Tuttugu ára afmæli "marslandsins" Íslands.

Fyrir tuttugu árum kom maður að nafni Bob Zubrin í heimsókn til Íslands á vegum Alþjóðasamtaka áhugafólks um ferðir til Mars.! 

Um svipað leyti hafði tímarirtið Time verið með forsíðumynd af Zubrin tileinkaða margra blaðsíðna umfjöllun um viðfangsefni NASA og samtaka Zubrins. 

Slíkar umfjallanir blaðsins hafa flokkast sem "Cover story" og þykir slíkt talsverð viðurkenning fyrir gildi forsíðuumfjöllunarinnar. 

Zubrin kom til Íslands til þess að kynna sér aðstæður hér á landi til þess að stunda rannsóknir og æfingar geimferða í marsferðum framtíðarinnar. Gjástykki, Sandmúli

Flogið var með hann og Viðar Víkingsson, íslenskan förunaut hans yfir Kverkfjöll og til Mývatns. 

Þremur árum síðar kom heil sendinefnd frá samtökum marsfaraáhugafólks, hámenntað fólk í ýmsum vísindagreinum og fór hún norður í Gjástykki til skoðunar á hugsanlegum æfinga- og rannsóknarsvæði þar vegna marsferða. 

Ísland heldur áfram að vera áhugavert í þessu efni, og sást það vel í nýlegum sjónvarpsþáttum um sólkerfið og reikistjörnurnar, því að þegar sýndar voru myndir af mars og fjallað um þá reikistjörnu voru myndskeið frá Íslandi notadrjúg.   

 

 


mbl.is Undirbýr flug á Rauðu plánetunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttmæt ósk hjá ráðamönnum Fjallabyggðar, en þeir völdu þetta sjálfir.

Krafa talsmanna Fjallabyggðar um tvenn ný jarðgöng inn í byggðina er mjög eðlileg og sjálfsögð. 

Gallinn er bara sá, að fleiri byggðarlög um allt land kalla á svipaðar framkvæmdir með jafn sjálfsögðum kröfum, sem hægt hefði verið að uppfylla í Fjarðabyggð fyrir tuttugu árum með því að fara bestu leið í fyrirkomulagi þeirra ganga, sem þá voru gerð. 

Fyrir síðustu aldamót þegar í ráði var að leysa samgönguvanda fólksins á utanverðum Tröllaskaga til frambúðar voru nefnilega tvær útfærslur í boði. 

Annars vegar svonefnd Fljótaleið með göngum, sem nú er kallað eftir frá Siglufirði stystu leið yfir í Fljótin og síðan stysta leiðin úr Fljótunum yfir í Ólafsfjörð. 

Hin leiðin var kölluð Héðinfjarðarleið, tvenn göng stystu leið um botn Héðinsfjarðar frá Siglufirði yfir í Ólafsfjörð. 

Sú leið var valin meðal annars á þeim forsendum að hún hún tengdi Ólafsfjörð og Siglufjörð best hvað snerti vegalengd á milli staðanna, tengsl í menntamálum, félagsmálum og atvinnumálum auk þess að liggja innan nýstofnaðs Norðausturkjördæmis og bjóða upp á stystu leið til Akureyrar. Leiðin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar og Akureyrar yrði 17 kílómetrum styttri en Fljótaleiðin

Fylgismenn Fljótaleiðarinnar héldu því hins vegar fram, að hún hefði tryggt öruggustu samgöngurnar vestur í Skagafjörð og alla leið til Reykjavíkur, auk þess að leysa samgönguvanda byggðarinnar í Fljótum. Sömu leiðis væri fyrirsjáanlegt að hin mjóu göng í gegnum Ólafsfjarðarmúla með snjóflóðahættu við syðri gangamunnann væru ekki nothæf framtíðarlausn. 

Nú er komið í ljós tuttugu árum síðar að Héðinsfjarðargöng tryggja alls ekki öruggar samgöngur í báðar höfuðáttirnar frá Siglufirði og Ólafsfirði allt árið, en það hefðu Fljótagöngin gert. 

Þau hefðu falið í sér örugga og 12 kílómetrum styttri leið yfir til alls vesturhluta landsins á svæði þar sem hátt í 90 prósent þjóðarinnar býr, enda er nú kallað á nyrðri hluta Fljótaganga og ný Ólafsfjarðarmúlagöng í viðbót við göngin tvö, sem voru gerð.  

Þá er hætt við að talsmenn þeirra byggðarlaga, sem Fjallabyggð var tekin fram yfir um aldamótin síðustu telji sig eiga kröfu á að vera framar í biðröðinni. 


mbl.is Áratugir án úrbóta í samgöngumálum „óásættanlegir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Því gerist það ansi oft..."

Hermt er í frétt að kista með lofti eingöngu hafi verið jarðsett án líks í grænlensku þorpi. Það flækir hins vegar málið hér á landi ef þessi frétt er bara lesin í útvarpi. 

 

Loftur er ágætis nafn 

og af því er nokkurt safn. 

Því gerist það ansi oft 

að menn jarðsetja Loft. 


mbl.is Jarðsettu tóma líkkistu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Trump mun náða sjálfan sig..."

Haft mun eftir Michael Cohen fyrrum lögmanni Donalds Trump, að forsetinn fyrrverandi, sem telur sig vera núverandi, sé búinn að búa svo um hnúta að ef hann verði kærður og sakfelldur muni hann ekki láta róta sér, heldur draga upp úr hatti sínum náðun sjálfs sín á sjálfum sér.

Ja, hérna hér . 

 

Við ákærur á efsta stig

ef í kekki kastast 

Trump mun náða sjálfan sig

sitjandi sem fastast.  


mbl.is Telur Trump hafa náðað sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband