11.4.2010 | 16:36
Að standa í biðröð.
Í kvikmyndinni um "Öskubuskumanninn", hnefaleikarann sem þurfti á tímabili að standa í biðröð í kreppunni miklu til þess að snapa vinnu við höfnina og leita á náðir fátækrahjálpar, kemur vel fram það andrúmsloft skammar, sneypu og niðurlægingar sem slíku fylgir.
Niðurlægingin varð enn meiri við það að vera hafnað hvað eftir annað á meðan aðrir voru heppnari.
James J. Braddock handarbrotnaði í atvinnugrein sinni og gaf sér ekki nægan tíma til að láta brotið gróa vegna fátæktar. Fjölskyldan svalt nema hann færi sem fyrst inn í hringinn á ný og tæki áhættuna að brjóta ekki höndina á ný. Þess vegna lenti hann í vítahring og braut höndina aftur og aftur.
Síðar snerist gæfan með honum á einstæðan hátt og hann varð dáður heimsmeistari í þungavigt.
Handarbrotið hafði að lokum orðið honum til góðs, því að hann neyddist til að nota hina hendina, sem hafði verið veikari í hringnum, og þjálfa hana upp í vinnunni á meðan hin var brotin, - vinna í raun einhentur hið sama og aðrir notuð báðar hendur til.
Þegar hann síðan kom í hringinn vegna tómrar heppni gegn þekktum boxara og enginn hafði trú á því að hann gæti neitt, kom hann hinum öfluga andstæðingi í opna skjöldu með hinu nýja leynivopni sínu.
Sú var tíðin á kreppuárunum á íslandi að svona biðraðir voru við helstu vinnustaði verkamanna í Reykjavík, svo sem "á eyrinni", - við Reykjavíkurhöfn.
Þetta var enn svona á árunum 1954 og 55 þegar ég vann við höfnina í fríum, aðeins 14-15 ára gamall.
Ég fór í biðröð og beið eftir því að Jón Rögnvaldsson yfirverkstjóri veldi þá úr sem fengju vinnu þann daginn.
Ég fór nokkrum sinnum erindisleysu en síðan kom að því að fyrsta tækifærið gafst þegar óvenju marga þurfti í vinnu dagsins. Það nýtti maður vel og hreinlega djöflaðist til þess að sanna að maður ætti erindi í þessa erfiðisvinnu og væri fullgildur verkamaður.
Ég var það ungur að ég áttaði mig ekki á því hve rangt ég gerði mörgum þeirra til, sem stóðu í biðröðinni með mér og fengu ekki vinnu á sama tíma og ég var valinn.
Kannski lögðu sumir þeirra ekki eins hart að sér og ég til að sanna sig fyrir verkstjórunum, en kannski gátu þeir það ekki.
Þegar ég síðar rifjaði þetta upp í minningunni minntist ég og minnist enn svips sumra þessara manna, svips djúprar þjáningar þegar urðu hvað eftir annað að upplifa opinbera höfnun í því litla samfélagi sem Reykjavík var.
Það er vont að slíkir tímar séu komnir aftur. Er engin leið að komast hjá því að þetta sé svona?
Fjallað um íslenska fátækt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ja... Ómar ... þegar stórt er spurt ...
Annars held ég að besta leiðin sé að hver og einn reyni að gera sitt til að bæta þetta ástand. Ég reyni til dæmis að gera mitt til að lífga upp á tilveruna ... var til dæmis að fá til landsins alveg frábærar Húmorpumpur fyrir alla sem í vantar húmorinn.
Svo er bara spurning hvort fólk vilji gera eitthvað annað en rífast? Mér sýnist það vera "trendið" ... allir að rífast. Það er "inn" í dag.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 17:04
Já þetta voru niðurlægjandi tímar fyrir mjög marga þarna á "Eyrinni" og ekki bara fyrir þá sem lentu í bíðröðinni og eltu yfirverkstjórann hann Jón Rögnvaldsson og fengu oft enga vinnu..
Eimskip hafði fjögur forgangs gengi við uppskipun þar sem lestar skipanna voru yfirleitt fjórar.
Og það var grimm samkeppni þar á milli að sanna getu sína og halda vinnunni í sínu gengi.
Fjórðagengið var í slæmri stöðu kæmi skip með aðeins þremur lestum.
Þeir fundu ráð við því.
Bara að djöflast meira við vinnuna og mynda þannig forskot.
Og fyrir vikið uppskáru þeir nafngiftina "Djöflagengið" Svona var harka atvinnuleysisins miskunnarlaus...
Sævar Helgason, 11.4.2010 kl. 17:06
Sæll
Það voru enn biðraðir í vinnu á bryggjunni í Keflavík 1976 þegar ég byrjaði 15ára að vinna,það er ekki lengra síðan.Og í dag er þetta ekki mikið skárra, mikið af stærstu baráttumálum verkalýðsins til dæmis starfsaldur á ekki lengur við.
Friðrik Jónsson, 11.4.2010 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.