19.3.2010 | 13:11
Aðdáandi Páls og kríunnar fer í bíó í dag.
Ég fer ekki oft í bíó en ætla að gera það í dag til að sjá heimildarmynd Páls Steingrímssonar um kríuna sem verður frumsýnd í Háskólabíói klukkan 17:00.
Ástæðan er tvöföld: Ég er frá barnæsku mikill aðdáandi kríunnar og hina síðari áratug, allt frá því í árdaga Sjónvarpsins, aðdáandi Páls Steingrímssonar og konu hans, Rúríjar, sem eru í fremstu röð baráttufólks fyrir því að við Íslendingar kynnumst mestu verðmætunum, sem við eigum, hinni einstæðu náttúru landsins.
Um kríuna þarf ekki að fjölyrða, þennan langfleygasta fugl veraldar, sem hefur valið sér sitthvorn enda hnattarins til búsetu.
Flugfimi hennar er viðbrugðið og ég set hana í flokk með súlunni og erninum, sem getur veitt lax úr vatni án þess að blotna neitt nema á klónum.
Varla er hægt að hugsa sér fugl sem búinn er bestu eiginleikum sanns Íslendings, annars vegar tryggð við heimkynni sín á hjara veraldar, og hins vegar þeirri heimshyggju sem felst í því að vera víðförlasta lifandi vera á jörðinni.
Páll er líka langfleygur að því leyti að viðfangsefni hans hafa spannað allar heimsálfur, allt frá nyrsta hjara til Suður-Íshafsins og ekkert lát er að finna á krafti og hugarafli þessa magnaða manns sem verður áttræður í sumar og hefur aldrei verið sprækari.
Hugsjónaeldiinn kyndir hann ákaft og hefur aldrei spurt um það hvort þjóðþrifaverk hans boðið upp á ávísun á fjárhagslegan ágóða.
Þannig er mér til dæmis vel kunnugt um það að myndin sem hann gerði í samvinnu við Magnús Magnússon, "Öræfakyrrð", var gerð með tapi.
Þessi mynd og ástaróður hennar til Íslands, varð svanasöngur Magnúsar og mun, þótt síðar verði, halda nafni hans á lofti ekki síður en hans miklu afrek í bresku sjónvarpi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.