Ömurlega illa leikið land á Reykjanesskaga.

Nú eru liðnir um tveir áratugir síðan teknar voru kvikmyndir úr lofti að ýmsum hlutum Reykjanesskagasns og einnig myndir af jörðu niðri sem sýndu átakanlega slæmt ástand jarðvegs og gróðurs vegna skefjalítils ágangs búfjár á landi, sem var fyrir löngu orðið óbeitarhæft. 

Nokkur atriði stungu í augun, svo sem sú staðreynd, að síðasta hrístekja, kjarrhögg á Reykjanesskaga fór fram árið 1935 á Strandarheiði. 

Þar með lauk sögu þeirrar tegundar rányrkju við landnytjar á skaganum.  Og einnig sýnir þetta, að það er ekki rétt að ásýnd þessa svæðis sé náttúrulegt og ósnortið. 

Rifjað var upp, að á fyrri öldum var stórbýli í Krýsuvík með tugum af hjáleigum og hjáleigum í byggð og sýnt á myndum úr lofti og af landi, að meirihluti þessa landssvæðis hafði orðið uppblæstri að bráð svo að um allt mátti sjá moldarflög og deyjandi gróðurtorfur. 

Í viðtali í þættinum Samfélaginu á Rás 1 fyrir nokkrum dögum lýsti landgræðslustjóri ástandi gróðurs á Íslandi í meginatriðum, og þar kom fram að svona ástand er verst á eldvirka svæðinu á suðurhluta landsins.  

Á stóru afréttunum sunnanlands hefur harðindum og öskufalli vegna eldgosa verið kennt einum um hjá þeim, sem telja grasnytjar og hríshögg ekki vera ástæðuna fyrir þessum hrikalega uppblæstri. 

En slíkt á einfaldlega ekki við á Reykjanesskaga á svæði, þar sem ekki hefur gosið í 800 ár né komið öskufall, og er þar að auki alls ekki á hálendi. 

Landgræðslustjóri upplýsti í útvarpsviðtalinu að verið væri að koma á fót beitarhólfum til þess að verjast þessum ágangi. Greinilega er þar undir högg að sækja, því að á sama tíma tala sauðfjáreigendur á þessu svæði um brýna nauðsyn til þess á aukinn og nýjan stuðning við þennan búskap, sem hefur verið að stærstum hluta tómstundabúskapur. 

 


mbl.is Lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rányrkjuhugsun þegar ónotaða túrbínan var keypt.

Hér um árið rituðu Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson fróðlegar greinar um nýtingu háhitasvæða og sjálfbæra þróun í Morgunblaðið. Þar lýstu þeir muninum á svonefndri ágengri orkunýtingu, sem er annað orð yfir rányrkju, það er, dælt er meiri orku upp úr viðkomandi jarðhitasvæði en það er fært um að endurnýja. 

Við það gerist tvennt og hvort tveggja hefur gerst á svæðum gufuaflsvirkjana á Reykjanesskaga, bæði yst á skaganum á svæði Reykjanesvirkjunar og Svartsengisvirkjunar, en einnig á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu. 

Landið lækkar og þrýstingurinn í gufuaflinu minnkar. 

Á endanum deyr svæðið út líkt og þegar náma er tæmd. 

Ólafur og Guðni töldu að hægt væri að gera svona virkjanir sjálfbærar með því að fara margfalt varlegar af stað og fylgjast svo náið með framvindunni, að jafnvægi fáist. 

Auðvitað hefur það hvergi verið gert hér syðra heldur miðað við að orkan lafi í 50 ár. 

Upphaflega var ætlunin að Reykjanesvirkjun yrði 150 megavött, og þegar flett var gögnum um fyrirhugaða Krýsuvíkurvirkjun fyrir nokkrum árum var þar enn ert ráð fyrir 500 megavatta virkjun, langstærstu gufuaflsvirkjun Íslands. 

Hún er enn á dagskrá í nýtingarflokki rammaáætlunar.

Fyrir nokkrum árum vitnaðist það fyrir tilviljun að virkjanasvæðin hefðu fallið niður um allt að 18 sentimetra. Í síðustu þrýstingstölum sem birtar voru úr borholum lá leiðin líka niður á við. 

Það var af þessum sökum sem aldrei var hægt að nota þriðju túrbínu Reykjanesvirkjunar, - eða - eins og það er orðað, "stækkunaráformin runnu út í sandinn."  

 


mbl.is Óvissa um framleiðslugetu HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband