6.3.2010 | 15:11
Ekki einu sinni á kjörstað.
Fyrir utan Laugardalshöllina eru bílastæði, merkt hreyfihömluðum. Þegar ég var þar í dag voru þrír bílar þar í stæðum án þess að hafa merki í gluggum sem vottuðu hreyfihömlunina.
Sjálfur hökti ég langa leið á hækjunum til að komast inn í höllina. Mér hefur tekist að komast hjá því að nota svona stæði hingað til og stefni að því að halda það áfram.
Ef til þess kæmi að ég þyrfti samt nauðsynlerga að nota svona stæði vegna ástands míns myndi ég setja stóran miða í framgluggann með eftirfarandi áletrun:
Er fótbrotinn í gifsi og á hækjum. Sími 6991414. Ómar Þ. Ragnarsson.
Miðað við svörin sem ég fékk um daginn við svona aðstæður gætu svipuð svör og andsvör orðið til við Laugardalshöllina þegar þeir sem ekki eru hreyfihamlaðir nota stæðin:
Svar 1. Það voru laus önnur stæði fyrir hreyfihamlaða þegar ég kom. / Andsvar: Hvernig veist þú hvort þau verði áfram laus á meðan þú ert inn?
Svar 2. Reikna má með því að ég verði stuttan tíma inni. / Andsvar: Hvernig á hinn hreyfihamlaði að vita hvort það tekur stuttan eða langan tíma að kjósa?
Svar 3. Það eru ekki eins margir fatlaðir á ferð í svona færi og í svona kosningum og á venjulegum viðburðum í Höllinni að sumarlagi. / Andsvar: Er ekki hugsanlegt að einmitt núna verði fleiri fatlaðir hér á ferð? Réttlætir þessi ágiskun það að ræna þá stæðum sínum? Er rétt að fara yfir á rauðu ljósi að næturþeli af því að það eru svo fáir á ferli?
Svar 4. Ég skutlaði konunni minni hingað til að kjósa. Hún er hreyfihömluð og merkið hennar er í glugganum. / Andsvar: Ég sá þegar þú komst að þú varst bara einn í bílnum. Það er greinilega verkefni fyrir Sálarrannsóknarfélag Íslands að finna út hvort einhver sat við hliðina á þér.
Fleiri útskýringar mætti nefna en læt þetta nægja.
Sonur minn, sem er bundinn við hjólastól skilur stundum eftir svohljóðandi miða í glugga ófatlaðs fólks sem hefur lagt í stæði sem ætlað er hreyfihömluðum.
Á miðanum hefur staðið þessi áletrun: Ertu viss um að þú sért fær um að aka bíl? Fötlun þín hlýtur að vera sú að þú sért blindur.
Vegna ákalls um mynd í athugasemd verð ég að nota myndir frá því að ég var beðinn um að koma í viðtal í fréttum Stöðvar tvö fyrir nokkrum dögum, því að ég gleymdi að setja kort í vélina í dag.
Á efstu myndinni sést bíll hreyfihamlaðs lagt þannig að hann tekur pláss frá ófötluðum við hliðina !
Raunar er hugsanlegt að orðið hafi að leggja þessum bíl svona vegna annars bíls sem hafi þrengt sér inn á stæðið fyrir hreyfihamlað en er farinn.
Á næstu myndum, sem koma nú inn næstu mínútur, sjást myndir af bílum sem bætast við.
Fyrst bíll þar sem bílstjórinn, þegar hann kom út, kvaðst hafa verið að skjóta fatlaðri konu sinni sem væri inni í húsinu.
Ég á hins vegar kvikmynd af því að þessi maður kemur aleinn í bílnum og hleypur inn að versla og Sálarrannsóknar félagið veður í verkefnum !
Þarna verður til algert rugl því að auk þess sem eitt stæði fyrir ófatlaðan er gert ónýtt til vinstri, er lagt yfir skástrikaða braut á milli stæðanna fyrir hreyfihamlaða, sem ætluð er fyrir þá sem þurfa að flytja eitthvað inn í húsið eða t. d. fyrir einhvern sem kemur þarna á hjólastól, handknúnum eða rafknúnum.
Skrítin þjóðaratkvæðagreiðsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
einhver mætti taka að sér að skella límmiðum á afturrúður bifreiða ófatlaðra sem lagt er í stæði fatlaðra.
eitt sinn sá ég bíl sem lagt var á ská í 2 stæði og einhver snillingurinn hafði límt verðlaunamiða á afturrúðuna þar sem stóð eitthvað á þessa leið;
Þú hefur hlotið 1. verðlaun fyrir að leggja fáránlega. Vinsamlegast haltu því ekki áfram.
Brjánn Guðjónsson, 6.3.2010 kl. 15:53
Ómar minn !
um hvað er bloggið,
Nær hefði mér þótt þú hvetja fólk til að kjósa, því kjörsókn virðist í óskiljanlega dræm, hvort þú hafir kosið að sitja hjá eða kosið NEI skiptir ekki öllu máli heldur það að fólk nýti rétt sinn í svo mikilvægu máli sem þetta ólukku mál er. Að sýna umheiminum að þótt við séum smáþjóð þá látum við ekki stilla okkur upp við vegg og lúffum algjörlega fyrir nýlenduþjóðum eins og Bretum og Hollendingum.
Maður hefði haldið að þjóðarstoltið væri skýrara í þínum ranni nema nátturulega að þú sért einlægur Evrópusinni í takt við heilaga jóhönnu,þá er þetta skiljanlegt.
Ég þykist samt vita að bílastæðisvandamál hafi ekki stoppað hörkunaglann Ómar Ragnarsson.
kveðja frá Tenerife
Friðrik (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 15:59
Ég veit ekki hvað er að fólki sem gerir svona. Sjálfselskan er alveg að drepa það. Lögreglan mætti vera virkari að sekta þetta óláns fólk sem er að spara á sér lappirnar.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 16:00
Af hverju tókstu ekki myndir af bílunum og birtir með þessum ágæta pistli ?
Eiður Svanberg Guðnason, 6.3.2010 kl. 16:05
Nauðsynleg umræða. Ég verð samt að fá að bæta við hana að það er ekki bara fólk í hjólstólum sem hefur leyfi til að nota þessi stæði. Það er mikið af fólki sem af öðrum ástæðum (t.d. hjartasjúkdómum eða lungnasjúkdómum) hefur ekki getur til að ganga langar leiðir og sérstaklega kannski að vetri til og í slæmri færð. Maðurinn minn er einn af þessu fólki og það er nánast í öðru hverju tilviki sem við notum þessi stæði sem við fáum háðsglósur, ónotalegt augnaráð eða önnur neikvæð viðbrögð frá fólki sem telur sig lögreglu götunnar. Ef fólk er með merki í glugga, eins og við erum sannarlega með, þá má það leggja þarna og á ekki að þurfa að útskýra veikindi sín fyrir ókunnugu fólki úti á götu. En ég er sammála, það fer mikið í taugarnar á mér þegar fólk leggur þarna sem ekki hefur leyfi til þess, en ég bið fólk um að kíkja í gluggann áður en það sýnir vanþóknun sína. Veikinda sjást ekki alltaf utan á fólki.
Mjöll (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 16:23
Þú stóðst þig nú bara nokkuð vel Ómar minn að mæta á aðra hæðina á glætunni í morgun. Það var skemmtilegur fundur
Anna Karlsdóttir, 6.3.2010 kl. 17:09
Ég gerði tæknileg mistök, Eiður minn kær, gleymdi að setja kort í ljósmyndavélina svo að myndin fór inn í svonefnt innra minni, og ég veit ekki hvernig ég á að fara að við að ná henni út.
Ég náði aðeins einni mynd inn á innra minnið og þetta var svartur Benz-jeppi af dýrustu gerð.
Kannski ég leiti að myndum, sem ég tók daginn sem ég skaut nokkrum vegna viðtals við Stöð tvö fyrir nokkrum dögum.
Ómar Ragnarsson, 6.3.2010 kl. 17:35
Við hverju er að búast þegar embættismenn borgarinnar bera ekki nokkra virðingu fyrir stæðum fyrir fatlaða. Við Hlíðaskóla þar sem er kjördeild var búið að setja niður stærðar steypustólpa á fimmtudaginn sem í gær var svo hengt á skilti sem á stóð kjörstaður. Skiltinu var haganlega komið fyrir í einu af þremur bílastæðum fyrir fatlaða fyrir framan skólann. Smekklegt ekki sagt?
Dísa (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 17:55
Ég er búinn að blogga bæði á mbl.is og eyjan.is um þau mál sem eru í umræðunni þennan þjóðaratkvæðagreiðsludag og vísa til þessara bloggpistla.
Ómar Ragnarsson, 6.3.2010 kl. 18:14
Ómar. Eitt sinn vann ég fyrir mann sem var í hjólastól. Hann var vinnuveitandi minn og gífurlega réttlátur og klár í kollinum!
Hann lét prenta fyrir sig lím-miða-merki, sem gaf til kynna að aðgangur fatlaðra væri bannaður!
Ég sá lím-miðana á borði hjá honum og spurði hann hvað þetta væri? Hann sagðist hafa látið prenta þessa miða fyrir sig til að vekja athygli á tillits-leysi á aðgengi fatlaðra!
Og þetta virkaði bara vel, vegna þess að fólk fór að hugsa og skammaðist sín fyrir tillits-leysið!
Hann setti þessa miða við innganga sem ekki voru hannaðir fyrir hjólastóla og tröppur!
En þetta var í Noregi! Kanski möguleiki að nota svona "myndræna" pressu á Íslandi? M.b.kv. Anna
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.3.2010 kl. 20:25
Það er alveg stórmerkilegt, og í raun verðugt rannsóknarverkefni, að það virðist oftar en ekki vera bílstjórar á stærstu og dýrustu bílunum sem lítilsvirða meðborgara sína með því að bæði leggja asnalega og jafnvel ólöglega! Ég geri töluvert af því að ganga og hjóla og það er ótrúlegur dónaskapurinn sem virðist fylgja slyddujeppunum sem oft og iðulega er lagt upp á gangstéttir og í raun bara hvar sem er til þess eins og greyin sem keyra þetta þurfi ekki að ganga meira en örfá skref. Rosalega hlýtur verðið á skóm að hafa rokið upp! ;)
Doddi í dótalandi (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 22:52
Ég ætla að láta fljóta með eina sögu um þetta efni: Þannig var að ég var fyrir nokkrum árum síðan að kenna í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Meðal þeirra sem ég var að kenna var ungur maður sem átti gífurlega flottan sportbíl og þekktist þessi bíll hvar sem hann fór og vakti hann mikla athygli. Eitt sinn er ég var að fara að kenna fagið sem hann var í hjá mér sá ég að bílnum (flotta sportbílnum) hafði verið lagt í fatlastæði. Þegar ég kom inn í stofuna sagði ég strax: "B....... sjáðu" og fór með hann að glugganum "Þessi stæði, sem eru svona merkt, eru ætluð fyrir fólk sem er LÍKAMLEGA fatlað það eru ÖNNUR úrræði fyrir þá sem eru ANDLEGA fatlaðir". Það sem fór verst með hann þarna var að bekkjarfélagarnir fóru að hlæja en ég veit ekki til að hann hafi gert þetta nokkurn tíma eftir þennan atburð. Ég hitti þennan mann oft og honum verður það stundum á að nefna þennan atburð og hann segir að nú séu þessi stæði heilög í hans huga. Ég held að flestir sem leggja í þessi stæði geri það hugsunarlaust, þessu verður að breyta og met ég mikils starf þitt á þessum vettvangi.
Jóhann Elíasson, 7.3.2010 kl. 00:21
„Die dümmsten Bauern haben die dicksten Kartoffeln“, segja Þjóðverjarnir.
Mestu fíflin eiga stærstu bílana, geta hinsvegar Íslendingar sagt.Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 08:52
Sæll Ómar
Þú ættir að hugsa málið áður en þú ferð af stað. Þú dæmir hart án þess að hafa til þess forsendur þar sem þú veist ekki sögu þeirra sem þú sérð og telur ófatlaða. Eiginkona mín hefur undirgengist bæði erfiðar aðgerðir og langa meðferð vegna illkynja sjúkdóms. Einkennin eru ekki augljós þó hún þjáist af þessum völdum. Hún ekur ekki bíl vegna afleiðinga sjúkdómsins en hefur heimild til að leggja í stæði ætluð fötluðum. Vegna þráhyggjuofsókna eins og þú stendur nú fyrir vill hún ekki að við leggjum í þessi stæði, hvort sem um er að ræða við spítala, verslanir eða aðra staði.
Reyndar tel ég þessar merkingar á stæðunum nægja flestu hugsandi fólki.
Kristinn (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 21:51
@Kristinn nr. 14
Það er að mínu mati of langt gengið að kalla ábendingar Ómars um þarft málefni "þráhyggjuofsóknir".
Ekki er við hann að sakast þótt aðrir vegfarendur séu fátæklega útbúnir í toppstykkinu. Það hefur nú líka heldur betur sannast að undanförnu hversu mikið vantar uppá hjá íslenskri þjóð þegar kemur að virðingu fyrir lögum og reglu. Svo ekki sé nú talað um almenna kurteisi.
Í þessu, eins og annarri mannréttindabaráttu, er erfiðast að fást við heimsku annarra.
Lana Kolbrún Eddudóttir, 7.3.2010 kl. 23:13
Kristinn
Ég skil hvað þú ert að tala um þó ég sé fylgjandi því að taka hart á þeim sem ekki mega leggja þarna. Málið er bara, ef það er merki í glugganum þá á fólk að láta mann í friði. Þetta er voða auðvelt, merki eða ekki merki, en ekki hjólastóll eða ekki hjólastóll.
Ég skil konuna þína. Ég fæ oft stresshnút í magann þegar við leggjum í þessi stæði vegna reynslu minnar af ofsóknum frá fólkinu í kring og við veljum oft að nota þessi stæði ekki vegna þessa. Mér finnst merkilegt hvað margir eru tilbúnir til að verja þessi stæði og níðast á fólki sem þau réttilega nota, en samt er líka svona stór hópur sem notar þessi stæði án þess að þó mega það!
Þetta er góð barátta hjá þér Ómar! En látum nú orðið berast líka af hinu... af þeim sem ég hef hitt og eru ekki í hjólastól en með leyfi til að nota þessa stæði, hef ég engan hitt sem ekki hefur lent í átökum fyrir að nota þau... við höfum verið elt inn í verslanir og svívirt með látum, það hefur verið öskrað á okkur ljótum blótsyrðum, höfum ítrekað fengið yfir okkur yfirhalninguna að þar sem við séum ekki hjólastólafólk þá eigum við að skammast okkar fyrir að nota þetta stæði (og þá breytir engu þó við sýnum merkið) og svo þetta lamandi stingandi augnarráð, hrista hausinn og að sýna augljós vanþóknun og ganga burt frá okkur. Ég hef bara nóg um að hugsa í lífi mínu þó ég sé ekki lögð í einelti fyrir að nota fötluð stæði líka. Fötlun sést ekki alltaf utan á fólki!
Mjöll (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 17:05
Jæja Ómar Ragnarsson þú annars ágæti maður.
Í þessu máli ert þú ekki að horfa á málið frá öllum hliðum og með þessum aðgerðum þínum ertu beinlínis að hafa skaðleg áhrif á marga fatlaða einstaklinga.
Nú ætla ég bara að lýsa fyrir þér hvernig fötlun getur birst hjá fólki t.d. fólki með MS sjúkdóminn sem stundum hefur verið kallaður ósýnilegur sjúkdómur. Sjálf er ég haldin þessum sjúkdómi og verð oft hreyfihömluð af völdum hans í lengri og skemmri tíma. Ég er með fatlaðra passa í bílnum mínum og ef ég er slæm þá nýti ég mér þann rétt minn að leggja í til þess gerð stæði hvort sem ég er í hjólastól það skiptið með hækju eða ekki. Fólk er stolt og þenur sig í lengstu lög áður en það notar hjólastól eða hækjur.
Fötlunin mín getur birst í því að ég sé tvöfalt, er með svo mikinn svima að þegar ég hreyfi augun við gang er eins og allt sé að falla í kringum mig. Þetta getur valdið ógleði og annari vanlíðan. Kannski á ég ekki að aka bíl í því ástandi en ég á börn og þarf að kaupa í matinn eins og aðrir þó ég sé í þessu ástandi svo ég þen mörkin en geri mér auðvelt fyrir og legg í stæði fyrir fatlaða.
Þá er ég alla jafna þannig að þegar ég geng um 300 metra byrja fæturnir á mér að dofna upp og á endanum verð ég dofin upp að mitti og þó ég labbi oft óhölt inn í verslanir kem ég hölt út. Þá er gott að geta lagt bílnum nálægt inngangi. Ég fæ einnig oft máttminkun í bæði fætur og hendur svo það getur verið þrautinni þyngra að halda á innkaupapokum, hvað þá að halda á dóttur minni og innkaupapokum og þá getur það munað miklu að vera með stæði nálægt inngangi. Þetta getur verið mjög kvalarfullt og íþyngjandi ástand og erfitt að þurfa að kingja stoltinu og leggja í stæði fyrir fatlaða.
Ég legg ekki í stæði fyrir fatlaða þá daga sem ég finn að ég hef orku, mátt og getu til að ganga lengra. En í hvert sinn sem ég legg í slík stæði verð ég hrædd við að fá á mig svona góðborgara eins og þig Ómar minn enda hef ég margsinnis lent í því. Verslunarstjórar koma jafnvel hlaupandi út úr búðum til að skamma mig fyrir að leggja í stæðið án þess að athuga í framrúðuna hjá mér. Ég er 37 ára gömul og lít ekki út fyrir að vera fötluð en er með sjúkdóm sem hefur margsinnis gert mig gjörsamlega hreyfihamlaða og eftir því sem ég geng lengra og meira ögrar sjúkdómurinn mér meira. Stundum íhuga ég hvort ég eigi að haltra inn í verslanir svo ég fái ekki á mig svona fólk enda er vel hugsandi og mjög algengt að ég komi hvort eð er haltrandi út.
En það eru mannréttindi mín að fá að nýta mér svona stæði og ég á ekki að þurfa að þola svona dónaskap frá fólki að það ráðist á mig með skömmum, berji í bílinn minn eða spyrji mig út úr. Ég á að geta haft mín einkamál, mín veikindi útaf fyrir mig. Ég lenti meira að segja í því í fyrra að kaupa mér árskort í Nautilus líkamsræktarstöðinni(sem ég gat svo nýtt mér tvisvar þegar upp var staðið sökum veikinda) og konan í afgreiðslunni mældi mig út og ætlaði ekki að vilja selja mér kort með elli og örorkuafslætti. "Hvers vegna kaupirðu þér ekki bara venjulegt kort?" Ég þurfti að benda aftur á örorkukortið og ítreka að ég ætti rétt á svona korti.
Í dag er ég að skríða saman eftir lömunarkast frá tám og upp að hálsi, blóðtappa í lungum (vegna hreyfihömlunarinnar) auk lifrabólgu vegna lyfjanna sem ég hef þurft að taka en þú sæjir ekki utan á mér að ég sé óheilbrigð á nokkurn hátt. Ég lít bara ansi vel út;)
Ómar Ragnarsson ég bið þig að líta inn á við og íhuga hvort þú eigir að vera í forsvari þessara "umhyggjusömu" borgara sem vernda fatlaðrastæðin fyrir okkur fatlaða fólkið. Í minni orðabók heitir þetta "kærleiksofbeldi" og þeir sem verða fyrir því er fólkið sem upphaflega á að vernda.
Ef þú ætlar að halda þessari herferð áfram bið ég þig um að bæta við þeim skilaboðum að fólk gái í framrúðu bíla áður en það fellir dóm og ráðist að fólki.
Sjálfri finnst mér þetta ekki vera vandamál og ég vil helst að fólk sé ekki að pæla í þessu svo allra augu séu ekki á manni þegar maður stígur út úr bíl í fatlaðra stæði. Fatlað fólk vill fá að lifa í friði og falla inn í samfélagið hvort sem það er í hjólastól eða ekk.
Vinsamlegast svaraðu þessi kommenti því ég vil sjá að þú hafir lesið þetta.
Kveðja María.
María Pétursdóttir, 13.3.2010 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.