17.3.2010 | 13:36
Í fótspor snjallra fullhuga.
Ég er búinn að taka það mörg viðtöl við göngumenn á hálendi Íslands og þekki suma þar að auki mjög vel að það þarf ekkert að draga af því að ganga Einars Stefánssonar er mikið afrek.
Fyrst var gengið yfir endilangt landið yfir jöklana þrjá árið 1976. Það gerði Arngrímur Hermannsson við sjötta mann. Þeir hófu gönguna á Grenisöldu á miðri Fljótsdalsheiði og luku henni 22 dögum síðar við Húsafell.
Þeir höfðu 45 kíló af mat með sér, kláruðu hann allan og léttust að meðaltali um 10-15 kíló hver.
Fyrir nokkrum árum gekk Guðmundur Eyjólfsson lengstu gönguna, frá Hornvík suður um hálendi Vestfjarða yfir Holtavörðuheiði um miðhálendið og endaði niður í Vopnafirði. Það var mikið afrek.
Arngrímur Hermannsson fór við sjötta mann á þremur jeppum yfir jöklana þrjá 1986 og var þetta að mörgu leyti tímamótaferð á þeim tímum þegar 35 tommu dekk voru stærstu dekkin. Sjálfur var Arngrímur á 33ja tommu dekkjum!
1991 var farinn leiðangur að frumkvæði Benedikts Eyjólfssonar (Bílabúð Benna) þar sem jeppi ók fyrir eigin vélarafli upp á Hvannadalshnjúk.
1999 var Arngrímur Hermannsson leiðangursstjóri í einu jeppaferðinni sem farin hefur verið fram og til baka yfir Grænlandsjökul. Ég var með í ferðunum 1991 og 1999 og kynntist því hvað liggur að baki.
Næsta stóra skrefið í notkun jeppa var för Freys Jónssonar og fleiri á Suðurskautslandið.
Síðast en ekki síst voru frábær gönguafrek feðganna Haraldar Arnar Ólafssonar og föður hans bæði á Suðurskautslandinu og norðurpólnum, sem lýsa eins og ljósvitar í auðnum heimskautasvæða.
Og nú sýnist mér á fréttum að Haraldur Örn sé á enn einni göngu sinni.
Svona ferðir voru farnar af þeirri blöndu af forsjálni, þekkingu, varfærni og dirfsku sem einkennir flest brautryðjendaverk. Til hamingju, Einar Stefánsson!
Andstæða við þær er ganga fransks ofurhuga suður yfir Vatnajökul hér um árið en hann fannst illa til reika við suðausturhorn jökulsins og mátti þakka fyrir að lifa af.
Síðar fór hann í enn fráleitari göngu áleiðis til Norðupólsins og hefur ekki sést síðan.
Mig langaði bara til að prófa gönguskíði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.