Margir gætu lært af íbúum Venhorst í Hollandi.

Brothættar byggðir og draugabæi er að finna um alla Evrópu og er draugabærinn Doel í Belgíu aðeins einn af mörgum þúsundum slíkra bæja. 

Í nokkrum bæja hafa íbúarnir þó afrekað það að snúa vörn í sókn með athyglisverðum árangri, sem hefur verið kynntur og ræddur á fjölmennum þingum og ráðstefnum sem haldin voru á tveggja ára fresti áður en covid farsóttin skók heimsbyggðina. 

Samtök, sem nefna sig Dreifbýlisþing Evrópu, ERP, European Rural Parliament, og meira en 40 þjóðir eiga aðild að, hafa staðið að þessu áhugaverða starfi. 

Þingin hafa verið haldin í Brussel, Scharding í Austurríki, Venhorst í Hollandi og Candás á norðurströnd Spanar. 

Afraksturinn hefur meðal annars verið sérstök stefnuyfirlýsing, sem send hefur verið helstu valdastofnunum Evrópu. 

Einna athyglisverðastur hefur árangur framtaks íbúa bæjarins Venhorst í Hollandi verið, en þar bjuggu á sínum tíma hátt í tvö þúsund íbúar í líflegum bæ með líflegu menningarlífi og starfsemi. 

En á síðustu árum varð þetta hálfgerður draugabær fyrir nokkrum árum, öll verslun dauð, og flutt til stórverslana í borgum í landshlutanum, félags-og menningarlíf svipur hjá sjón og skólahaldið í vandræðum.  

Þá varð til sjálfsprottið fjöldaframtak bæjarbúa,  þar sem fólkið ákvað að ráðast sjálft til atlögu við doðann og dauðann, úr því að einhliða bænakvak til stjórnvalda bar engan árangur. 

Í samtökunum voru meðal annars eftirlaunafólk og lífeyrisþegar, sem bjuggu enn að nægu þreki, sem fékk fram að þessu litla eða enga útrás. 

Íbúasamtökin söfnuðu einfaldlega fé til að kaupa og reka grunnverslunina í bænum og endurreisa verslun og þjónustu, og einnig var farið í að endurvekja menningarstarfsemi og stofna til nýrrar. 

Meðan á þinginu stóð var efnt til glæsilegra og fjölbreytilegra fjöldasýninga, sem nutu sín til dæmis vel á aðaltorgi bæjarins. 

Af þessu er ljóst að dreifðar og brothættar byggðir Evrópu eiga mun fjölbreyttari og fleiri möguleika til að bregðast við hinum hefðbundnu vandamálum dreifbýlis en margir hafa haldið hingað til.  

Íbúar Doel og fleiri þorpa og bæja geta kannski lært eitthvað af íbúum Venhorst. 

 

 


mbl.is Draugabær í Belgíu berst fyrir lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins konar þjóðernishreinsanir hér vegna þess að allt "er í messi"?

Sjá má í pistli hér á Moggablogginu í dag að vegna þess að útlendingar séu komnir í meirihluta í Mýrdal þurfi að bregðast við því og sporna við áhrifum útlendinga hér á landi á íslenska tungu og menningu. 

Við þeirri tengingu, sem er í pistlinum á milli búsetu innflytjenda hér á landi og versnandi stöðu íslenskrar tungu og menningar verður að gera athugasemdir. 

Strax fyrir um tuttugu árum var ástandið í atvinnumálum víða um landið orðið þannig, að útlendingar, til dæmis við hafnir úti á landi, voru það innflytjendur sem unnu störfin. 

Það var af einfaldri ástæðu: Íslendingar fengust ekki til að vinna þessi störf. 

Gamla mýtan um það, hvernig ætti að útvega innfæddum atvinnu hélt ekki, til dæmis við smíði Kárahnjúkavirkjunar, þar sem ætlunin var að 80 prósent starfsmanna yrðu Íslendingar, en 20 prósent útlendingar. 

Þetta varð í raun öfugt, 80 prósent urðu farandverkamenn, þar af stór hluti Kínverjar. 

Ef "hreinsað hefði verið til" á þessum tíma, hefði öll framleiðsla og atvinna á fjölmörgum stöðum um allt land lagst niður. 

Í umræddum pistli er í sömu andrá rætt um hina óæskilegu útlendinga og slæma stöðu íslenskrar tungu og menningar. 

En það blasir hins vegar við að við Íslendingar sjálfir höfum einir og óstuddir reynst einfærir um að sækja æ harðar að íslenskri tungu og það úr verstu átt; því að langoftast er um einskonar snobb fyrir ensku að ræða af hendi vel menntaðra Íslendinga. 

Nýjasta dæmið um ótal ensk orð, sem nú leysa íslensk orð af hólmi, mátti heyra í útvarpi í fyrradag þegar Íslendingur gekk fram hjá því að nota eitthvað af íslenskum orðum, "klúður, rugl, ólestur" og notaði staðinn enska orðið "mess" með því við að segja því því að í ákveðnu máli "væri allt í messi" og átti þá ekki við argentínska knattspyrnusnillinginn.

Á þessari bloggsíðu hefur verið lýst hinni skefjalausu sókn enskunnar, bæði orða og hugsunar, inn í mál fjölmiðlafólks og álitsgjafa, nafnháttar- og nafnorðasýki og rökleysu. 

Einn álitsgjafinn hefur tvinnað saman enskum orðum og hugtökum á borð við level, þegar lýst er mismunandi gæðum, og gekk svo langt nýlega að tala um að landsliðsþjálfarinn þyrfi að "kópa við" landsliðshópinn.  

Meðan staða íslenskunnar er í þessum ólestri; - afsakið, í þessu messi, eru eins konar þjóðernishreinsanir og leit að erlendum blórabögglum ekki það sem málið snýst um. 

 

 


Bloggfærslur 18. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband