Á jörðin eftir að éta tunglið?

Fréttin um að stjarna sé að éta fylginhnött minnir mig á bók, sem ég las þegar ég var um tíu ára gamall og hét "Undur veraldar." 

Í henni voru ýmsar skemmtilegar greinar um vísindi og góð útttekt á tilraunum til að klífa fjallið Everest, en það hafði þá ekki enn tekist.  Enn lifa í huga mínum nöfnin Mallory og Norton, ef ég man þá hið síðarnefnda rétt.

Ein vísindagreinin fjallaði um það tunglið myndi smám saman nálgast jörðina og þyrfti hlutfallslega afar lítið til að raska því jafnvægi sem ríkt hefur á milli jarðar og tungls.

Leitt var að því líkum að það eitt að beisla sjávarföllin, sem tunglið veldur, nægði til að ríða baggamuninn.

Síðan var því lýst í smáatriðum hvaða áhrif það hefði þegar tunglið færi að nálgast jörðina uns það félli loksins niður til jarðar með þeim ósköpum að eyða myndi öllu lífi á jörðinni.

Nú eru liðin 60 ár frá því að ég las þessa bók og það væri fróðlegt að vita hvort gangur tunglsins í kringum jörðina sé í algerlega hárnákvæmu jafnvægi, burtséð frá hæpnum ályktunum um sjávarfallavirkjanir. 

Ef það kemst upp að jafnvægið sé ekki nákvæmt út í ystu æsar væri það ágætt rannsóknarefni, þótt það væri mjög langt fram í tímann.

Eitt var þó rétt í umfjölluninni um sjávarfallavirkjanirnar, sem sé það að orkuþörf mannkyns ætti eftir að vaxa svo mjög að hann yxi með veldishraða og yrði að stórkostlegu úrlausnarefni, miklu stærra en menn ímynduðu sér þá.

Og staðreyndin er sú að síðustu 60 ár hefur orkunotkun mannkyns tvöfaldast á hverjum áratug en það þýðir um eða yfir 50 falda aukningu yfir þetta tímabil ef það er í veldishraða eða exponental eins og það heitir víst á fræðimálinu. 

Nýlega mátti nálgast mjög áhugaverðan fyrirlestur bandarísks prófessors við háskóla í Colorado þar sem hann sýnir fram á hve hættuleg sú hugsun geti verið að til dæmis 7% aukning einhvers fyrirbæris á ári sé æskileg.

Hann nefndi mörg dæmi um að slík aukning þætti æskileg á hinum ýmsu sviðum, einkum varðandi neyslu og orkunotkun.  

7% aukning á ári þýðir 100% aukningu, eða tvöföldun á 10 árum, fjórföldun á 20 árum, áttföldun á 30 árum, 16 földun á 40 árum, 32 földun á 50 árum og 64 sinnum aukningu á 60 árum. 

Á svipaðan hátt kann örlítil nálgun tunglsins að virðast smávægileg í byrjun en síðan vex hröðunin æ meira eftir því sem tíminn líður.  


mbl.is Stjarna étur fylgihnött
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Ómar, skemmtilegur pistill.

Samkvæmt þætti sem ég sá á "Discovery" hér um daginn þá þykjast menn hafa mælt það að tunglið fjarlægist jörðina um sem nemur tæpum hálfum meter á ári.

Við erum samkvæmt því að "missa" tunglið frá okkur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 1.3.2010 kl. 16:36

2 identicon

  Tunglið er heldur að fjarlægjast en hitt. Fyrir milljónum ára voru flóð og fjara miklu kröftugri en nú, vegna þess að tunglið var okkur þá nær. Svo að sjávarfallavirkjanir eiga kannski ekki mikla framtíð fyrir sér, í milljónum ára talið. Það var nú það.

Villi G. (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 16:51

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Best væri að hafa tunglið í sömu fjarlægð en skárra að missa það frá okkur en að fá það nær okkur.

Hins vegar gæti það verið efni í útreikninga hvort sá missir í sameiginlegum massa jarðar og tungls sem yrði því samfara ef við misstum tunglið frá okkur gæti orðið til þess að jörðin nálgaðist sólina.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2010 kl. 19:58

4 identicon

Tja, massi tunglsins er nú bara brot af massa jarðar, og vegalengdin rúm ljós-sekúnda (ca 400.000 km) á meðan Sólin er 8 mínútur í burtu. Það er 360-föld fjarlægð.

Nú ætti sólin svo sem og einnig að draga okkur að af sama krafti án tungls.

Jón Logi (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 22:57

5 identicon

Ég held að tæpur hálfur metri sé nú ofmetið. Ég minnist þess að hafa heyrt í einhverjum fræðsluþætti að tunglið fjarlægist um rúma tommu á ári. Það eru um 2,5 sentímetrar.

Daníel (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband