Misjöfn staða forseta Íslands.

Það fer eftir atvikum hvort staðan sé þannig að valið standi milli forseta Íslands og viðkomandi ríkisstjórnar. Sjá má frásögn Vigdísar Finnbogadóttur í ævisögu hennar af tveimur atvikum sem varpa ljósi á þetta.

Þegar Matthías Bjarnason hótaði að segja af sér ef Vigdís Finnbogadóttir drægi að undirrita lög um bann á verkfall flugfreyja á afmælisdegi Kvennafrídagsins, var ljóst að valið gæti orðið milli hennar og ríkisstjórnarinnar. Hún skrifaði því undir lögin og afstýrði hættunni á hugsanlegri stjórnarkreppu. 

Þegar kom að því að undirrita lögin um EES mat Vigdís það svo í ljósi reynslunnar og stöðumats að ef hún nýtti málskotsrétt sinn myndi það jafngilda uppgjöri á milli hennar og þáverandi ríkisstjórnar og að hún yrði í kjölfarið að segja af sér embætti.

Þetta væri þeim mun erfiðari staða fyrir hana fyrir þá sök að mjótt væri á munum milli fylgjenda og andstæðinga aðildarinnar. 

Ein ástæða þessa stöðumats hennar gæti hafa verið að mjög erfið staða kæmi upp hjá forseta ef hann lenti upp á kant og í átökum við þingmeirihluta, sæti áfram og þyrfti að taka afstöðu til þingrofs og / eða veita umboð til stjórnarmyndunar. 

Ekki hefur ráðið litlu fyrir Vigdísi þegar hún tók þessa ákvörðun, að hún hafði orðið þjóðinni mjög að gagni í að kynna hana um víða veröld með glæsileik sínum og persónutöfrum. 

Fyrir forsetakosningarnar 1996 var Ólafur Ragnar Grímsson eini frambjóðandinn sem kvað 26. grein stjórnarskrárinnar ekki vera bara bókstaf heldur í fullu gildi í undantekningartilfellum. 

Ég hef alla tíð verið fylgjandi því að þessi öryggisventill væri til staðar, og enda þótt Ólafur Ragnar ætti skrautlegan feril að baki í íslenskum stjórnmálum vó það þyngra í mínum huga að öflugri talsmann og fulltrúa þjóðarinnar út á við væri erfitt að finna. 

Árið 2004 kvað Vigdís upp úr með í viðtali og í bókinni Kárahnjúkar - með eða á móti, það að hún hefði neitað að undirrita lög sem færu í sér óafturkræfan gjörning svo sem lögleiðingu dauðarefsingar, burtséð frá því hvert fylgi slíkt hefði hjá þing og þjóð. 

Hún staðfesti einnig að sama hefði gilt um jafn stórfelldan og óafturkræfan gjörning og Kárahnjúkavirkjun. 

Það urðu mér mikil vonbrigði að Ólafur Ragnar skyldi ekki nota málskotsréttinn 2003 varðandi lög um Kárahnjúkavirkjun, sem mér fannst miklu meira tilefni til en þegar hann notaði málskotsréttinn 2004 um fjölmiðlalögin, þótt ég styddi málskot hans þá. 

Forsetinn nýtti sér þá það sem kallaði "gjá á milli þings og þjóðar" og hafði sigur gegn sjálfum Davíð, þeim síðarnefnda vafalaust til mikillar gremju, sem tókst þó að gera þjóðaratkvæðagreiðslu óþarfa með því að afnema lögin og svipta Ólaf Ragnar ánægjunni af hugsanlegum sigri í henni.  

Aftur nýtti forsetinn sér fyrrnefnda "gjá" auk undirskriftaista InDefence gagnvart Icesavelögunum og sömuleiðis nefndi hann í röksemdum sínum fyrir synjuninni að hæpið væri að þingmeirihluti væri gegn þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Það gerði hann til að draga úr þeirri gagnrýni að ekki væri rétt að ganga gegn þingvilja í þingbundnu lýðræði. 

Hvað sem því líður, sá Ólafur Ragnar það, sem verið hefur áberandi, að stjórninni helst illa á þingmeirihluta sínum.

Kom á daginn að ekki var samstaða hjá stjórnarflokkunum um að afnema lögin og í staðinn var farin sú leið að reyna að ná betri samningum, sem gerðu lögin úrelt. 

Komið hefur fram í nokkrum málum að stjórnin hefur ekki þingmeirihluta fyrir þeim og við það hefur myndast tómarúm sem forsetinn hefur stigið inn í. 

Það kallar á að nú verði ekki lengur dregið, eins og gert hefur verið í bráðum 66 ár, að koma á því skipulagi sem tryggir að beint lýðræði fái að ráða í mikilsverðum málum. 

Reynslan sýnir að 26. grein stjórnarskrárinnar var eina raunhæfa leiðin, sem gafst til þess og það var ljós í myrkrinu í argaþrasinu, sem forystumenn flokkanna buðu upp á í Silfri Eglis nú áðan, að loksins hylli undir þverpólitískan vilja til þess að virkja þjóðarviljann beint. 

En til þess þurftu þeir Heródes og Pílatus, Ólafur Ragnar og Davíð, að verða vinir varðandi synjun og þjóðaratkvæðagreiðluna nú, svo ótrúlegt sem það hefði getað sýnst þegar þeir sóru hvor öðrum eilífan fjandskap í eftirminnilegum orðaskiptum á Alþingi hér á árum áður. 


mbl.is Staðan breytt frá því í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Tengillinn á færslu Þórunnar virkar ekki hjá mér...!? Getur verið að búið sé að loka á hana???

Haraldur Rafn Ingvason, 7.3.2010 kl. 16:36

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar finnurðu fyrir einhverri gremju hjá stjórnarflokkunum gagnvart ákvörðun Ólafs Ragnars, og hvers vegna þá? Ekki er vilji til þess að þessi Icesavesamningur taki gildi?

Sigurður Þorsteinsson, 7.3.2010 kl. 16:39

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

-opinn núna, trúlega bara álag. Flott lokaorð hjá henni:

"Menn verða að tefla sínar skákir til enda. Í þessari stöðu verða ekki leiknir fleiri biðleikir. Valið er fólksins og valið er skýrt: Ríkisstjórn eða forseti."

Nú er spurningin hve lengi er hægt að tefla skák með jafn mörgum herfilegum afleikjum eins og SJSJS hafa leikið...

Haraldur Rafn Ingvason, 7.3.2010 kl. 16:49

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég, sem viðurkenndur fremsti sérfræðingur í valdi Forseta Íslands samkvæmt stjórnarskrá Íslands vil leiðrétta:

Það var Forseti Íslands sem lagði þá tillögu fyrir Alþingi að fjölmiðlalögin skildi afnema.

Lesist aftur: Það var Forseti Íslands sem lagði þá tillögu fyrir Alþingi að fjölmiðlalögin skildi afnema.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 7.3.2010 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband