28.2.2010 | 18:37
Lífshættulegur misbrestur í íslenskri umferð.
Sumir ágallar í íslenskri umferð geta verið hættulegri en sýnist í fljótu bragði. Einn þeirra er sá ósiður að þar sem ökumenn þurfa að færa sig yfir að aðra akrein, til dæmis þar sem tvær akreinar sameinast í eina, hleypa þeir sem eru fyrir á akreininni ekki öðrum inn á hana.
Hvergi í nágrannalöndunum sér maður svona hegðun, heldur er fyrirbærið "tannhjól" þar notað, enda lang fljótlegasta, einfaldasta og hættulausasta aðferðin til að láta umferð ganga snurðulaust fyrir sig þar sem ökumenn þurfa að færa sig yfir á aðra akrein.
Hleypir þá hver bíll á beinu akreininni einum bíl inn af aðreininni, - þ. e. einn fyrir einn.
Þetta er lang einfaldast og virkar nánast sjálfvirkt í öðrum löndum.
Ég skal nefna dæmi um það að þessi hegðun var beinlínis lífshættuleg.
Fyrir sex árum ók ég á litlum bíl af Réttarholtsvegi inn á aðrein sem liggur af þeirri götu til austuráttar meðfram Miklubraut, sjá myndir hér við hliðina.
Aðreinin er viljandi höfð mjög löng, nokkur hundruð metrar til þess að umferðin á henni geti á þægilegan hátt blandast umferðinni á Miklubrautinni.
Þegar ég ók austur eftir aðreininni brá svo við að útilokað var að komast inn á Miklubrautina, því að ýmist vildi enginn hleypa mér inn á hana eða að menn beinlínis gáfu í til þess að koma í veg fyrir að ég kæmist.
Þegar ég kom á enda aðreinarinnar varð ég að gefast upp og stöðva bílinn og leit í baksýnisspegilinn til að vera viss um að enginn kæmi aftan á mig.
Þá sá ég að stór amerískur bíll kom í drjúgri fjarlægð í sömu átt og ég eftir akreininni með stefnuljósin á og nálgaðist mig hratt því að greinilegt var að bíllinn var á svipaðri ferð og umferðin til vinstri handar eða um 60 km á klst.
Bíllinn nálgaðist mig óðfluga og ég bjóst við að hann myndi stansa. Skyndilega sá ég, mér til mikillar skelfingar, að bíllinn hægði ekkert á sér og var þar að auki kominn svo nálægt mér að ekkert ráðrúm var til að gera neitt.
Það eina sem ég hafði tíma til að gera var að taka fast í stýrið um leið og ógurlegt högg reið aftan á bílinn.
Höggið var svo mikið að ég missti meðvitund í örstutt augnablik. Þegar ég rankaði við mér hafði bíllinn henst 15 metra áfram, bílstjórasætið hafði bognað og hálfbrotnað og ég hafði beygt stýrishjólið með höndunum, - nokkuð sem ég gæti ekki með nokkru móti ef ég væri beðinn um að gera það.
Ég var aldrei þessu vant á bíl konu minnar sem var nýrri og sterkbyggðari en gamli litii bíllinn minn.
Ef ég hefði verið á honum hefði bílsstjórasætið örugglega brotnað og losnað og ég sennilega henst aftur á bak og út um afturrúðuna.
Kona, sem var á stóra bílnum, var alveg eyðilögð yfir þessu og sagði við mig:
"Fyrirgefðu, en ég er nýkomin úr áralangri dvöl í Ameríku og mér kom ekki til hugar annað en að ég kæmist inn á Miklubrautina. Ég hafði bara ekki getað ímyndað mér að ökumenn hegðuðu sér svona. Ég var farin að halda að stefnuljósin væru óvirk hjá mér og veifaði með hendinni út um gluggann en það hafði engin áhrif, - þeir bara gáfu í og þvinguðu mig til að halda áfram. Þetta tók alla athygli mína og ég sá þig ekki fyrr en ég skall á þér."
Eftir þetta atvik hefur sú sjón að sjá hina einstæðu hegðun íslenskra ökumanna við svona aðstæður svolítið önnur áhrif á mig en flesta aðra. Ég minnist með hryllingi hins harða áreksturs sem gjöreyðilagði bíl konu minnar og varð þess valdandi að ég beygði stýrið á honum eins og ekkert væri á því augnabllki þegar allt varð svart fyrir augum mér.
Athugasemdir
Kannast við þetta Ómar eftir 40 ár í alvöru umferðamenningu. Ég hef sett sér reglur fyrir mig í umferðinni hér og hún er einföld, keyra út í skurð þegar ég sé brjálæðingana koma í bakspeglinum og önnur er að alltaf reikna með að hinir kunni ekki umferðareglurnar. Þetta lærði ég eftir fyrstu aftanákeyrsluna. Og svo keypti ég Mussó!!
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 28.2.2010 kl. 20:12
Sumarið 2008 sá ég hreynt alveg kostulega sjón. Það var bílstjóri, á svona fjallaklúbbsbíll, amerískur Van á 44 tommu dekkjum, að reyna að koma bílnum í næstneðsta bílastæðið á Bankastrætinu, en fyrir neðan var bíll fyrir og annar í stæðinu fyrir ofan. Bílstjóranum til aðstoðar var farþegi bílsins, sem stóð úti á gangstéttinni og reyndi að leiðbeina bílstjóranum inn í þetta stæði sem var of lítið fyrir þessa stærð af bíl.
Auðvitað olli þetta töfum á umferðinni niður Bankastrætið, en ökumaðurinn virtist ekkert taka eftir því, ekki frekar en hann tók eftir því að um 100 metrum í burtu, hjá Kolaportinu, var meira en nóg af auðum bílastæðum.
Þegar bílstjórar auka hraðan í stað þess að hleypa inn á umferð af aðreinum, þá minnir það mig alltaf á þjóðvegarollur, sem alloft herða á sprettinum yfir veginn í stað þess að hleypa bílnum framhjá.
Jóhannes (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 22:15
Tveir vinnufélagar mínir, hafa þá undarlegu skoðun, að þegar maður skiptir um akrein til að komast inn á aðra, þá sé maður brotlegur á þeim einstaklingi sem er þá næsti fyrir aftan, en er allt í einu kominn með bíl fyrir framan sig, örlítið nær sér.
Það virðist einhvern veginn, vera mjög útbreiddur misskilingunr, að ég eigi bilið fyrir framan mig og ég eigi rétt á að verja það. Og, ef einhver reyni að komast inn í það, þá sé sá að brjóta á mér.
Ég mætti fullkomnu skilnings leysi, er ég reyndi að útskýra, að þetta væri fáránleg afstaða.
Að sjálfsögðu eigi að hleypa öðrum inn á milli, og fáránlegt að fillast pirringi, ef einhver kemur inn fyrir framan sig.
Mjög prúðir menn, dagfari - en, sem pirrast yfir sjálfsögðum, rétti annarra til að komast um.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 28.2.2010 kl. 22:24
Þetta er alveg rétt athugað Ómar. Ég lenti síðast í því í gær að fá nett klapp aftan á bílinn á meðan ég beið eftir að komast af afrein og inn á umferðæð í Kópavogi. Það eru ferlega fáir sem skilja þetta einfalda "tannhjólasystem". Menn aka bara sína leið án þess að horfa til hægri né vinstri. Það eru ein gatnamót sem eru alveg ferleg hvað þetta varðar, bæði illa hönnuð og umferðarþung, auk þess sem fjölmargir ökumenn hegða sér þar þvert á bæði reglur, tillitssemi og skynsemi. Þetta eru gatnamótin þar sem beygt er af brúnni á Bústaðavegi til vinstri inn á Kringlumýrarbraut. Þarna er mikill umferðarþungi á álagstímum. En ökumenn sem taka þessa beygju eru margir tregir til að nýta afreinina frá beygjunni til tannhjólaverkunar inn í umferðina á afreininni að Kringlumýrarbraut, heldur reyna þeir að fara beint úr beygjunni og inn á seinni afreinina. Og hinir sem koma frá miðbænum að þessum gatnamótum eru sístoppandi á afreininni til að hleypa hinum inná. Þetta er stórvarasamt og mesta furða að ekki skuli verða þarna nokkrir árekstrar á dag. En þarna gengi umferðin miklu betur ef menn gætu lært að láta þetta ganga eins og tannhjól.
Og það er enginn vandi.
Jón Pétur Líndal, 1.3.2010 kl. 01:53
Ég bý í Þýskalandi og þekki þetta "rennilásakerfi" (heitir það hér) mjög vel og það virkar. Í þau fáu skipti sem ég neyðist til að keyra á höfuðborgarsvæðinu eða vera þar farþegi er ég með hjartað í buxunum...... tillitsleysið er mikið og umferðin alltof hröð miðað við aðstæður. Og allir þessir STÓRU bílar........Sem betur fer stoppa ég ekki lengi fyrir sunnan þegar ég heimsæki Ísland heldur reyni ég að koma mér sem fyrst norður í land
Kveðja
Inga Björk (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 09:53
Það vill gjarnan gleymast að þar sem umferðarmenning er skárri en hér, reynir sá sem er að skipta um akrein eða koma inn á götu af aðrein að aðlaga sig þeim hraða sem er á akreininni sem hann er að fara inn á. Hér á landi, einkum eftir að þessi tannhjóla kenning þín kom fram skipta menn um akreinar án þess að hafa hugmynd um hvað fram fer á akreininni sem þeir eru að fara inn á. Það virkar ekki þannig í öðrum löndum, hvorki autan hafs né vestan. Það þarf að kenna alla þætti umferðarmennigar ekki bara, ekki bara tala um tannhjóla eða rennilásaaðferð, það þarf líka að skýra út allar hliðar, réttindi og skyldur.
Kjartan Sigurgeirsson, 1.3.2010 kl. 11:10
Er núna búin að lesa bæði þennan pistil og þann þar sem þú tekur fyrir þá sem leggja í stæði fatlaðra og gat nú bara ekki annað en skellt uppúr. Ég veit ekki hvort íslendingar geri sér grein fyrir því hvernig þeir haga sér og ég er ekki heldur viss að ég hafi verið neitt betri meðan ég enn bjó "heima" en eftir að hafa nú búið í Svíþjóð í 5 ár þá fæ ég þetta eins og blauta tusu í andlitið í hvert skipti sem ég kem í heimsókn. Fæ í safnið mitt nýja sögu um frekju og yfirgang íslendinga í hverri heimsókn og verð alltaf jafn sár og leið í hvert skiptið. Skil ekki að ég geti fengið heimþrá og hlakkað til að koma til heim í þetta mikilmennsku brjálæði. Held að þetta hafi eitthvað með það að gera að við erum svo lítil þjóð og finnst við þurfa að gera okkur breiðari til að aðrir ekki valti yfir okkur en gleymum í leiðinni að horfa í kringum okkur. Ætti kannski að skilda hvern íslending að búa erlendis í svona 2-3 ár til að átta sig á að heimurinn er pínu stærri og að við á skerinu erum bara pínu lítil og örfá. Það er ekki alltaf bara "ég um mig frá mér til mín" heldur stundum líka þú og þið og ef allt gengur vel þá jafnvel við
Kær kveðja frá Svíþjóð, held áfram að senda snjó til ykkar.
Elín Hrönn Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 11:11
Alveg sammála þér Ómar, og öðrum sem hafa skrifað hér fyrir ofan. Ég hef þá reynslu af umferðar"menningunni" Íslandi að hún endurspegli kenninguna að þeir frekustu (ekki hæfustu) lifa af.
Ég get tekið dæmi frá milljónaborginni Barcelona þar sem hver einasti bíll stoppar umsvifalaust við gangbraut ef einhver ætlar að ganga yfir. Hér stoppar nánast enginn nema það séu ljós við gangbrautina, frekar að menn gefi í til að vera á undan þeim gangandi: "Ég á mikið meiri rétt en þessir gangandi aumingjar". Þú nefndir "tannhjólið" sem virkar fínt út um allan heim, nema hér á landi.
Þeir sem á annað borð nota stefnuljós gera það flestir helst ekki fyrr en þeir eru alveg við það, eða byrjaðir, að beyja. Þetta er til þess að maður treystir ekki þeim fáu sem þó nota stefnuljósin rétt, sem aftur eykur á tafir í umferðinni.
Mín niðurstaða er sú að gatnakerfið á höfuðborgarsvæðinu sé ekki eins meingallað og menn vilja vera láta, það er fyrst og fremst hegðun ökumannana sem er ömurleg og skapar vandamál.
Alli, 1.3.2010 kl. 11:28
Mér finnst nú satt að segja að "tannhjólamenningin" hafi aukist og batnað hér á landi á undanförnum árum þótt vissulega sé alltaf eitthvað um ökumenn sem af einhverjum ástæðum þola ekki þegar einhver þarf að komast yfir á "þeirra" akrein.
Svo finnast mér þeir líka leiðinlegir sem koma á eftir manni á aðreinum en verða endilega að fara út á götuna (jafnvel yfir óbrotnu línuna) á undan manni í stað þess að vera bara í röðinni og láta "tannhjólið" virka.
Öllu verra samt og meira vandamál finnast mér ökumenn sem aka svo nálægt manni að maður sér ekki ökuljós þeirra í baksýnispeglinum.
Ég hef margoft lent í því á undanförnum árum að fá fyrir aftan mig ökumenn sem virðast telja það eitthvert "sport" að keyra eins nálægt næsta bíl og kostur er. Í umferðarlögunum stendur að maður eigi ekki að aka nær næsta bíl en sem nemur því að maður geti óhindrað stöðvað sitt ökutæki á þriðjungi vegalengdar að honum, en þessa reglu brjóta allt of margir allt of oft og eiga ekki séns á að stöðva ef næsti bíll fyrir framan lendir í einhverju óvæntu og þarf að stöðva snögglega.
Það er eins og sumir ökumenn beri alls enga virðingu fyrir öðrum sem um göturnar fara og virðast telja það frekju ef fleiri séu á ferðinni en þeir sjálfir.
Reyndar gæti maður svo sem skrifað heila bloggbók um það sem er ekki nógu gott og almennt í íslenskri öku(ó)menningu.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 12:47
Tannhjólasystemið er vitanlega flott og virkar þar sem fólk áttar sig á því. Fólk virðist eitthvað vera farið að uppgötva það. Svo eru inn á milli ökumenn sem ganga út í öfgar í lipurðinni. Fyrir utan ótal skipti þegar ýmist ég eða aðrir nálægir ökumenn hafa næstum lent í árekstri við bíla sem stoppa í hringtorgi til að hleypa gangandi vegfarendum yfir akreinar sem liggja frá hringtorgunum þá eru til verri moðhausar. Ég lenti í einum nýverið. Ég ók Bústaðaveg til austurs og tók hægri beygju til að fara inn á Kringlubraut í átt til Kópavogs. Þetta var síðdegis á föstudegi og umferð var þung. Ég sá mér til skelfingar að bíllinn annar fyrri framan mig stoppaði til að hleypa umferð sem kom af Bústaðavegi, úr austri, inn á aðrein Kringlumýrarbrautar. Hann hægði ekki á sér til að virkja tannhjólið heldur staðnæmdist alveg. Bíllinn fyrir framan mig nauðhemlaði til að forða árekstri og ég náði að stöðva í tæka tíð líka af því að ég sá í gegnum næsta bíl hvað var að gerast. Því miður tókst næsta manni fyrir aftan mig ekki að gera það og lenti aftan á mér, enda hafí hann minna tækifari til að sjá hvað var að gerast en ég. Hann gjöreyðilagði bílinn sinn á dráttarkúlunni hjá mér. Minn skaði var lítill. Vitlseysingurinn sem stoppaði hleypti nokkrum bílum inn áður en hann keyrði á braut aftur. Ég náði númeri hans og fékk vitni að þessu en var sagt að hann bæri enga sök þó hann hafi klárlega valdið þessu tjóni. Það eru mýmörg dæmi um svona "liðlegheit" og það heitir líkast til ennþá "að gefa séns" í umferðinni eins og sú hegðun sé serstaklega lofsverð og beri að þakka sérstaklega ef henni bregður fyrir. Þetta er vitanlega rangt. Það að gefa ekki séns ber að víta því að það á að vera undantekningin.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 1.3.2010 kl. 17:33
Ég bendi á það að konan, sem ók aftan á mig, var á 60 kílómetra hraða vegna þess að hún aðlagaði sig að umferðarhraðanum á Miklubrautinni á sama hátt og hún var vön í Ameríku.
Hér á landi er allur gangur á þessu og mýmörg dæmi um misskilda tillitssemi manna sem hægja allt í einu á sér og stoppa til að hleypa mörgum inn í einu.
Ómar Ragnarsson, 2.3.2010 kl. 00:04
Sæll Ómar
Það er ávallt athyglisvert þegar koma pistlar frá þér tengt umferðarmálum og hegðun ökumanna. Ég man sem dæmi eftir þeim ýmsu myndbrotum frá þér í sjónvarpinu t.d. aðferð þeirri að halda sér vakandi við langan akstur þar sem blástur á köldu lofti var nýttur.
Varðandi þessa svonefndu rennilásaaðferð þá hefur hún verið að festast æ meir í huga ökumanna. Verð ég vitni að því vegna þess að sú leið sem ég ek til vinnu veldur því að ég er nánast alla leið á aðalbraut.
Það er þó eitt sem ég hef orðið var við. Sumir ökumenn sem eru að koma úr aðreinum fara ekki inná aðalbrautina þrátt fyrir að verið sé að gefa pláss. Hvort þar lyggi á bak við hræðsla vegna fyrri reynslu eða vantraust veit ég ekki.
En þar er tilkomin hætta á "öfga" liðlegheitum, svipaðri þeirri sem Ólafur lýsir að ofan, þar sem ökumaður á aðalbraut nánast stöðvast til að hleypa inná hana sem gerir ástand mun hættulegra fyrir hann og þá sem eftir koma. Hef ég lent í nokkrum svona tilfellum og þá sérstaklega þegar kem eftir Reykjanesbrautinni á aðrein við brúna frá Ástorgi í Hafnafirði .
Þetta virðist þó vera á réttri leið þó ansi margir nashyrningar séu enn í umferðinni.
Ignito, 2.3.2010 kl. 10:58
Ekki veit ég hvernig það verður gert, en það mætti stofna áhugamanna hóp um bætta umferðarmenningu. Það er allt of mikið um að vitlaust hönnuð umferðarmannvirki skapi vitlausa hegðun í umferðinni. Á meðan hönnuðir og þeir sem byggja umferðarmannvirki vita ekki betur, verðum við sem ferðumst um götur borgarinnar að vera í sæmilegri sátt og fara eftir umferðarreglum. Ég veit ekki hvað veldur, hvort það er umferðarfræðsla ökukennsla eða hvað, en það virðist í síauknum mæli vera skoðun ökumanna að gjöf stefnumerkis gefi þeim skilyrðislausan rétt til að skipta um akrein. Einnig er hættuleg ofurkurteisi sumra ökumanna sem virðast telja að réttur þess sem er að koma inn á aðalbraut sé meiri en þess sem er á vinstri akrein aðalbrautarinnar og skipta um akrein án þess að athuga hvort einhver umferð sé eftir akreininni vinstra megin.
Ég sé að það eru margir sem vilja bætta umferðarmenningu, er ekki einhver þeirra sem gæti stofnað til umræðu grunns eins og hér á blogginu eða annars staðar?
Umferðin skiptir okkur öll máli
Kjartan Sigurgeirsson, 2.3.2010 kl. 14:54
"Ég bendi á það að konan, sem ók aftan á mig, var á 60 kílómetra hraða vegna þess að hún aðlagaði sig að umferðarhraðanum á Miklubrautinni á sama hátt og hún var vön í Ameríku."
----------------------
Þetta er þ.s. maður á að gera, en mér finns fæstir hér kunna þetta.
*Margir bíða fremst á aðrein, svo ekki er hægt að komast framhjá þeim, vinna upp hraða, til að komast inn á milli bíla.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 2.3.2010 kl. 15:25
Gatnamótin sem ég var að tala um í minni athugasemd eru einmitt þau sem Ólafur Tryggvason Þorsteinsson er að segja frá. Þetta sem hann lenti í er dæmigert fyrir umferð þarna á hverjum einasta degi, þó það valdi ekki alltaf óhöppum.
Jón Pétur Líndal, 3.3.2010 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.