2000-2022: Sömu stærstu málin, en of fá skref áfram og of stór skref afturábak.

Þegar skoðuð eru árin í kringum síðustu aldamót og sömu málin þá og nú, stærstu málin sett á vogarskálar blasir við, að stærstu málin þá og stærstu málin nú eru hin sömu.  

Stóriðjustefnan var í algleymingi árið 2000 og verið að sækja hart fram til í þá átt að innan áratugs skyldu 80 prósent stóraukinna virkjana í afli stórvirkjana í vatnsafli og gufuafli til að þjóna stóriðjunni. Þetta gekk eftir og gumað af því að um væri að ræða hreina og endurnýjanlega orku, þegar hið rétta er, að stórfelldasta rányrkja Íslandssögunnar er stunduð í nýtingu gufuafls á Reykjanesskaga. 

Það hefur ekki skánað, heldur versnað síðan 2000 og núna er hafin miklu harðari sókn til þess að virkja allt það sem eftir er í þágu erlendra stórfyrirtækja, og þegar búið að birta áætlanir um virkjanir til að fara út í veldisvöxt á því sviði, þannig að að lokum verði framleidd allt að fimmtán sinnum til tuttugu sinnum meiri orka hér á landi og á miðunum en við eigum sjálf til íslenskra fyrirtækja og heimila. 

Í aldarbyrjun vorum við búin að fá sérstaka undanþágu frá Kyotosamningnum á þeim forsendum að með skefjalausri virkjanastefnu værum við að fórna íslenskri náttúru fyrir loftslagsmál. 

Núna, 22 árum síðar, er búið að stórbæta svo í þennan söng, að vikum saman er hóað saman ráðamönnum erlendra þjóða til að kyrja síbyljusönginn um endurnýjanlegu orkuna hvar sem því verður við komið. Stefnt er að því að stíga risaskref afturábak á þessu sviði. 

Um síðustu aldamót virtist eitthvað ætla að þokast í áttina varðandi kvótakerfið með Vatneyrardómnum svonefnda, en dómskerfið sá um að snúa því við. 

Nú, 2022, er búið að afgreiða málið með innihaldslausu loforði um sátt, sem allir sjá, að verður bara enn ein útgáfan af orðunum: "Ætli það sé bara ekki best að kjósa Framsókn."

Um síðustu aldamót var á frumstigi hugmyndin um stóran og veglegan hálendisþjóðgarð. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2017 var skýrt og skorinort kveðið á um það að slíkur þjóðgarður skyldi stofnaður. 

2022 liggur fyrir, að búið er að afnema þetta ákvæði algerlega og í staðinn samþykkt krafan um "útvatnaðan þjóðgarð", auk þess sem "Vinstri hreyfingin - grænt framboð" hefur afsalað sér umhverfisráðuneytinu. 

 

 


mbl.is Þessi stjórn hefði gengið í móðuharðindunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve oft hefur goshætta liðið hjá?

Eftir því sem hvers kyns mælingatækni fleygir fram fá vísindamenn aukna yfirsýn yfir það sem er að gerast í iðrum jarðar á eldvirkum svæðum. 

Dæmi um það er aflétting óvissuástands við Fagradalsfjall eftir að hinar fjölbreyttu mælingar leiddu í ljós, að kvikan þar var að vísu komin upp í um 1500 metra lóðrétta fjarlægð frá yfirborði jarðar, en á hinn bóginn var rúmmál kvikuhólfsins óbreytt og skjálftum að fækka. 

Með notkun afar umfangsmikilla mælinga hefur líklega aldrei fyrr verið hægt að taka svona ákvörun að vel athuguðu máli. 

Það sést með samanburði við fyrri tilfelli svo sem við Kröflu og nú síðast undir Öskju. 

Í Kröflueldum 1975-84 urðu fjórtán umbrotahrinur á svæðinu, þar sem hallamælir í stöðvarhúsinu var aðal mæligagnið.  Fjórtán sinnum reis land, en eldur braust aðeins upp á yfirborðið níu sinnum ef rétt er munað.  

Eftir að svæðið róaðist eftir 1984 kom tíðindalítið tímabil. 

Um síðustu aldamót vaknaði áhugi á svonefndum djúpborunum eftir gufuafli niður á miklu meira dýpi en fyrr. 

Giskað var á að með því mætti fimmfalda orkuframleiðsluna eða jefnvel enn meira. 

Lagt var í mjög dýrt tilraunaverkefni við Kröflu, vestan við sprengigíginn Víti, kammt frá holu sem fékk hið neyðarlega heiti Sjalfskaparvíti 1975, af því að hún eyðilagðist. 

Ekki fór betur fyrir nýju holunni, sem eyðilagðist líka vegna þess að þarna var komið niður á heita kviku á aðeins 1,5 kílómetra dýpi!

Land hefur risið síðasta árið undir Öskju eftir langa kyrrstöðu, en þrátt fyrir miklu fjölbreyttari og nákvæmari mælingatækni en völ hefur verið á áður, treysta vísindamenn sér ekki til að spá, hvort þarna endi landrisið og kvikusöfnunin með eldgosi. 

Talan 9-5, alls níu gos í Kröflueldum segir lítið en hugurinn leitar samt að því að velta vöngum yfir því hve oft goshætta líður yfirleitt hjá íslenskum eldstöðvum. 

 


mbl.is Óvissustigi við Fagradalsfjall aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Fjallabakssvæðinu einu eru margfalt fleiri djásn en í Yellowstone,

"Í Yellowstone verður aldrei virkjað; þar eru heulög vé." Þetta voru lokaorð eins þekktasta jarðvarmasérfræðings Bandaríkjamanna, sem Ísor bauð á tíu ára afmælisráðstefnu sína hér á landi.

Markverð orð fyrir Íslendinga hefði maður haldið að slík yfirlýsing væri um svæði, sem er lang- lang- langstærsta jarðvarmasvæði Ameríku, en enginn blaðamaður eða fréttamaður hafði áhuga á því heldur eingöngu því hvernig Íslendingar gætu náð forystu á heimsvísu með því að virkja sem allra mest af jarðvarma hér á landi. 

Í alþjóðlegum handbókum um mestu undur veraldar, eru nefnd um 40 undur, sem eru náttúruundur. 

Áður hefur verið greint frá því hér á síðunni, en þar er hinn eldvirki hluti Íslands talinn í hópi sjö mestu náttúruundra Evrópu með þessum upphafsorðum: "Ísland er engu líkt."

Í þessu riti komast "hin heilögu vé" Ameríku ekki á blað, enda engin furða, því að bara Fjallabakssvæðið eitt býr yfir margfalt fleiri náttúrudjásnum, svo sem gígaröðum, fyrirbæri, sem finnst hvergi á þurrlendi jarðar nema hér á landi. 

Ef flogið væri á þyrlu um Yellowstone og lent á stað, þar sem þyrlugestir myndu stíga út og hrópa: Vaá! kæmi hverasvæðið Mammuth hot springs nyrst í garðinum helst til greina. 

Á leiðinni þangað má sjá hrafntinnuhraun, sem mikið er gumað af en Hrafntinnuhraun að Fjallabaki er mörg hundruð sinnum stærra. 

Heildarheiti goshvera í heiminum er geysir, en þeir draga allir nafn sitt af Geysi í Haukadal á Íslandi. 

En síðan mætti nefna ansi marga staði að Fjallabaki, þar sem þyrlufarþegar gætu staðið og hrópað "vaáa!": 

Jökulgil, Grænihryggur, Ljótipollur, Kýlingar, Vatnaöldur, Brandsgil, Veiðivötn, Hraunvötn, Langisjór, Fögrufjöll auk Hrafntinnuhrauns. 

Viðbrögð þjóðanna tveggja, sem voru með sína fremstu menn í nýtingu jarðvarma á ráðstefnu fyrir nokkrum árum, við megin atriðum í verðmætamati lands, hafa verið gerólík. 

Hér á landi er nú hafður uppi meiri áróður fyrir marföldum virkjunum en nokkru sinni fyrr, en í Ameríku er svæði, sem stendur hinu eldvirka Íslandi að baki hvað náttúruverðmæti varðar, nefnt heilög vé, sem aldrei verði snert. 

 

 


mbl.is Var bara miðaldra karl sem horfði á Netflix
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband