"Betra að leiða hjörðina..."

Á prófkjörsdegi fyrir byggðakosningar, þegar bæjarstjórinn í Hafnarfirði ætlar að keppa eftir 6. sætinu, koma upp í huga minn eitthvert skemmtilegasta viðtal sem ég man eftir að hafa tekið á löngum ferli.

Það var viðtal við Davíð Oddsson í fyrsta sjónvarpsþættinum af sínu tagi hér á landi, þar sem í beinni útsendingu að viðstöddum áhorfendum var blandað saman öllu mögulegu, stjórnmálum, heimildarinnskotum, menningarviðburðum og hverju því sem var efst á baugi um allt land. 

Þess vegna gaf ég þættinum nafnið "Á líðandi stundu" og hafði þetta verið draumur minn í mörg ár, sem fékk náð hjá nýjum stjórnendum, Hrafni Gunnlaugssyni og Ingva Hrafni Jónssyni. 

Davíð fór svo á kostum að ýmis ummæli hans urðu umræðuefni annarra fjölmiðla marga daga á eftir.

Viðtalið tókum við þrjú, ég, Agnes Bragadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson. 

Meðal annars var Davíð spurður að því, hvort hann ætlaði að fara í 8. sætið, baráttusæti listans.

Hann svaraði eldsnöggt: "Nei, það er betra að ég leiði hjörðina en reki hana."  

Hann sagði þetta þannig að hann uppskar skellihlátur allra viðstaddra.

Þegar ég bauð Guðmundi "jaka" Guðmundssyni að verða aðalgestur næsta þáttar dró hann seiminn og sagði:

"Það verður ekkert áhlaupaverk eftir frammistöðu Davíðs. Satt að segja höfum við mótherjar hans verið hugsjúkir eftir það hvernig hann brilleraði hjá ykkur og jafnvel haldið um það fundi. Hann er þegar búinn að vinna sigur í kosningunum í vor." 

Jakinn kom síðan í næsta þátt og var stórkostlegur þótt ekki tækist honum að skáka Davíð.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi skemmtilegi pistill hjá okkar ágæta Ómari, er nokkuð dæmigerður fyrir það hversu mörg umræðan á Íslandi fer fram á lágu plani. Alvara málsins skiptir litlu máli, aðal atriðið er að vera skemmtilegur, fyndinn. Ég hef margoft tekið eftir þessu, ekki síst á kosningafundum frambjóðenda. Ræðumenn halda að það skipti öllu máli að vera sniðugur, geta jafnvel skellt fram frumsaminni vísu. Að vera málefnalegur er mjög aftarlega í listanum og gleymist stundum algjörlega.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 13:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eigum við að segja að Davíð hafi beitt smjörklípuaðferð sinni, tekist að beina allri athyglinni að færni sinni og nánast dávaldshæfileikum á opinberum vettvangi.

Hitt verður samt ekki af honum skafið að borgarstjóratíð hans, röggsemi, leiðtogahæfileikar og framkvæmdasemi, var einstaklega glæsileg.

Ómar Ragnarsson, 30.1.2010 kl. 14:47

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Skemmtileg upprifjun atarna, Ómar. Núna er langt um liðið frá því þessir atburðir urðu, Davíð átti eftir að verða borgarstjóri og forsætisráðherra og þjóðsagnapersónan Gvendur Jaki er horfinn af sviðinu.

Ég þræti ekki við kommentator hér á undan  í listanum, en læt í ljós þá von að menn fari nú ekki allir að taka upp durtshátt, a la Gordon Brown!! Hitt þykir mér athyglisvert, orð Jakans, í gríni sögð eða ekki: "Satt að segja höfum við mótherjar hans verið hugsjúkir eftir það hvernig hann brilleraði hjá ykkur og jafnvel haldið um það fundi"

Þó svo Davíð Oddsson sé kominn í pásu, að því er varðar þátttöku í pólitík með setu á Alþingi, þá halda þessi orð ennþá gildi sínu, svo skrýtið sem það nú er. Þú munt hafa heyrt talað um þetta sem "Davíðs-heilkenni" á síðustu misserum. Hugsýki þessi, eins og Jakinn nefnir hana, ágerðist um allan helming þegar vinstri hliðin í íslenskri pólitík missti sinn sterkasta leikmann útaf í von veikindi.

Þú tekur eftir því að það víkur ekki sála á vinstri kantinum ónotaorðum að núverandi borgarstjóra Reykjavíkur né formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver er "vondasti maður Íslands"? Nú auðvitað gamli hrokkinkollurinn sem heldur áfram að strjúka mönnum andhæris eins og hann hefur alltaf gert. Hryllingurinn er jafn ægilegur og í myndinni The Shining. Heeere's David

Flosi Kristjánsson, 31.1.2010 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband