Enn á ný topp sjónvarpsefni úr nýrri átt nútímans.

Enn á ný bauðst næsta óvænt topp sjónvarpsefni í kvöld sem bauð upp á flest það sem prýða má slíkt efni. Þetta var úrslitaleikur EM í handbolta kvenna milli landsliða Danmerkur og Noregs. 

Leikurinn bauð upp á flest það, sem prýða má slíka leiki, hraða, leikbrögð, spennu, sveiflur, baráttu og dramatík. 

Danska liðið hafði forystu upp á nokkur mörk allt undir lok leiksins, 15:12 í hálfleik og allt að fjögurra marka mun þar til aðeins sex mínútur voru eftir. 

Þær mínútur buðu upp á sveiflur með óvæntum snilldartilþrifum og ótrúlegum mistökum í allt til leiksloka, þar sem þær norsku stóðu loks uppi sem sigurvegarar og Evrópumeistarar. 

Gunnar Birgisson lýsti leiknum af stakri prýði og setning lýsingarinnar hraut honum ef til vill af vörum þegar dönsku stúlkurnar áttu misheppnaða sendingu boltans: "...þær senda boltann til Þóris Hergeirssonar, sem er ekki í danska liðinu..." 

Ferill íslenska þjálfarans er einstakur með norska landsliðið og því var setan við sjónvarpið tímans virði. 

Það er nýtt hjá síðuhafa að hafa mesta ánægju af því að horfa á körfubolta karla og handbolta kvenna, eins og orðið hefur raunin að undanförnu. En þetta er nú nútíminn, ekki satt? 


mbl.is Þórir stýrði Noregi til sigurs á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Ólympíuleikana í Berlín 1936?

Stefán Pálsson hefur lýst því að svipað gagnrýnisflóð hafi ráðið ríkjum fyrir HM í Brasilíu og nú hefur verið í aðdraganda HM í Katar, enda óeirðaástand og óöld í Brasilíu í aðdraganda HM. 

Mikið ranglæti, kúgun og fátækt hafi einkennt umræðuna. 

Síðan hafi allt dottið í dúnalogn þegar leikarnir byrjuðu, og telur Stefán líklegt að svipað muni gerast nú í Katar. 

Nefna má annað ekki síðra dæmi; Ólympíuleikaa í Berlín 1936. Þá hafði Adolf Hitler verið einræðisherra í tvö ár, látið drepa helstu forystumenn stormsveita Ernst Rohm á grimmilega hátt 1934, stofnað til illræmdustu fangabúða heims í Dachau, látið ofsækja Gyðinga með það framtíðarmarkmið að útrýma þeim alveg og ráðast inn í Austur-Evrópu og Sovétríkin til þess að gera hina arísku Þjóðverja að yfirburðakynþætti og drottnurum heimsins. 

Margir vildu hverfa frá því að gefa Hitler færi á því að halda leikana, en hann svaraði með því að samþykkja kröfur Ólympíuhreyfingarinnar við framkvæmd leikanna. 

Leikarnir voru haldnir og án þeirra hefði Jesse Owens ekki tætt kynþáttakenningu Hitlers í sig með því að verða maður leikanna með fjögur gull.  

Samt voru þeir það íþróttamót á ferli Owens þar sem hann mátti í fyrsta sinn á ævinni deila hóteli og aðstöðu, þar á meðal búningsklefa og sturtu með hvítum mönnum. 

Þegar heim til Bandaríkjanna kom var Owens ekki boðið í Hvíta húsið eins og venja er og var meinaður aðgangur að fagnaðarsamkomuna í New York. 

Í fjölmiðlum var mikið gert úr því og er raunar enn gert, að Hitler hafi neitað að taka í hönd Owens, en það er ekki rétt, því að það var eitt af skilyrðum Ólympíunefndarinnar að þjóðhöfðingi mætti ekki gera neitt slíkt á leikunum, heldur aðeins setja leikana og vera áhorfandi. 

Í Berlín urðu glæsileg framkvæmd og einstæð afrek íþróttafólksins til þess að vekja hrifningu víða um lönd. Þetta voru tímamótaleikar á marga lund, og til dæmis varð þar til alveg ný og byltingarkennd kvikmyndataka af íþróttamötum, sem heimsbyggðin hefur notið í vaxandi mæli. 

 

 


mbl.is Ríkt múslimaríki sem hlýtur að vera vont
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband