12.2.2010 | 01:28
Vekur góðar minningar.
Fréttin um fyrstu sérleið ársins í heimsmeistarakeppninni 2010 vekur góðar minningar frá árinu 1981.
Árið 1981 skipar sérstakan sess í minningum mínum. Dagana á undan Sænska rallinu hafði ég verið dag og nótt við myndatökur og fréttaflutning af Kröflugosi sem gaf einstæðar myndir, sem þó áttu eftir að verða enn stórkostlegri í síðasta gosinu þar 1984.
Fyrsta sérleiðin í sænska rallinu, sem við bræðurnir, Jón og ég, ókum í Varmalandi var upphaf að keppnisári hér heima sem var engu líkt. Þetta var líka í fyrsta sinn sem Íslendingar kepptu í heimsmeistarakeppni í ralli.
Þessi keppni var að mörgu leyti fáránlegt ævintýri fyrir okkur með uppákomum í ölllum regnbogans litum.
Sérleiðirnar liggja um skóga og heiðar, allt upp í 500 metra hæð, og það eru fljúgandi hálka og snjór.
Ein sérleiðin er rudd eftir ísi lagðri ánni Klarvelvi sem hér á landi hefði verið kölluð Svartá, vegna þess hve tær hún er en ekki jökullituð.
Þessi hlykkjótta leið er rudd nóttina áður en ekið er um hana og því standa allir keppendurnir jafnt að vígi hvað snertir þekkingu á henni, sem er auðvitað engin.
Á þessari sérleið urðum við meðal 30 efstu, sem var ekki sem verst hjá nýliðum í heimsmeistarakeppni þar sem allir þeir bestu í heiminum keppa.
Það sannfærði okkur um það að Íslendingar gætu einhvern tíma í framtíðinni haslað sér völl meðal þeirra allra bestu í heiminum.
Þátttaka Raikkonens og Saintz í Dakar-rallinu sýnir, að þessi keppnisgrein nýtur vaxandi virðingar með réttu.
Þetta var líka árið þar sem Sumargleðin átti sitt bjartasta sumar og árið þegar fyrsti íslenski sjónvarpsþáttaröðin, sem tekin var á myndband, Stiklur, hóf þá göngu sína sem enn stendur.
Svona er lífið, - stundum gengur allt upp, - og stundum ekki neitt. Þá er betra að ylja sér við það góða en að sýta það slæma.
Lífið er of stutt til að láta það neikvæða skemma meira fyrir en óumflýjanlegt er.
Við fórum í sænska vetrarrallið eftir mikið basl og baráttu við alls kyns vandræði en nutum góðs af orðum norsks rallara sem sagði við okkur: "What is rally without problems? Nothing!" Það er ekkert varið í rallið ef það væru ekki allir þessir erfiðleikar sem þarf að yfirstíga.
Sordo vann fyrstu sérleið ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.