28.1.2010 | 23:20
"Eitthvað annað".
Samningurinn um koltrefjaverksmiðjuna á Akureyri er dæmi um "eitthvað annað" sem álfíklar hafa nefnt svo í háðungarskyni til aðgreiningar frá risaálverum sem eiga að vera eina lausnin við atvinnuvanda Íslendinga.
Húsvíkingar hafa nú hengt allt sitt á álver á Bakka og Akureyringar ætla sér að njóta þess að fá "eitthvað annað" til sín.
Koltrefjaefni sækja nú á önnur efni, sem eru létt og sterk. Vinsælustu einkaflugvélar heims eru nú gerðar úr koltrefjum og nýjasta þota Boeing verður að stórum hluta úr koltrefjaefnum.
Forstjóri Boeing hefur sagt að þessi efni muni ryðja álinu burt, meðal annars vegna þess hve notkun þess sparar mörg störf við flugvélasmíðina.
Í fréttinni frá Akureyri er ekki greint frá því hve margir muni fá vinnu við verksmiðjuna né hve mikla orku hún muni nota.
Mig grunar þó að hún muni skapa fleiri störf á orkueiningu en álver, enda eru álver "orkufrekur iðnaður" eins og það er kallað og hefur verið flaggað sem jákvæðu orði, sem það auðvitað ekki er, því að þvert á móti ættu Norðlendingar að sækjast eftir iðnaði sem skapar fleiri störf á hvert megavatt og kaupendum orku, sem eru fleiri og smærri og henta því vel við virkjun jarðvarmasvæða, þar sem virkjað er hægt og bítandi í áföngum.
Sennilega verður maður að bera sig eftir nánari upplýsingum um störf, orkunotkun og mengun því að fréttamenn virðast ekki hafa áhuga á að spyrja að slíku ef marka má það að ekkert er greint frá þessum höfuðatriðum.
Ljóst er þó að metangasnotkunin er plús að öllu leyti, bæði umhverfislega séð og af hagkvæmnissjónarmiðum.
Rammasamningur um koltrefjaverksmiðju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú afar ósanngjarnt af þér, Ómar, að :
"...er dæmi um "eitthvað annað" sem álfíklar hafa nefnt svo í háðungarskyni til aðgreiningar frá risaálverum sem eiga að vera eina lausnin við atvinnuvanda Íslendinga."
Hver er að bulla þessu í þig, Ómar?
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2010 kl. 23:27
Þeir, sem segja ár eftir ár að það sé ekki upp á neitt annað að bjóða en álver og endurtaka aftur og aftur að andófsmenn gegn stóriðjunnni bjóði ekki upp á neitt nema eitthvað óskilgreint "eitthvað annað", svo sem fjallagrasatínslu og lopapeysusaum.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2010 kl. 23:43
Það er reyndar rétt hjá þér að "andófsmennirnir" koma aldrei með neitt annað, heldur segja bara að möguleikarnir séu óteljandi.
Í aðdraganda framkvæmdanna við Kárahnjúka, fullyrtu "andófsmennirnir" að þeir gætu skapað 700 störf ef hætt yrði við framkvæmdirnar.
Bæjarstjóri Ísafjarðar og þáverandi formaður sveitarfélaga á Íslandi, bauð þá "andófsmönnunum" að koma Vestur og skapa þessi störf þar.
Undirtektir "andófsmannanna" olli Vestfirðingnum miklum vonbrigðum, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.1.2010 kl. 00:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.