Stærsti kostur rafbíla er fólginn í yfirburða nýtni rafhreyfilsins miðað við sprengihreyfilinn auk margfalt einfaldari gerðar. Rafhreyfillinn er með meira en 80 prósent orkunýtni, meira en tvöfall hærra hlutfall en sprengihreyflar.
Þessir yfirburðir hafa verið kunnir í meira en öld, en stærsti kostur sprengihreyflanna átti stóran þátt í því að þeir drápu rafknúnu bílana í dróma allt fram á 21. öldina í krafti yfirburða orkugeymdar eldsneytis miðað við geymd rafhlöðunnar. Þar að auki er það ókostur rafhlaðna að á gefinni vegalengd léttast þær ekkert við það að orkan eyðist, en þyngd eldsneytis minnkar einfaldlega á hverri gefinni vegalengd.
Allt fram á níunda áratug síðustu aldar yfirsást mönnum þeir miklu möguleikar sem felast í því að minnka loftmótstöðu bíla.
Táknið cx er notað um loftmótstöðu og voru bílar fyrri hluta síðustu aldar með afar lélega tölu, þar sem flatarmál þess loftrýmis sem bíllinn þurfti að fara í gegnum var margfölduð með loftflæðistölunni, sem var um það bil 1,0 cx á plötu sem færð var standandi lóðrétt í gegnum loftið.
Ef laginu var breytt í kassa, lækkaði talan niður í um 0,60 cx en lengra komust menn ekki, jafnvel ekki Volkswagen Bjallan, sem sýndist sæmilega straumlínulöguð, en var samt með 0,48 cx.
Honda skutbíll á sjöunda áratugnum, býsna "nútímalegur" á þeim tíma var með 0,55 cx.
Fram yfir 1980 voru aðeins örfáir bílar með lægri tölu en 0,40 cx.
Má þar nefna Tatra 87, Tucker ´48, Nash "Bathtube" ´49, Citroen DS ´55, NSU Ro 80, ´67 og Citroen GS´70.
Upp úr 1970 fór þetta að skána, og Volkswagen Golf ´73 var með 0,41 cx og Fiat Uno með 0,35 cx.
Audi 100 færði töluna hjá sér niður i 0,32.
Á síðusut árum eru óteljandi smá og stór atriði nýtt til að auka afköst og orkunýtni bíla, og eiga rafbílarnir, sem sinn drægnisvanda, stóran þátt í því. Sem dæmi má nefna að þakrennur með gamla laginu eins og voru til dæmis á Mini, voru aflagðar.
Þær sýndust ekki geta gert neitt af sér, en það var samt nóg til að brjóta loftflæðið niður yfir yfirbygginguna.
Annað dæmi: Allt fram undir okkar daga hefur það verið "standard" tala á loftdælum við bensínstöðvar, að þegar ákveðinn tími líður frá því að hætt var að pumpa, færist talan á loftmælinum á dælunni á 29 pund.
Í rallinu var miðað við 26 pund sem heppilegustu afkasta- eða getutatölu.
Þessar tölur hafa skyndilega horfið úr bílahandbókum, og sveiflan er engin smásmíði: Úr 29 pundum upp í meira en 40 pund!
Hvers vegna? Vegna þess að ef ná á fram sem minnstri orkueyðslu verður að vera svona hart í dekkjunum.
Rafhlöður eru þungar, og þess vegna hamast nú bílahönnuðir við að umbylta bílunum til þess að gera þá sem allra léttasta og líka rafhlöðurnar.
Listinn yfir atriði er óralangur, eins og hvort bora eigi bita með götum eins og á svissneskum osti eða nota plast, koltrefjaefni eða ál í stað glers og stáls.
Sýnist fáfengilegt, nokkur grömm hér, önnur grömm þar, en með hverri smá léttingu opnast möguleiki til þess að gera aðra hluta bílsins léttari.
![]() |
Nýr Benz dregur þúsund kílómetra á einni hleðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.1.2022 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)