Gerbylting á örfáum árum.

Strax í upphafi bílaaldar lá það ljóst fyrir að rafhreyfillinn hafði, sakir einfaldleika síns og afkasta, yfirburði yfir sprengihreyfilinn.  

Öld síðar hefur bensínhreyfillinn ekki komist lengra í þróun sinni en það, að rafhreyfillinn meira en tvöfalt betur. 

Sagt er að eiginkona Henry Ford hafi heimtað að fá að sleppa við að aka bensínbíl og heimtað rafbíl, sem Ford hafi síðan látið hana hafa, þó án þess að hætta við að þróa bensínbílinn, því að völd og áhrif olíukónganna réðu þar ferðinni í heila öld í viðbót.

Undir lok 20. aldar fór að vísu að rofa til, en þá gripu ráðandi öfl til þess bragðs að kaupa jafnóðum upp þá, sem voguðu sér að reyna að ryðja rafbílnum braut. 

Giskað hefur verið á að rafbíllinn hafi verið stöðvaður í tuttugu ár af þessum sökum. 

Loks fór þó svo að uppgötvanir, sem ekki var hægt að stöðva, svo sem að nýta liþíum-ion í stað blý- og zilisíum- og zink-geyma, breyttu stöðunni. 

Þegar Tesla S kom fram fyrir um áratug, voru ekki margir trúaðir á neina rafbilabyltingu. Bíllinn þótti of dýr til þess að það væri nein ógn af Elon Musk og hans afurðum. 

En mönnum sást yfir margt í þessum dómum, til dæmis það, að rafbílar fram að þessu höfðu verið hannaðir á svipaðan hátt og bílar með eldsneytisknúna hreyfla. 

En í Texla S var þessu umbylt á þann hátt, að engin leið er að setja í hann bensínvél vegna hugvitssamlegrar dreifingar rafhlaðna og aflbúnaðar í bílnum, sem aðeins miðast við eiginleika rafhreyfla og rafmagns. 

Þetta var svipuð byling og þegar bensínvélin tók við að hestinum á sínum tíma og síðar byltingin með Mini þegar langsum hestur/bensínvél var leyst af hólmi með þversum vél í bíl, sem engin leið var að knýja með þversum hesti! 

Tesla S var sem sagt tákn um þá tregðu í hugsun sem oft kemur í veg fyrir framfarir. 

Þegar Musk sagði frá því að Tesla 3 væri væntanlegur fékk hann heldur betur hrakspárnar yfir sig og misserum saman var því stanslaust haldið fram að hann stefndi í hrikalegt gjaldþrot. 

En hann stóð það af sér í krafti þess að það hafði tekist að framleiða rafbíl með stórbættri hönnun sem millistéttin gat eignast og notað.   

Þannig varð þetta samt og það gerðist svo hratt á örfáum árum, að undrum sætti. 

Síðuhafi hefur verið hefur dyggur lesandi þýsku bílatímaritanna Auto Motor und Sport og Auto Zeitung í hálfa öld, og nánast í hverju blaði hefur verið ítarlegur samanburður á sambærilegum bílum hvað snerti stærð og verð frá Benz, BMW og Audi "eðal" framleiðendunum. 

Hefur yfirleitt verið hnífjafn og harður slagur á stigatöflunni. 

Síðan kom að því fyrir ári amerískur bíll bættist inn í hóp þess besta, sem Audi, BMEW og Benz höfðu upp á á bjóða í neðri miiliflokknum, Audi 4, BMW 3 og Benz C. 

Eins og venjulega varð stigaslagurinnn harður í keppni hinna þriggja fræknu, en ekki um fyrsta sætið heldur annað sætiö. 

Þannig fór þessi slagur samt. 

Í fyrsta sæti tróndi sá ameríski, Tesla 3. 

Fáheyrð úrslit hjá einu virtasta bílatímariti Evrópu. 

Forsíða Auto 

P.S. Í athugasemd afgreiðir "Vagn" úr launsátri nafnleyndar sinnar þennan pistil sem "sögufölsun" og minnir með því á fyrirrennara sína hér á síðunni, "Hilmar" og "Hábein" sem afgreiddu pistla þessarar síðu á sinni tíð sem "lygar og rangfærslur."  Myndin hér við hliðina var birt á sínum tíma þegar keppinautar Tesla 3 fóru í gegnum ítarlegan og viðamikinn samanburð og er því dæmi um þá miklu "sögufölsun" sem Vagn talar um.    

 

 


mbl.is Tesla 3 mest seldi bíllinn 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að nefna dæmi, sem styðja gífuryrðin gegn þjóðgörðum?

Gífuryrðum um þjóðgarða almennt linnir ekki um þessar mundir, þegar rætt er um að stækka Vatnajökulsþjóðgarð og læra af öðrum þjóðumm varðandi fyrirkomulag þjóðgarðamála. 

Erlendar þjóðir hafa allt að 140 ára reynslu af þjóðgörðum og í landi einkaframtaksins, Bandaríkjunum, hefur myndast ákveðin samræming á skilgreiningum fyrirkomulags þeirra mála undir kjörorðinu "For the benefit and joy of the people". 

En hér á landi, nú síðast í dag, er fullyrt að í þjóðgörðunum felist ofbeldisaðför að fólki og að þeir, sem vinna að þessum málum hér á landi hati fólk en elski valdníðslu og kúgun. 

Þótt komin séu tólf ár síðan Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður er fullyrt að með stækkun hans verði farið í herför gegn þjóðinni á vegum valdaþyrsta alræðisseggja í Reykjavík og útivistarfólk á borð við göngufólk, jeppamenn, hestamenn, bændur og almenning allan verði hrakið burt og úthýst af eigin landi; það verði "skellt í lás." 

Síðuhafi hóf fyrir 22 árum að kynna sér þessi mál að fara um og skoða 30 þjóðgarða í Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Portúgal og Spáni auk skoðunar 18 virkjanasvæða í þessum löndum. 

Í Bandaríkjunum er hægt að kaupa sér aðgang að öllum þjóðgörðum innan vébanda Þjóðgarðastofnunar þess ríkis með aðgangskorti gegn afar hóflegu gjaldi, þar sem á stendur: "Proud Partner." 

Í þessum ferðum hefur verið rætt við hundruð fólks án þess að hægt hafi verið að merkja neitt annað en ánægju og stolt yfir því að fá að vera þátttakandi í starfrækslu þjóðgarðanna og varðveislu sameiginlegra náttúruverðmæta Bandaríkjamanna. 

Einkar ánægjulegt var að kynnast norsku þjóðgörðunum Jóstedalsjökulsþjóðgarði, Harðangursheiðarþjóðgarði og Rondane þjóðgarði, en þar má sjá mjög athyglisverðar hliðstæður við íslenskar aðstæður og ekki síður að kynnast áhugaverðum og almennum sjónarmið varðandi mat á aðstæðum og fyrirkomulagi og gildi þessara náttúruverðmæta. 

Hér á landi er hins vegar fjasað um "auðmýkingu og niðurlægingu" sem fólk verði fyrir í þjóðgörðum hér og erlendis og fimbulfambað um það hve mikið ofríkið sé og valdníðslan í erlendum þjóðgörðum. 

Hvernig væri að nefna eitthvert dæmi um eitthvað sem styðji þessi gífuryrði? 


mbl.is Ákvörðun um verndun náttúrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll viðleitni til að skapa betra mataræði er góðra gjalda verð.

Flest nútímafólk þarf einhvern tíma á ævinni að reyna að skipuleggja matarneyslu sína yfir daginn. Allur gangur er á slíku, sumir fást við þetta alla ævi en aðrir sleppa jafnvel alveg. 

Þarfirnar eru afar misjafnar. Sumir eru með þannig meltingu að það liggur við að fæðið þurfi að vera svo fljótandi og gott fyrir meltinguna að það nálgist að vera barnamatur. 

Aörir vilja gjarna að morgunverðurinn innihaldi svo mikla næringu að það gefi fljúgandi start inn í orkueyðslu dagsins. 

En þá kunna þeir að reka sig á hinn endann á viðfangsefninu, að því meira sem innbyrt er strax í upphafi dags, því meiri hætta er á að neyslan yfir sólarhringinn leiði af sér fituvandamál. 

Af þessum sökum ber að fagna hverri þeirri viðleitni sem gefur möguleika á að leysa fæðuviðfangsefnið á sem farsælastan hátt. 


mbl.is Heinz kynnir nýjan morgunverð í skál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband