15.1.2007 | 23:55
GALIN VIRKJANAFÍKN - SEINNI HLUTI
Galin virkjanafíkn, - fyrir svo stórum orðum þarf rökstuðning. Lítum fyrst á niðurstöðu hans og haldið þið ykkur!
Virkjanasinnar með dollaramerki í augum stefna nú í fúlustu alvöru að nýjum álverum sem þurfa munu alla virkjanlega orku landsins á sama tíma sem þeir setja fram hugmyndir um stórfellda framleiðslu á vetni hér á landi sem skipta muni sköpum fyrir orkunotkun Evrópu. Og samt verður þessi orka ekki til ef allar álverksmiðjurnar rísa! Og orkuþörf Evrópu er hundraðfalt meiri en öll orka Íslands!
Hvað er það sem leiðir menn til að fara svona langt fram úr sjálfum sér án þess að nokkrum finnist það athugavert? Lítum nánar á feril virkjanafíkninnar.
1. Aðstæður hafa breyst síðan farið var í fyrstu stórvirkjunina á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá bráðvantaði Íslendinga rafmagn og sagt var að ódýrara væri að virkja stórt í samvinnu við stóran erlendan kaupanda en virkja víðar og smærra. Ég keypti það. Renna þyrfti fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun, - 95 prósent útflutnings væru fiskur. Ég keypti það. Afleiddur úrvinnsluiðnaður áls myndi fylgja í kjölfarið. Ég keypti það, - asni, af því að það varð auðvitað ekkert úr því. Þegar Blanda var virkjuð var sagt að ekki mætti hafa öll helstu orkuverin á eldvirku svæði. Ég keypti það, - með semingi þó.
Nú er flest breytt. Við framleiðum brátt fimmfalt meira rafmagn en við þurfum til eigin nota hér heima. Gjaldeyrisöflun er orðin miklu fjölbreyttari en áður og raunar stefnt í of mikla einhæfni varðandi álútflutninginn ef halda á áfram á sama ofurhraða stóriðjustefnunnar. ´
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir jól var sagt að sagan sýndi að úrtölur og andstaða við álver og stórvirkjun á sjöunda áratugnum hefðu ekki átt rétt á sér. Þess vegna ættu þau heldur ekki rétt á sér nú. Höfundur bréfsins er þarna að bera saman gerólíkar aðstæður, lætur sem ekkert hafi breyst á 40 árum og hefur ekkert lært. Eins og alkinn, sem minnist þess enn hvað fyrstu soparnir gáfu mikla nautn og sér ekki að neyslan er komin úr böndunum og allt hefur breyst.
2. Þegar menn gefa sér það að ekkert hafi breyst frá fyrstu álgleðinni fyrir 40 árum gleyma þeir því að það eru takmörk fyrir öllu. Virkjanafíknin hefur margfaldast, - fyrsta álverið var 33 þúsund tonn en nú eru fyrirætlanir um 800 þúsund tonna framleiðsluaukningu í nýjum eða stækkuðum álverum. Og fyrir liggja yfirlýsingar álfurstanna um þörf á minnst 1500 þúsund tonna framleiðsluaukningu ef álverin eigi að vera samkeppnishæf. Þá er sleppt 600 þúsund tonnunum sem Norsk Hydro vill fá að framleiða hér á landi.
Á málþingi Framtíðarlandsins fyrir jól færði Andri Snær Magnason að því gild rök með einfaldri samlagningu á þessari framleiðsluaukningu og þeirri orku sem til þyrfti, að til þess að fullnægja henni þyrfti að beisla alla virkjanlega orku landsins og mættu menn teljast heppnir ef Jökulsá á Fjöllum fylgdi ekki með í lokin. Ég minni á orð forsætisráðherra nýlega að "ólíklegt" væri, - takið eftir orðalaginu, - "ólíklegt væri" að aftur yrði reist jafn stór virkjun og Kárahnjúkavirkjun. Jökulsá á Fjöllum er eini vatnsaflsvirkjanakosturinn sem er jafn stór og Kárahnjúkavirkjun og Geir útilokaði ekki þennan kost.
Munið þið eftir framtíðarsýn virkjanamanna fyrir u.þ.b. 15 árum: Sæstrengur frá Íslandi flytti svo mikla orku til Evrópu að við gætum orðið í sporum olíuríkjanna og spilað á orkuverðið í Evrópu? Við sáum okkur í anda sitjandi í framtíðinni eins og olíufursta í kuflum með túrbana við ysta haf, hafandi ráð Evrópumanna í hendi okkar! Sjö árum seinna komst ég að því að þessi gríðarlega orka var vel innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu!
En nú er draumruglið komið á enn hærra stig: Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins nýlega er vitnað í erlendan mektarmann um hina miklu möguleika Íslendinga til að framleiða vetni til útflutnings til Evrópu og að Ísland geti orðið "Bahrain norðursins."
Enn sitja menn hér uppi á klakanum og dreymir að þeir verði í framtíðinni líkt og olíufurstar í kuflum með túrbana og spili á orkuverðið í Evrópu, - en þessi sýn er enn galnari en fyrr því að það er ekki aðeins út í hött að þessi orkuframleiðsla skipti nokkrum sköpum fremur en fyrir 15 árum, heldur eru menn í þessu delerium að ráðstafa í huganum orku sem verður ekki til ef öll álverin verða reist sem stefnt er að!
Ef þetta er ekki galið veit ég ekki hvað það orð þýðir. Eina skýringin sem ég finn á þessu er sú að í gegnum 40 ára heilaþvott og síbylju um dýrð stóriðju og virkjana séum við orðin svo heltekin af þessari virkjanafíkn að svona er komið fyrir okkur.
Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Athugasemdir
Rök margra byggja á því að viðkomandi telji það sjálfsagt og eðlilegt að við (eða hann) nýtum landsins gæði... og þá auðvitað með því að mölva landið, beisla það og beygja. Virkja. Með tilheyrandi raski. Öll önnur nýting er svo snarlega slegin af með rökleysu þar sem vísað er til þess að "enginn" skoði, "enginn" kaupi, "enginn" borgi fyrir annars konar nýtingu, hver sem hún kann að vera.
Auðvitað þurfum við orku og auðvitað er eðlilegt að við sækjum hana en því verður að fylgja skynsemi og framsýni. Það er óþarfi að "nýting" landsins helgist einungis af því að herða róðurinn í keppninni um flest tonn af áli per haus á heimsvísu. Að puðra allri orkunni okkar í frekan iðnað þar sem arðsemisforsendur eru meira að segja loðnar.
Orkan frá Kárahnjúkum hefði getað dugað okkur lengur og betur til annars, svo eitthvað sé nefnt. Virkjunin hefði aldrei þurft að koma til ef áhersla í atvinnuuppbyggingu hefði verið önnur (og eðlilegri). Þar með hefði verið óþarfi að eyða orðum í hversu sjálfsagt það er að "nýta" landið á óafturkræfan hátt.
J#
Jónas Björgvin Antonsson, 16.1.2007 kl. 00:17
Kárahnjúkar voru óþarfa rask...
Ólafur fannberg, 16.1.2007 kl. 01:03
Velkominn í "blogg veröldina" Ómar.
Ætli þú sért ekki skilgreindur af þeim sem syngja lagið " ál og aftur ál" ( í staðinn fyrir lax og aftur lax) sem "enemy of the state number one"
Við íslendingar erum 50-60 árum á eftir öðrum vestrænum þjóðum í sambandi við iðnbyltinguna.. við eru að fara inn í hana núna þegar flest lönd í kringum okkur eru að fara inn á náttúruvænni leiðir..
Ef að álverksmiðjur eiga að fara að rísa hér út um allt land eins og gorkúlur á haug.. þá held ég að það sé við hæfi að skíra landi nýju nafni og breyta því úr "Ís"land í
"Ál" land . Landið mun þá líka í framtíðinni verða þekkt fyrir öll sín álver en ekki jökla ..Ætli þetta sé framtíðarsýn þeirra sem sitja við stýrið á þjóðarskútunni?
En það passar allavega ekki að segja "hreint land, fagurt land" í sömu setningunni og "ál og aftur "ál" það fittar ekki saman. En við íslendingar erum svei mér þá nærri því jafn heimsk og kaninn svo það er ekki von á góðu því miður.
Agný, 16.1.2007 kl. 01:24
Svo er spurningin hvernig hægt er að koma í veg fyrir þetta álbrjálæði. Við getum aðeins gert það með því að kjósa yfir okkur þá ríkisstjórn sem helst kemur í veg fyrir þetta álæði. Er þá nokkuð um annað að ræða en að kjósa Vinstri græna?? Tek það fram að ég hef aldrei kosið þá. En mér sýnist að þeir séu þeir einu sem munu stana á bremsuni. Eða hvað???
Sigurður H. Einarsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 09:03
Ég viðurkenni það með skömm að ég var stoltur af iðnbyltingu Íslands en eftir að ég hef lesið færsluna þína sé ég þetta allt í nýju ljósi… því miður. Það hefði verið þræl gaman að geta komið með rök á móti, en það er ómögulegt.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.1.2007 kl. 11:13
Í allri þessari umræðu finnst mér vanta áherslu á einn mikilvægan þátt.
Það verður auðvitað alltaf matsatriði hvort og í hversu miklum mæli náttúruverðmætum skuli fórnað til þess að auka þjóðarframleiðslu. Hægt er að meta með sæmilegri nákvæmni hreina og klára peningalega arðsemi náttúrunnar út frá þeim tekjum sem þjóðarbúið hefur af ímynd sinni. Huglægu verðmætin er hinsvegar erfiðara að meta.
Engan samanburð er þó hægt að gera við verðmæti álframleiðslunnar á meðan leynd hvílir yfir raforkuverðinu. Ég get ekki annað en haft stórkostlegar efasemdir um raunverulega arðsemi þessara virkjana/ álvera fyrir þjóðarbúið. Ásókn erlendra stórfyrirtækja í að koma sér hér fyrir með starfsemi sína finnst mér benda eindregið til þess að þau sjái í því meiri hagnað að vera hér en annarsstaðar. Ef síðan er tekið tillit til þess að flutningur hráefna og framleiðsluvöru hlýtur að vera nokkuð hár fyrir verksmiðjur hér norður í ballarhafi, gefur augaleið að raforkuverðið hlýtur að vera álrisunum býsna hagkvæmt.
Nógu sorglegt er að horfa upp á náttúruspjöllin þó að það bætist ekki við að það er hugsanlega bullandi tap á öllu saman í ofanálag.
Árni Árnason (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 11:52
En hvenær verðu þetta galin friðarfíkn?
Kristinn Pétursson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 14:09
Velkominn í bloggheima Ómar, og glæsileg grein um virkjanafíkn! Takk fyrir þetta starf sem þú ert að vinna, ég mun fylgjast með síðunni þinni.
Berglind Nanna Ólínu- og Burknadóttir
Berglind Nanna Ólínudóttir, 16.1.2007 kl. 19:10
Það er alveg ótrúlega gaman að hlusta á þig Ómar og jafn mikið ef ekki enn skemmtilegra að lesa þínar greinar. Sú virðing sem flestir Íslendingar bera fyrir landi sínu og náttúru eru vegna manna eins og þú ert og ber þá helst að nefna sjónvarpsþættina Stiklur sem eru mér ofarlega í minningunni þótt ekki hafi ég verið hár í loftinu þegar þeir voru gerðir. Þar fékk maður annað sjónarhorn á náttúruna fallegu. Ég hef nú ekki haft sterkar skoðanir á þessum málefnum þótt ég hafi eitthvað látið mig varða þessi mál. Það er ekki fyrr en maður les greinar eins og þína að maður virðir fyrir sér krufningu málsins innst inn að beinum kalds sannleikans.
Takk fyrir !
Helgi Þór Guðmundsson, 16.1.2007 kl. 20:03
Takk fyrir Ómar.
Með kveðju.
Ásta Einarsdóttir
Ásta Einarsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 23:12
Takk fyrir þessar greinar Ómar. Það er gott að fá þetta sjónarhorn í umræðuna. Vel rökstuddur texti hjá þér. Bestu baráttukveðjur, Hlynur
Hlynur Hallsson, 17.1.2007 kl. 00:53
Takk fyrir að halda umræðunni gangandi. Það er sannarlega þörf á því. Ég skil ekki þetta virðingarleysi fyrir Íslandi. Hvernig getur íslendingur svikið eigið land í nafni smágróða (ef einhver er)? Landið þarfnast ofurmenna. Haltu þinni vinnu áfram. Við hin horfum á og hjálpum til ef við þorum.
Villi Asgeirsson, 18.1.2007 kl. 09:47
Í framboð með þig Ómar, það dugar ekkert annað! Að öðrum kosti munum við bara sjá kjaftagang um málið eins og "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar. Er það ekki annars Samfylkingin sem stjórnar í Hafnarfirði?
Þórdís (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 18:08
Já í framboð með þig kappi, Óma-listinn til dæmis. Annar góð grein og vel framsett, eins og svo sem má búast við af kappa eins og þér.
Rúnar Haukur Ingimarsson, 18.1.2007 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.