6.1.2010 | 23:05
Japönsku Kei-bílarnir á Íslandi.
Í Japan hafa ríkt þær reglur í næstum hálfa öld að smábílum, sem eru innan vissra marka um vélarstærð, lengd og breidd, sé ívilnað í opinberum gjöldum. Þessir bílar, sem nefnast Kei-bílar, eru miklu algengari á Íslandi en ætla má í fljótu bragði og tilvist þeirra getur verið lærdómur fyrir okkur.
Á efstu myndinni er Suzuki Jimny, sem er Kei-bíll í Japan þótt hann sé aðeins lengri, breiðari og með stærri vél hér á landi en þar.
Ástæðan er sú að sömu lögmál um skort á rými í umferðinni gilda í öllum borgarsamfélögum heims og án Kei-bílanna myndi verða algert öngþveiti í umferðinni í stórborgum Japans.
Formúlan svínvirkar nefnilega, sparar miklar fjárhæðir í gerð umferðarmannvirkja og minnkar tafir og flækjur í umferðinni.
Sem dæmi má nefna að 100 þúsund bílar fara um Ártúnsbrekku og Miklubraut á dag og ef bílarnir væru að meðaltali einum metra styttri myndu 100 kílómetrar af malbiki verða auðir sem nú eru þaktir bílum.
Mun fleiri bílar myndu komast fyrir á milli umferðarljósa, eins og til dæmis í umferðarhnútnum austan við Umferðarmiðstöðina síðdegis, og hér á landi mætti setja hvata fyrir ökumenn með því að leggja lengdargjald á bíla og minnka í staðinn önnur bifreiðagjöld.
Á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 100 þúsund bílar sem þekja yfir malbik sem er alls 450 kílómetra langt!
En víkjum aftur að japanska kerfinu. Þegar bílum tók að fjölga í Japan voru settar reglur þess efnis að bílar sem væru minna en þriggja metra langir og 1,30 á breidd og vélarnar ekki meira en 360 cc, fengju mikinn afslátt af opinberum álögum.
Sá bíll af þessari stærð sem mesta frægð hlaut var Honda 360 sem síðar var fluttur til annarra landa með 600cc vél.
Ótrúlegur naggur, náði 136 kílómetra hámarkshraða og var minni en Mini.
Fyrsti jeppinn í þessum flokki var gerður af litlu fyrirtæki sem ekki hafði bolmagn til að fylgja því eftir en Suzuki verksmiðjurnar sáu þarna tækifæri og suðu upp úr þessum bíl hinn fyrsta af tveimur fyrirrennurum Suzuki Jimny.
Þessir bílar, Suzuki LJ80, bárust til Íslands 1977 með 797cc 37 ha. vél og þegar reglurnar í Japan höfðu verið víkkaðar upp í 3,20 x 1,40 metra lengd og breidd og 550cc vélarstærð fóru fleiri Kei-bílar að berast til landsins.
Suzuki LJ10 var 3,43 x 1,46 hér á landi og fólst viðbótin við Kei-stærðina í stærri stuðurum, svolitlum brettaköntum og 1000cc og siðar 1300cc vélum. Sá rauði með númerinu IB 327 er minnsti jöklajeppi landsins vegna léttleika síns, því hann vegur aðeins 950 kíló og er þó með 101 hestafla vél.
Suzuki Alto fólksbíllinn kom hingað og varð býsna vinsæll og með svo frábæra 800cc vél að hún er enn í framleiðslu í Chevrolet Matiz.
Slíkur bíll komst í mark í Ljómarallinu 1983 sem var frábær árangur.
Daihatsu Cuore sló í gegn hér á landi 1986, var raunverulegur Kei-bíll hvað utanmál snerti en með 843cc 44 ha.vél og rými á hæð og lengd fyrir farþega á við miklu stærri bíla. Örfáir bílar af þessari gerð eru enn til. Sá rauði hér á síðunni er minnsti sjálfskipti bíll landsins.
Allmargir bílar af þessari gerð með fjórhjóladrifi voru fluttir inn til landsins og voru og eru minnstu fjórhjóladrifnu bílarnir hér á landi.
Mér er kunnugt um tvo sem enn eru til.
1998 fara síðan að berast hingað bílar í núverandi Kei-flokki, sem miðast við stærðina 3,40 x 1,48 m og 660 cc vélar.
Þeir eru þessir:
Daihatsu Cuore með 1000cc vél, 56 hestafla. Slatti af þessum bílum er enn í umferð hér.
Myndin af gráum bíl fyrir neðan bílinn með STREIT númerinu er af Malaískum bíl af gerðinni Perodua Kelisa.
Hann er í grunninn Cuore 1998-2005 með breyttum framenda og var framleiddur fram til 2007.
Enn í dag er framleiddur Perodua Kancil sem er byggður á Cuore 1986-98.
Þessir bílar eru langódýrustu bílarnir á markaðnum í Bretlandi.
Þá skal telja jepplinginn Daihatsu Terios, með lengdum afturenda, brettaköntum og stuðurum sem gerðu bílinn 45 sm lengri og 7 sm breiðari en Kei-bíllinn Terios Kid. Vélin 1300 cc.
Loks er að nefna Suzuki Jimny, með stærri stuðurum og brettaköntum sem gerðu bílinn 23 sm lengri og 12 sm breiðari en Kei-bílinn og vélin var stækkuð 1328 cc.
Nokkrir háþekju Daihatsubílar, soðnir upp úr Cuore og nefndir Move, voru fluttir inn og eru einn eða tveir enn í umferð hérlendis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.