"Ný lausn" búin að vera í áratugi erlendis. Við erum í sumu hálfri öld á eftir.

Svonefndir svífandi stígar hafa verið við lýði erlendis að minnsta kosti síðan fyrir aldamót. 

Þar eru þeir til dæmis á hverasvæðinu við Old Faithful í Yellowstone og voru þeir sýndir í sjónvarpi hér heima 1999. 

Þegar Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra sendi hann komandi þjóðgarðsvörð á Þingvöllum þegar í stað í ferð til Bandaríkjanna til þess að kynna sér rekstur þjóðgarða þar. 

Sjálfur hafði Steingrímur skoðað fjölmarga þjóðgarða vestra þegar hann var þar við nám, og komið á ævinni í öll ríki Bandaríkjanna nema Alaska. 

Stundum finnst manni eins og það ríki skipulögð viðleitni okkar Íslendinga til að læra helst sem minnst af því hvernig erlendar þjóðir meta náttúruverðmæti. 

Og að það taki grátlega langan tíma fyrir viðurkenndar aðferðir við mat á náttúruverðmætum að skolast hingað til lands. 

Og umræðan hér á landi er enn á svipuðu stigi og hún var í Bandaríkjunum fyrir 50 árum. 

En burtséð frá því er framtakið við Skíðaskálann í Hveradölum lofsvert og þakkarvert og ástæða til þess að óska fötluðum til hamingju með það og jafnframt að hvetja til þess að Íslendingar, vörlslumenn einhverra mestu náttúruverðmæta heimsins, slái nú í klárinn í náttúruverndar- og umhverfismálum. 

Í vel unninni erlendri handbók um 100 undur veraldar eru um 40 þessara undra náttúrugerð. Af  þeim eru sjö í Evrópu og tvö á Norðurlöndum; hinn eldvirki hluti Íslands og norsku firðirnir. 

Í Norður-Ameríku er Yellowstone, mesta orkubúnt álfunnar, skilgreint sem heilög vé, sem aldrei verði snert. Samt kemst Yellowstone ekki á blað í þessari bók. Ís og eldur Íslands er skör hærra.  

Hér á landi má hins vegar heyra setta fram þá stefnu Miðflokksins að virkja sem allra mest til þess að reisa fleiri álver og fylgir sögunni, að það eigi að láta svonefnt "samhengi" við álver í Kína ráða. 

Ef Sigmundur Davíð er tekinn á orðinu eigum við sem sagt að gera það til þess að hjálpa Bandaríkjamönnum til að vernda sín náttúruverðmæti. 


mbl.is Svífandi stígar teknir í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandkaflinn í "stærstu sýningu heims" stendur enn.

Á svæðinu suðvestur af Vatnajökli hefur í aldir og árþúsund staðið yfir sýning, sem kalla hefur mátt "stærstu sýningu í heimi" og er knúinn áfram af eldvirkni og jarðvarma undir jöklinum og suðvestur og vestur af honum. 

Í henni hafa skipst á tveir stórir meginkaflar sem nefna má sandkafla og hraunakafla eftir þeim jarðefnum sem sótt hafa fram í hvorum þeirra. 

Nú stendur enn yfir sandkafli þar sem í Skaftárhlaupum á tveggja til þriggja ára fresti berst gríðarlegt magn af sandi sem jarðhiti á tveimur svæðum bræðir jökulinn yfir sér, bræðsluvatnið safnast fyrir og brýst loks fram í gríðarlegum hlaupum sem ber sand yfir stórt svæði.  

Síðasti hraunakafli var í Skaftáreldum 1783 þegar rann næststærsta hraunflæmi, sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma. 

Á undan því var hraunakafli í eldgosum að Fjallabaki seint á 15. öld, en mesta hraun á sögulegum tíma rann hins vegar í Eldgjárgosinu 934, og fór það hraun enn lengra í átt til sjávar en Eldhraunið 1983; alla leið niður í Meðalland. 

Sandurinn safnast fyrir, fyllir hraunið upp og er að drepa hægt og bítandi fengsæla veiðilæki í Landbroti, Tungulæk og Grenlæk. 

 

 


mbl.is Hámarksrennsli verði minna en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf varðveisla gamals byggingarmáta jeppa.

Áður fyrr voru nær allir jeppar einföld smíð hvað snerti drifbúnað, fjöðrun og undirvagn; yfirbygging sett ofan á sérstaka grind með stigalagi, stífir öxlar (hásingar) að framan og aftan og hátt og lágt drif. 

Á best hönnuðu jeppunum var þess gætt, að drifkúlur og svinghjól lægju í beinni línu frá vél og aftur úr til að bíllinn smygi með sem minnstri mótstöðu í gegnum snjó og drullu. 

Stórmerkilegur jeppi, Austin Gipsy, rauf hefðina varðandi stífa öxla og blaðfjaðrir og bauð upp á firna góða og lungamjúka sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli. 

En bíllinn féll á því hve viðhaldsfrekir átta viðbótar hjöruliðir voru. 

Sífellt fækkaði jeppunum með gamla einfalda laginu og um nokkurra ára skeið héldu þó velli Mercedes Benz 6, Landrover Defender, og Range Rover, Suzuki Fox/Jimny og Jeep Wrangler. 

Fjórir þeir fyrstnefndu héldu fast við þráðbeina driflínu drifkúlna og svinghjóls í allmörg ár, en síðan kom að því að Range Rover breytti öllu hjá sér, tók upp sjálfstæða fjöðrun og heilsoðna grind við boddíið. .INEOS Grenadier 

Síðan kom að því að sett var sjálfstæð fjöðrun á Benzann og þegar nýr Defender kom, sást strax að þar var kominn Land Rover Discovery í dulargervi; sjálfstæð fjöðrun, og heilsoðið boddí við grind eins og á Discovery og Range Rover. 

Mun dýrari bíll í krafti flóknari byggingar og tækni. 

En Defenderinn gamli átti sér endurfæðingu fyrir tilstilli aðdáenda hans í nýjum bíl með heitinu Ineos Grenadier. 

Það er bara skemmtilegt og gott að nú sé boðið upp á tveir gerólíkar útfærslur á arftaka gamla Defender og verður spennandi að sjá hvernig það fer. 

Reynt er að hafa Ineos Greadier, sem einfaldastan; hann er byggður á grind og með stífa driföxla (hásingar) en afar fullkomna fjöðrun, en hásingafjöðrun gefur möguleika á lengri fjöðrun en sjálfstæð fjöðrun, sem er mikill kostur í ófærum. Vélin er BMW dísil.   


mbl.is Ratcliffe lánaði nýja jeppann sinn í tökur Thule á Hvolsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband