9.2.2010 | 10:14
Nei, þið segið ekki !
Nú er illt í efni fyrir þá sem hafa hamast á Svandísi Svavarsdóttur fyrir að bregða fæti fyrir SV-línu. Í ljós kemur að engu skiptir þótt græna ljósið sé komið á þeim vettvangi.
Það liggur nú fyrir að það tefst af öðrum ástæðum að hefja undirbúning að lagningu línunnar.
Nú les maður á bloggsíðum stóriðjufíkla að VG og umhverfisverndarfólki hljóti að líka illa að fjölga eigi um 50 störf hjá Actavis í Hafnarfirði vegna þess að umhverfisverndarfólk sé á móti allri atvinnuuppbyggingu!
Þetta er skrýtin röksemdarfærsla. Umhverfisverndarfólk hefur haldið því fram alla tíð að atvinnuuppbygging af öðru tagi en því að rústa náttúruperlum landsins skapi fleiri og betri störf en álverin án slíkra fórna.
Reynt hefur verið að hæða okkur og spotta fyrir þetta með því að segja að hugmyndir okkar séu ónýtar, þetta "eitthvað annað" sem við tölum um sé ekki raunhæft og að við höfum ekkert fram að færa nema fjallagrasatínslu.
Þegar síðan kemur í ljós að hugmyndir okkar eru raunhæfar, þá er ráðist á okkur fyrir það að við séum á móti því að þær séu framkvæmdar af því að við séum á móti allri atvinnuuppbyggingu !
SV-lína áfram á ís | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er sorglegt að Vinstri-grænir kommúnistar skuli berjast gegn atvinnuuppbyggingu á landinu við þessar aðstæður. Enginn heilvita stjórnmálamaður berst gegn slíkri innspýtingu í atvinnulífið sem virkjun og stóriðja er, sérstaklega í þessu máli þar sem umhverfisspjöll eru í algjöru lágmarki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 10:25
Auðvitað er stækkun lyfjaverksmiðjunnar í Hafnarfirði mikils virði og mættu mörg slík fyrirtæki bætast við. Á atvinnleysisskrá eru u.þ.b. 16.000 manna og mun fara fjölgandi, þannig að 50 störf segja ekki mikið í heildardæminu, en þó munar um þau.
Við virkjanir og stóriðju verða til þúsundir starfa, a.m.k. á uppbyggingartímabilinu og nokkur hundruð í hverri verksmiðju, þegar framleiðsla hefst.
Stóriðjan er því fljótlegasta leiðin til að skapa störf og henni fylgir svo fjöldi afleiddra starfa. Það sanna rækilega öll stóriðjuverin sem þegar eru risin, enda þarf að búa til störf handa fleirum en eingöngu háskólamenntuðu fólki.
Axel Jóhann Axelsson, 9.2.2010 kl. 11:04
Stóriðja er afbrags leið fyrir þjóð sem er orðin heimsk, ráðvillt og úrræðalaus síðan Sjálfstæðsflokkur og Framsóknarflokkur tóku um það pólitíska ákvörðun að ríkið ætti að sjá fólkinu fyrir atvinnu. Þessi pólitík var kölluð forsjárhyggja og ríkisforsjá á meðan Sovétríkin ástunduðu þessa tegund stjórnsýslu.
Það er styttra á milli Vinstri og hægri en Sjálfstæðismenn viðurkenna. Sovétríkin gáfust upp á þessari pólitík en Sjálfstæðismenn koma ekki auga á aðra leið. Þeir vilja leiða þessa þjóð inn í framtíðina!
Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 11:23
Til þess að lyfjaverksmiðjan í Hafnafirði geti notað stækkun sína sem áformað er að byggja og er mjög gott málþá þarf að vera til orka .Til að hægt sé að taka við vonandi mörgum smáum og stórum fyrirtækjum í nýjan rekstur ( ekki veitir af ) þarf að auka orkuframleiðslu orkufyrirtækjana eða byggja nýja ( Það skapar atvinnu meðan á þeim framkvæmdum stendur ) .Til að það sé hægt þarf stóra orkukaupendur samhliða þeim smáu. Vegna mikils kostnaðar við virkjunarframkvæmdirnar.Ég skil ekki ykkur máttúruvendarsinna, allstaðar þar sem virkjað hefur verið á íslandi hafa virkjunarframkvæmdirnar skapað nýja og betri aðgang ykkar af þessum stöðum og gert ykkur kleift að sjá allan fjallasalin með eigin augum en ekki bara af mynd.
Guðmundur Gunnar Þórðarson, 9.2.2010 kl. 11:35
Það er ekki lengur í gildi að það þurfi stóra orkukaupendur til að framleiða raforku. Það átti við þegar virkjað var við Búrfell vegna þess að virkjunin varð að vera stór.
Guðmundur Gunnar Þórðarson heldur hér þveröfug fram við það sem orkumálastjóri segir réttilega, að jarðvarmavirkjanir eru framkvæmdar í þrepum stig af stigi, - og gagnstætt því sem er um vatnsaflsvirkjanir, er ekki hægt að sjá fyrirfram hve mikil orkan verður eða hve varanleg hún verður heldur leiðir tíminn það í ljós.
Þess vegna er skynsamlegt að kaupendur orkunnar séu smærri og komi inn jafnt og þétt.
"Atvinna meðan á framkvæmdum stendur" kalla ég skómigustefnu. Þegar framkvæmdum lýkur verður þetta fólk allt atvinnulaust.
Sjónarmiðin í athugasemd númer 4 áttu við fyrir hálri öld og það er eins og sumir haldi að það sé enn að nú sé ártalið 1965.
"Virkjanaframkvæmdir hafa skapað nýjan og betri aðgang að þessum stöðum.." er sagt.
Jú, nú lokar keðja fyrir leiðina frá Kröflu norður í Gjástykki og afleitt er að komast að Dynk.
Þegar búið verður að breyta Gjástykki í kópíu af Heillisheiðarvirkjun "opnast aðgengi" að svæði með borholum, gufuleiðslum, háspennulínum og stöðvarhúsum.
Afleitt aðgengi er nú að fossinum Dynk í Þjórsá sem er ef hann er með fullu rennsli, flottasti stórfoss á Íslandi.
Þegar búið verður að "opna aðgengi" að fosstæðinu með því að virkja hann verður búið að eyðileggja hann.
Ég ferðaðist um 25 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði erlendis og sá því hvergi haldið fram að virkjanir væru forsenda fyrir því að opna aðgengi að náttúruperlum.
Þar sjá menn þá tekjumöguleika í ferðamennsku að ósnortinni náttúru að það er talið borga sig að opna aðgengi án þess að stúta svæðinu fyrst fyrir virkjanir.
1920 hefði það opnað aðgengi að Gullfossi ef fossinn hefði verið virkjaður. Svo er að sjá að menn telji að Sigríður í Brattholti hafi verið hin mesta óþurftarmanneskja með því að berjast fyrir friðum fossins.
Ómar Ragnarsson, 9.2.2010 kl. 12:30
Hvað myndi íslenska þjóðin gera ef hún stæði frammi fyrir því að hér væri engin virkjanleg orka fyrir hendi nema nokkrir smálækir?
1. Flytjast úr landi.
2. Leggjast í rúmið, breiða yfir haus og bíða dauðans.
3. Reyna að bjarga sér á eigin hugmyndum og hugsanlega rifja upp hvort einhver sé innan fjölskyldunnar með háskólapróf sem dugað gæti til að skapa henni lifibrauð.
Ég bíð eftir frumkvæði og verðmætasköpun frá þeim tugum þúsunda Íslendinga sem útrskrifast hafa úr háskólum á kostnað þessarar þjóðar. Bíða margir þeirra eftir því að sendimenn ríkisins hafi samband við þá og bjóði þeim launavinnu hjá þjóðinni?
Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 19:19
Alla mína hunds og kattartíð er búið að endurtaka það sama nógu oft til þess að það hefur orðið að trúarbrögðum í sovétstíl hér á landi:
Það gerist ekkert í atvinnumálum, verða engir vegir lagðir, ekkert símasamband kemur, engin atvinna skapast nema hópur þingmanna komi gangandi fram fyrir kjósendur með álver.
Eftir 40 ára sovétskipulag í Austur-Þýskalandi er svo stór hluti fólksins þar orðið svo vant því að ríkið sjái um allt að það háir þessum hluta Þýskalands stórlega.
Ómar Ragnarsson, 9.2.2010 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.