Fordómar reyndust aðalhindrunin fyrir rafhjólabylgjunni.

Hér kemur framhald af frásögn af notkun á vélknúnum hjólum, sem hófst hér á síðunni í gærkvöldi. Náttfari í smáherbergi.

Þar var komið sögu, að reynslan af notkun rafreiðhjóls, sem skolaði á Akureyri fyrir tilviljun upp í hendurnar á reykvískum öldungi, var sú, að í þau 56 ár sem liðin voru frá daglegri reiðhjólsnotkun hans sem tánings, hafði hann smám saman byggt upp fordóma, sem hrundu eins og spilaborg þegar hann fór að nota hjólið, af því að það var óseljanlegt vegna bilunar í rafhlöðunni. 

Í fyrstu var skoðaður sá möguleiki að selja hjólið á hálfvirði. 

En aftur kom tilviljun í spilið, sem sé sú, að einhver maður auglýsti í blaði að hann byði nokkur ný  rafhjól til sölu á hálfvirði Náttfari í snjó.

Af því að rafhlaðan er helmingur af virði svona hjóls, var hjólið mitt orðið algerlega verðlaust og því eina vonin, að gefa því tækifæri og sjá til hvort hægt væri að hressa upp á rafhlöðuna. 

Í gær var sagt frá því hvernig rafeindavirkinn Gísli Sigurgeirsson fann út, að það var svo nauðalítið, sem var að rafhlöðunni, að einfalt reyndist að koma í hana fullu afli. 

Og reynslan af notkun hjólsins frá útmánuðum til miðsumars ruddi burt langri röð af fordómum. Náttfari við Engimýri

1. Veðrið er alger hindrun. Rangt. Nú var komin á reynsla af því að það var fært nær alla daga og ekki féll úr vika. Og nú rifjaðist upp að maður hjólaði sem unglingur í öllum veðrum, og samt var ekki hægt að setja negld vetrardekk undir gripinn.  

2. Hjólið er allt of hægfara.  Rangt: Fimm mínútum lengri tíma tók til að klæða sig í viðeigandi fatnað og hjálm en á bíl töpuðust þær við að leita að bílastæði. Tíminn frá Borgarholti í Grafarvogshverfi niður í gamla miðbæ eða Útvarphúsið var aðeins 10 mínútum lengri en á bíl, enda leiðin um Geirsnefið styttri og aldrei töf í umferðarteppum. 

3. Drægnin of lítil.  Rangt: Sett á auka rafhlaða og málið dautt. 

4. Ómögulegt að koma kófsveittur á áfangastað.  Rangt: Ferðin skipulögð þannig að rafaflið eitt var nýtt síðustu fimm mínúturnar með því að nota handgjöfina eina en ekki fæturnar. 

5. Alltof lítið rými fyrir farangur á hjólinu.  Rangt: Í farangursgeymslu á stýrinu og tveimur farangurstöskum á bögglaberanum auk bakpoka á bakin er farangursrýmið alls 130 lítrar eða álíka mikið og á litlum bíl. 

6. Leiðinlegur og vosbúðarmikill ferðamáti:  Rangt: Miklu skemmtilegri ferðamáti og vélhjólastígvél og regnheldar buxur og jakki halda manni þurrum. 

Með því að geta notað rafaflið beint með handgjöfinni var hægt að stilla áreynslu á slitin hné í hóf að vild. 

Ótalinn var sparnaðurinn, orkukostnaður aðeins tíu krónur á hverja 100 kílómetra þessa 430 kílómetra, og svona hjól án skyldugjöld né sérstök réttindi, bara gaman.   

Við blasti að hrinda í framkvæmd almennilegri kynningu í fjölmiðlum á þessum ferðamáta, eins og rakið var í pistlinum i gær og ná nokkrum áföngum: 

Að fara á svona hjóli frá Akureyri til Reykjavíkur algerlega hjálparlaust og með ótengda pedala og þar með ekkert fótaafl aðeins rafafl,-

vera í tölvu- og símasambandi að vild allan tímann,-

eyða innan við 100 krónum í raforku alls - 

vera innan við tvo sólarhringa á leiðinni þótt leiðin yrði að liggja fyrir Hvalfjörð af því að reiðhjól fá ekki að fara um göngin  -

og setja Íslandsmet í drægni -

á einni hleðslu - 

og á einum sólarhring.   

Þetta verður rakið í framhaldspistli. 

Að sjálfsögðu þyrfti að stunda nauðsynlegar prófanir og æfingar áður en lagt yrði í hann.  


mbl.is Rafhjólabylgjan rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víða skortur á framsýni og skipulagi í skógrækt.

Gildi skógræktar og landgræðslu hefur vaxið með hverju ári samfara aukinni umræðu um loftslagsvá og skal út af fyrir sig ekki dregið úr mikilvægi þess.

Samt kemur fram að síðan í brunanum mikla á Mýrum fyrir rúmum áratug hafi nokkurn veginn ekkert verið gert til þess að huga að afleiðingunum, brunavörnum og skipulagi í skógrækt og gróðurrækt hér á landi, hvorki í skipulagi skógræktarsvæða, eldvarnarbúnaði, tilhögun né öðru.  

Hér á síðunni hefur verið bent á ýmis dæmi þess, að skógur sé ræktaður algerlega án tillits til annarra náttúruverðmæta, svo sem hinna fögru klettabelta á þjóðleiðinni milli Borgarness og Bifrastar, sem ýmist hefur verið sökkt í hávaxinn skóg eða eru á leiðinni í drekkingu. 

Svo er að sjá að jafnframt því sem sagt er a, að efla sem allra stórkostlegasta skógrækt, víða helst með erlendum barrtrjám, sé líka sagt b, að gera það með öllu hugsunarlaust og skipulagslaust með tilliti til áhrifanna af þessu annars mikilvæga þjóðþrifastarfi.

Má sem eitt af mörgum dæmum nefna, að erlendir náttúrulífsljósmyndarar sem hafa viljað taka loftmyndir af náttúrudjásnum Þingvalla og Þingvallavatns, svo sem gígunum í eyjunum Sandey og Nesjaey, hafa hneykstast og með engu móti geta skilið það framtak að planta barrtrjám ofan í gíginn í Sandey.   


mbl.is Engin þróun á fimmtán árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnin ræktuð og efld á heimsvísu í stað útrýmingar hennar?

Upphafssaga COVID-19 hefur þegar verið skráð í þeim meginatriðum að þessi farsótt átti upphaf í borginni Wuhan í Kína í kringum áramótin 2019-2020 og barst þaðan hraðfari um allan heim. 

Nú stendur yfir næsti fasi málsins í formi upphafs notkunar bóluefnis við veirunni. En jafnframt er þegar að myndast ný og mun verri gróðrastía fyrir stökkbreyttar tegundir vegna yfirþyrmandi misskiptingar efhahagslegra gæða þjóða heims sem nú eru óðum að skiptast í tvo hópa: Ríkari þjóðirnar, þar sem byrjað er að kveða pláguna niður, en hins vegar fátæku þjóðirnar þar sem slíkt er ekki mögulegt vegna fjárskorts og mannfjölda. 

Hjá þessum þjóðum, svo sem hinu ofurfjölmenna Indlandi og öðrum þriðja heims þjóðum er nú að hefjast ræktun og efling stökkbreyttra afbrigða veirunnar, sem vísindamenn óttast að muni tryggja uppgang hennar í mörg ár hér eftir, jafnvel áratugi, og þar með nýja og nýja ógn fyrir alla jarðarbúa, sem á okkar tíma búa í nokkurs konar risa jarðarþorpi sem byggist á óhjákvæmilgum samgöngum. 

Þótt varað sé við þessari ógn með rökum láta ríku þjóðirnar líkast til þrönga og misskilda eigin skammtímahagsmuni verða til þess að á endanum sitji allar þjóðir heims í súpunni. 

Hingað til hafa íslensk stjórnvöld verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið sig strax út úr samstarfi Evrópuþjóða til að graðga til okkar sem allra mest og fyrst af því bóluefni, sem er skortur á og fara fram fyrir allar biðraðir. 

Þessi hugsun virðist nú líkleg til að valda þeirri þróun með því að grípa um sig hjá ríkustu og valdamestu þjóðum heims þar sem hver hugsar bara um sína þrengstu hagsmuni án þess að gæta að afleiðingunum fyrir heildina þegar fram í sækir. 

 


mbl.is B.1.617 – tvöföld stökkbreyting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband