Enn lifir fólk, sem man þá tíð þegar íbúar Reykjavíkur voru 40 þúsund.

Íbúar Reykjavíkur fóru yfir 40 þúsund í kringum stríðsbyrjun 1940. Þetta var nokkrum árum áður en fyrstu umferðarljósin voru sett upp, Lækjargatan breikkuð og verið að byggja upp hverfi á Rauðarárholti. 

Aðal strætisvagnaleiðin bar heitið Njálsgata-Gunnarsbraut. Í vesturbænum var heitið "Sólvellir". Á þessum leiðum var svo hæg og stutt yfirferð innan leyfilegs hámarkshraða, 25 km/klst, að þegar ný leið kom áratug síðar fékk hún heitið "Austurbær-Vesturbær hraðferð."

Hún lá alla leið vestur í Skjól og austur á Nóatún og þótti vel í lagt með hraði og yfirferð.  

Í Kringlumýri var samfellt mýra- og móasvæði notað undir kartöflugarða bæjarbúa. Tvö af bíóhúsum bæjarins voru í hermannabröggum, stærsta íþróttahúsið í hermannabragga og á Hótel Borg var stærsti veitingastaður og skemmtistaður Reykjavíkur. 

Hvorki Austurbæjarbíó né Stjörnubíó voru til, og enn áttu eftir að líða nær tveir áratugir þar til að Laugardalsvöllurinn yrði byggður. 

Iðnó var eina leikhúsið. Í einu húsanna við Austurstræti var eina lyfta bæjarins og þótti ungviðinu það mikið tækniundur. 

 

Nær allir íþróttaviðburðir utan húss fóru fram á Melavellinum við Suðurgötu, sem var ófullkominn malarvöllur umgirtur bárujárnsgirðingu. 

Enn var "flaggað fyrir kónginum" og "Den forenede dampskibs selskap" hélt uppi reglubundnum ferðum á farþegaskipinu "Dronning Alexandrine" milli Danmerkur, Færeyja og Íslands.

Bæjarbragurinn bar keim stærðinni; það þekktu allir alla.  

Enn eru á lífi þúsundir fólks, sem muna þessa tíma. Það er ekki lengra síðan. 


mbl.is Kópavogsbúar orðnir 40 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband