Eins konar þjóðernishreinsanir hér vegna þess að allt "er í messi"?

Sjá má í pistli hér á Moggablogginu í dag að vegna þess að útlendingar séu komnir í meirihluta í Mýrdal þurfi að bregðast við því og sporna við áhrifum útlendinga hér á landi á íslenska tungu og menningu. 

Við þeirri tengingu, sem er í pistlinum á milli búsetu innflytjenda hér á landi og versnandi stöðu íslenskrar tungu og menningar verður að gera athugasemdir. 

Strax fyrir um tuttugu árum var ástandið í atvinnumálum víða um landið orðið þannig, að útlendingar, til dæmis við hafnir úti á landi, voru það innflytjendur sem unnu störfin. 

Það var af einfaldri ástæðu: Íslendingar fengust ekki til að vinna þessi störf. 

Gamla mýtan um það, hvernig ætti að útvega innfæddum atvinnu hélt ekki, til dæmis við smíði Kárahnjúkavirkjunar, þar sem ætlunin var að 80 prósent starfsmanna yrðu Íslendingar, en 20 prósent útlendingar. 

Þetta varð í raun öfugt, 80 prósent urðu farandverkamenn, þar af stór hluti Kínverjar. 

Ef "hreinsað hefði verið til" á þessum tíma, hefði öll framleiðsla og atvinna á fjölmörgum stöðum um allt land lagst niður. 

Í umræddum pistli er í sömu andrá rætt um hina óæskilegu útlendinga og slæma stöðu íslenskrar tungu og menningar. 

En það blasir hins vegar við að við Íslendingar sjálfir höfum einir og óstuddir reynst einfærir um að sækja æ harðar að íslenskri tungu og það úr verstu átt; því að langoftast er um einskonar snobb fyrir ensku að ræða af hendi vel menntaðra Íslendinga. 

Nýjasta dæmið um ótal ensk orð, sem nú leysa íslensk orð af hólmi, mátti heyra í útvarpi í fyrradag þegar Íslendingur gekk fram hjá því að nota eitthvað af íslenskum orðum, "klúður, rugl, ólestur" og notaði staðinn enska orðið "mess" með því við að segja því því að í ákveðnu máli "væri allt í messi" og átti þá ekki við argentínska knattspyrnusnillinginn.

Á þessari bloggsíðu hefur verið lýst hinni skefjalausu sókn enskunnar, bæði orða og hugsunar, inn í mál fjölmiðlafólks og álitsgjafa, nafnháttar- og nafnorðasýki og rökleysu. 

Einn álitsgjafinn hefur tvinnað saman enskum orðum og hugtökum á borð við level, þegar lýst er mismunandi gæðum, og gekk svo langt nýlega að tala um að landsliðsþjálfarinn þyrfi að "kópa við" landsliðshópinn.  

Meðan staða íslenskunnar er í þessum ólestri; - afsakið, í þessu messi, eru eins konar þjóðernishreinsanir og leit að erlendum blórabögglum ekki það sem málið snýst um. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar; og þökk fyrir samskipti liðinna ára: hjer, á Mbl. vefnum !

Þjer að segja; hefur Jón Magnússon talsvert, til síns máls.

Rifja mætti upp; þá Rasmus Kristján Rask (1787 - 1832) hóf Hið íslenzka Bókmenntafjelag til þess (í Ágúst 1816 - og síðan), sem beinlínis barg þeim pörtum íslenzkunnar sem bjargað varð, undan ásókn dönskunnar / svo ekki sje talað um Latínu fargið, sem komið var inní málið:: strax, á Miðöldunum.

Hvað er úr vegi Ómar; að skikka útlendinga (hvaðan: sem þá ber að), til þess að nema okkar tungumál, sem ekki er í minni varnarstöðu, en hin ýmsu mál önnur víðsvegar á Hnettinum, hyggi þeir til varanlegrar búsetu, hjerlendis ?

Og jafnframt; að þeir hinir sömu útlendingar samsami sig þeim siðvenjum og háttum, sem við innfædd höfum tileinkað okkur í gegnum tíðina til erfða, frá okkar forfeðrum og formæðrum til þessa dags, fjölfræðingur góður.

Ekki þurfum við; fremur en Færeyingar t.d. / um 6falt færri en við að tiltölu, að bugta okkur eitthvað sjerstaklega fyrir fólki, þó ágætt sje að upplagi, hvort heldur komi frá : Perú - Mongólíu - Madagaskar - eða annarrs staðar frá Ómar, gæti það sama fólk ekki undrað, hversu smjaður virtist ríkur þáttur í skapferli innfæddra Íslendinga, hverjir sumir þeirra vildu láta alls lags firrur (t.d. ýmis trúarbrögð) og áfkáralegar kenjar tiltekinna utanaðkomandi fá að vepjazt hjer um, í þjóðlífinu ?

Hugleiðum betur Ómar; hversu raunverulega vel meinandi Jón Magnússon er, þegar allt kemur til alls, í sínum þönkum: aldeilis.

Með beztu kveðjum; sem oftar og fyrri - af Suðurlandi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.1.2022 kl. 18:42

2 Smámynd: Loncexter

Öpp og ýmis forrit eru gagnleg hjálpartæki fyrir tölvur og síma, en þau eiga ekki að stjórna símanum eða tölvunum. En til að koma í veg fyrir það, þarf vírusvarnaforrit. Því miður er ísland eins og talva án vírsvarna eins og staðan er í dag, því miður.

Loncexter, 18.1.2022 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband