að líta svipuðum augum á samgöngur í öllu landinu hvað varðar beinan stuðning við alla þá, sem greiða fargjöld, hvort sem farartækin eru á landi, sjó, eða í lofti. 


mbl.is Sex hundruð milljóna Loftbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ekki ríkisflugvellir eins og önnur samgöngumannvirki?

Agnar Koefoed-Hansen var flugmálaráðunautur íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir stríð og ráðlagði Hermanni Jónassyni forsætisráðherra snemma árs 1939 á grundvelli einstæðrar þekkingar sinnar á framförum í hernaðarflugi að hafna beiðni Hitlers um aðstöðu fyrir Þjóðverja á Íslandi fyrir þýskar flugvélar, sem flygju yfir Atlantshafið. 

Þó hafði Agnar fengið litla þýska, tveggja manna flugvél til umráða frá Þjóðverjum sumarið 1938 til þess að leita að hentugum stöðum fyrir flugvelli á Íslandi, allt frá ströndum landsins inn á miðhálendið.  Sauðárflugvöllur úr na. Kverkfjöll í baksýn. 27.5.17

Neitun Íslandinga vakti athygli á þeim tíma, sem þjóðir heims voru uppteknar í því að friðþægja hinum ágenga Hitler. 

Agnar varð flugmálastjóri eftir stríðið og gekkst fyrir því að byggja upp net flugvalla á vegum ríkisins á þeim tíma, sem mjög skorti á almennilega vegi. 

Hann gekk líka einstaklega ötullega fram í því að fá milljarða tekjur árlega inn í landið með því að Íslendingar tækju að sér stærsta flugstjórnarsvið í okkar heimshluta. 

Á síðustu áratugum hefur ríkisvaldið hins vegar reynt að koma eðlilegum og sjálfsögðum rekstri flugvalla af sér, og flugvöllum frá dögum Agnars Koefoed-Hansen hefur fækkað um marga tugi og aðrir látnir drabbast niður, eins og til dæmis kom vel í ljós í fjöldaslysi í aðeins tíu kílómetra fjarlægð frá Blönduósflugvelli. 

Helstu flugleiðir í áætlunarflugi innanlands liggja yfir miðhálendið, en aðeins einn skráður og alþjóðlega viðurkenndur flugvöllur er á miðhálendinu. Að vísu með malarbrautum, en samt nothæfur sem neyðarflugvöllur fyrir allar vélar, sem fljúga innanlands,   

Hann er fimm brauta flugvöllur á stærð við Reykjavíkurflugvöll og hefur verið þungur baggi fyrir síðuhafa sem umráðamanns að viðhalda, af því að hann er einn af þeim flugvöllum, sem ríkið hefur frá upphafi komið af sér á herðar einkaaðilum. 

Hann sannaði gildi sitt í Holuhraunsgosinu 2014-2015, enda aðeins í korters flugfjarlægð frá gosstöðvunum. 

Nú er það dragbítur á öryggismálum í flugi og sjúkraþjónustu, að enginn brúklegur sjúkraflugvöllur er á svæðinu milli Reykjavíkur og Hornafjarðar. 

Er það eitt af mörgum dæmum um það, hvernig andi frumherjanna í flugvallarmálum hefur fjarlægst hin síðari ár. 


mbl.is Vilja ekki taka yfir rekstur flugvallarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband