Áltrúarmenn efla tilbeiðsluna.

Ég var einn af þeim sem tók þá trú upp úr 1960 að á Íslandi þyrfti að koma á fót stóriðju til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf og útflutning.

Þetta var orðað þannig að ekki væri skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni. 

95% útflutningstekna þjóðarinnar voru fiskur og fiskafurðir. Engir vegir með bundnu slitlagi voru til í landinu og margt annað var eftir því. 

Við höfðum ekki  nóg rafmagn til eigin nota og valið stóð á milli þess að vikja í mörgum smáum virkjunum eða einni stórri í Þjórsá. 

Virkjun Þjórsár var miklu hagkvæmari kostur miðað við hverja orkueiningu en gallinn var sá að ekki var hægt að virkja við Búrfell nema í einum stórum bita og við höfðum ekkert við allt þetta rafmagn að gera. 

Ég var þá fylgjandi þessari virkjun og öðrum virkjunum í framhaldinu fyrir ofan hana til að tryggja rekstraröryggi hennar. 

Ég trúði því sem okkur var sagt að blómlegur afleiddur áliðnaður myndi fylgja í kjölfarið með framleiðslu vöru úr áli, allt frá þakplötum til umbúða. 

Nú er liðin tæp hálf öld og aldrei reis þessi umfangsmikli áliðnaður innanlands. 

Ástæða þess gátum séð ef við vildum,  að hagkvæmni stærðarinnar réði því að þessi iðnaður yrði erlendis en ekki hér.

Nú, hálfri öld síðar, halda menn áfram að trúa því að stóriðjan sé framtíð Íslendinga, þótt aðstæður séu allar gerbreyttar. 

Nú notar stóriðjan yfir 80% af raforku landsins og heittrúarmenn vilja hækka þessa tölu upp í 95%.

Þótt helstu rökin fyrir því að fara út í stóriðjuna fyrir tæpri hálfri öld hafi verið sú að ekki ætti að hafa öll eggin í sömu körfunni vilja áltrúarmenn endilega hafa það þannig hvað snertir þá auðlind sem raforkan er að öll raforkusalan verði í sömu körfunni. 

Rökin um stórar afmarkaðar virkjanaeiningar hafa nú snúist við varðandi jarðhitann.

Gagnstætt því sem á við um vatnsaflsvirkjanir, sem eru fyrirfram þekktar stórar einingar bendir orkumálastjóri á að skynsamlegast sé að virkja jarðvarmann jafnt og þétt í smærri einingum, vegna þess að orkan frá hverju svæði og hverri borholu sé ágiskunartala í upphafi og það komi ekki í ljós fyrr en eftir á hver orkan sé.

Þess vegna sé skynsamlegast að virkja yfirvegað og laða frekar að marga smærri kaupendur orkunnar en risastóra eins og álverin séu.

En þessi rök bíta ekki á áltrúarmenn. Þeir haga sér eins og ekkert hafi breyst eða gerst síðan 1960.

Þetta snýst ekki lengur um neina skynsemi, - þetta eru trúarbrögð.

Og heittrúarbrögð eru alger, - ekkert annað kemur til greina en það sem trúað er á.

Þótt bent sé á að við sex risaálver á Íslandi sem þurfi alla orku landsins muni aðeins 2% vinnuaflsins fá vinnu segja áltrúarmenn að áliiðnaðurinn sé eina lausnin í atvinnumálum landsmnanna. 

Þeir trúa því að jafnvel þótt öll orka Suðvesturlands nægi ekki fyrir þrjú risaálver nýtt risaálver plúst  eigi samt að ráðstafa henni allri til álvera og setja öll eggin í eina körfu. 

Í viðtali við framkvæmdastjóra Fjárfestingastofu hafa margir kaupendur orku gefið sig fram en hrökkva fljótlega frá þegar þeir sjá að risaálverin halda allri orkunni í gíslingu og gína yfir henni.

Og ekki nóg með það. Nú krefjast áltrúarmenn þess að álverið í Straumsvík verði stækkað í botn þótt álverið sjálft hafi ekki áform um slíkt.

Við blasir að hægt er að selja orkuna yfirvegað og af framsýni til kaupenda sem skapa fleiri og betri störf á hverja orkueiningu með minni mengun en þetta mega áltrúarmenn ekki heyra nefnt.

Þeir falla fram og ákalla álguðinn:

 

Ó, ál vors lands! Ó, lands vors ál !

Við lofum þitt heilaga, heilaga nafn!"

Úr borholum hveranna hnýta þér krans

þínir herskarar, mastranna safn.  

 


mbl.is Stækkun álvers í brennidepli á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Ómar, það er nú ekki svo mörg fyrirtæki sem hafa hag af að flytja til íslands, til að ísland sé vænlegur kostur, þurfa fyrirtæki að hagnast á því.

Þannig að einu möguleikarnir eru lægra orkuverð en annarsstaðar, eða lægri launakosnaður en annarsstaðar.

hvort á að stefna á að selja umhverfisvæna raforku á lágu verði, eða lækka launastig, um það stendur valið. Vilji menn fara þá leið að lokka starfsemi til landsins með hagstæðu raforkuveri, er þá álframleiðsla eitthvað verri leið en "eitthvað annað" sem oft hefur verið talað um, en aldrei orðið að veruleika

Anton Þór Harðarson, 23.1.2010 kl. 14:57

2 Smámynd: Njáll Harðarson

Ég er algjörlega sammála þér Ómar, enda er nú orðið deginum ljósara að annarleg öfl eru þarna að baki, græðgi, auðlindaþjófnaður og óvirða við íslensku þjóðina í leit að viðurkenningu erlendra auðafla hefur hér ráðið för og réttilega svo þegar litið er á erlendar bankainnistæður þeirra sem þarna voru að verki.

Njáll Harðarson, 23.1.2010 kl. 15:04

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og viti menn...trúboði mætur fyrstur manna og rökin jafn handföst og í annari hindurvitna og yfirnáttúrutrú.  Annars gott samhengi með að kalla þetta yfirnáttúru, því þessi trúarbrögð rísa öllum hagsmunum náttúru ofar í þessu költi.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2010 kl. 15:12

4 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Ég tek heilshugar undir þennan pistil. Það er svívirða að þvinga í gegn aðra kosningu um stækkun í Straumsvík. Og viti menn. Aftur mun Rio Tinto reiða fram 700, 800, 900, 1000 milljónir til þess að „liðka fyrir“. Og persónuvernd með sinn forstjóraræfil mun aftur loka augunum fyrir brotum á lögum um persónuvernd. Og aftur mun Rósa Guðbjartsdóttir bera blak af persónunjósnum.

Guðmundur Guðmundsson, 23.1.2010 kl. 15:45

5 Smámynd: Sævar Helgason

Og í Hafnarfirði er stefnt að íbúakosningu nr. 2  vegna þess að íbúakosning nr 1 - misheppnaðist.

Stækkun álversins -risanum mikla við borgarhliðið-var hafnað í íbúakosningu nr.1.

Hvaðan orkan á að koma fylgir ekki með í væntanlegri kosningu né hvort Río Tinto hafi endilega áhuga á að byggja þessa nýju risaálverksmiðju- núna.

Síðan vill enginn lána Íslendingum fjármuni-"þökk sé " Icesave klúðrinu og hruninu.

En Íslendinga dreymir um ál og meira ál , svona eins og lífð var einu sinni saltfiskur á Íslandi.  Við erum mjög einhæf.

Sævar Helgason, 23.1.2010 kl. 15:53

6 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Ómar; ég vil byrja á að taka fram að mér finnst þú frábær persóna og hef haldið upp á þig frá því að ég var smá krakki.

Hins vegar sjáum við álmálin frá ólíkum sjónarmiðum. Pistill þinn hér minnir mig á samtal sem ég átti við grænfriðung í Þýskalandi fyrir nokkrum árum um hvalveiðar. Hann þuldi grænaFriðs rulluna allt frá útrýmingahættu til samtala hvala við geimverur. Ég hlustaði af þolinmæði en spurði hann svo hvað honum þætti um ef Indverjar bönnuðu slátrun á beljum í Þýskalandi vegna túarbragða sinna. Ég vissi ekki að friðarsinnar næðu svona hátt á tónskalanum, hann hélt nú ekki að Indverjar væru að skipta sér af hvað Þjóðverjar láta sér til munns.

Það er grátleg staðreynd að Indverjar láta frekar börninn sín svelta en slátra beljunni sinni.

Ég tel mig vera umhverfissinna, ég er alfarið á móti veiðum á dýrategundum sem eru í hættu, ég er alfarið á móti að náttúran sé skemmd að óþörfu, en það er nú einu sinni þannig að við mannfólkið þurfum að borða og búa og við höfum ekki aðgang en að öðrum hnöttum en móður jörð.

Ég var eitt sinn að vinna á gröfu út í náttúrunni og það sem ég tók eftir var að þegar maður kom að næsta sumar þá var rigningin og veðrunin búin að jafna vel um. Þá rann upp fyrir mér að bara rigningin á Íslandi eyðir meira náttúrunni en allir Íslendingar ná að gera þótt þeir legðu sig alla fram.

Ég starfaði í 10 ár að uppbyggingu ABC barnahjálapar, og eitt sinn barst bréf frá barni í Afríku sem spurði stuðningsaðila sinn "what tribe are you", þótt við tilheyrum sitthvornum ættflokknum (huglega) þá erum við báðir Íslendingar :)

Axel Pétur Axelsson, 23.1.2010 kl. 16:16

7 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég vil benda á þessa grein eftir Ketil Sigurjónsson, álbólan gæti verið að springa...

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/995906/

Jón Ragnarsson, 23.1.2010 kl. 17:29

8 identicon

Ómar ég hef reynt að fylgjast með því sem hefur komið frá þér í ræðu og riti og það hefur fengið mann til að hugsa meira um þessa hluti og sérstaklega eftir að ég fór til reiðarfjarðar í sumar sem leið og sá þetta álver og mér fannst það engan vegin passa í þetta umhverfi og ég verð að viðurkenna að ég fékk hreinlega hroll sérstaklega vegna þess að maður var fylgjandi þessari sköm.

Magnús Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 17:38

9 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Takk fyrir þetta Ómar, - frábært að sjá að einhverjir eru ekki með hausinn ofaní gamla pokanum, þó svo að sumum finnist það mesta öryggið í lífinu.

Áfram drengur!

Vilborg Eggertsdóttir, 23.1.2010 kl. 17:39

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Afskaplega eigum við marga umhverfissinna sem vilja reisa virkjanir og veita álverum svo undanþágur frá lögum um mengunarvarnir.

"Bara spurningin um það hvort við eigum að fórna minni hagsmunum fyrir meiri!"

Man einhver eftir að hafa heyrt þetta?

Ámóta og allir fullveldissinnarnir sem telja traustustu leið okkar til að vernda fullveldið að afsala því.

Varst það ekki þú Ómar sem ortir ljóðið "Ég er afi minn"? Mér er nú eiginlega farið að þykja nóg um þessa pósmódernisku umræðu hér á Íslandi. Ekkert okkar hefur vit til að hafa skoðanir því aldrei er neitt svo einfalt að það sé eins og það blasir við okkur.

Árni Gunnarsson, 23.1.2010 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband